Ríkisstjórnir Norðurlanda slá enn á frest sameiginlegu skilagjaldskerfi

21.04.16 | Fréttir
Karin Gaardsted
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Allt að 400–500 milljónum dósa er árlega haldið utan skilagjaldskerfa norrænu landanna samkvæmt úttekt Norðurlandaráðs, ekki síst í tengslum við landamæraverslun. Ríkisstjórnirnar hundsa vandamálið og standa aðgerðalausar hjá að mati Norðurlandaráðs, en það vill að búið verði til skilagjaldskerfi þvert á landamæri Norðurlanda.

Norðurlandaráð hefur um árabil þrýst á um að búið verði til skilagjaldskerfi milli norrænu landanna. Í svari ríkisstjórna Norðurlanda til Norðurlandaráðs hafna þær því nú að rannsaka málið nánar, meðal annars með vísan til þess að árið 2018 verði innleitt nýtt skilagjaldsfyrirkomulag milli Danmerkur og Þýskalands.

Svarið var veitt í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs í Ósló 19. apríl, en norræna sjálfbærninefndin er ekki ánægð með þau skilaboð.

„Vafi er kominn upp varðandi samninginn milli Danmerkur og Þýskalands, þannig að ríkistjórnirnar geta ekki haldið því fram að hann sé í höfn og hann leysir heldur ekki vandann á Norðurlöndum. Ríkisstjórnirnar hafa í svari sínu til Norðurlandaráðs í raun gert lítið úr þeim milljónum skilagjaldslausra dósa sem fluttar eru yfir landamærin, sérstaklega frá Þýskalandi til Danmerkur og Svíþjóðar, en einnig milli norrænu landanna og milli Eistlands og Finnlands,“ segir Karin Gaardsted, þingmaður danskra jafnaðarmanna og meðlimur norrænu sjálfbærninefndarinnar.

„Það vekur undrun að ríkisstjórnir Norðurlanda taki þetta ekki alvarlega. Annars vegar er um að ræða verulegan umhverfissóðaskap, því dósunum er fleygt út í náttúruna, hins vegar verulegt verðmætatap, því dósunum er ekki safnað saman til endurvinnslu heldur fara þær í brennslu með venjulegu heimilissorpi,“ segir Karin Gaardsted ennfremur.

„Það er ekki ásættanlegt að ríkisstjórnirnar skuli hafna tillögum Norðurlandaráðs án þess að færa fyrir því haldbær rök. Úr því að ríkisstjórnirnar hafa brugðist neyðumst við til að athuga hvort Norðurlandaráð geti stuðlað að því að lausn finnist með því að ræða við skilagjaldssamtökin og drykkjarvöruiðnaðinn,“ segir Thomas Finnborg, þingmaður sænska Hægriflokksins.

Dósir fara einkum forgörðum í tengslum við landamæraverslun. Þess vegna þrýstir Norðurlandaráð á um að hægt verði að fá greitt skilagjald þvert á landamæri norrænu landanna.

Norðurlandaráð heldur þess vegna virkri hvatningu sinni til ríkisstjórna Norðurlanda um að vinna með landsbundnu skilagjaldssamtökunum að því að móta og skrifa undir samning um gagnkvæma greiðslu skilagjalds fyrir áldósir og plastflöskur á landamærasvæðum á Norðurlöndum.