Staða finnsku og íslensku í norrænu samstarfi til umfjöllunar á þinginu
74. grein í starfsreglum Norðurlandaráðs er miðlæg í þessu máli. Í henni stendur: „Tungumál norrænu ríkjanna eru talin jafngild á fundum Norðurlandaráðs. Vinnutungumálin eru danska, norska og sænska. Bjóða skal upp á túlkun á og úr finnsku og íslensku eftir þörfum. Þýða ber mikilvæg skjöl á tungumál norrænu ríkjanna.“
Í framkvæmd felur þetta m.a. í sér að fundargögn í samstarfinu eru skrifuð á einhverju skandinavísku málanna og að gerð er krafa um að allt starfsfólk á skrifstofu Norðurlandaráðs geti tjáð sig reiprennandi, bæði munnlega og skriflega, á einu skandinavísku máli. Hluti skriflegra fundargagna í tengslum við fundi Norðurlandaráðs er þýddur á finnsku og íslensku, en ekki öll gögn. Á öllum fundum, bæði á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, er hægt að óska eftir snartúlkun á og úr finnsku og íslensku.
Þetta er réttlætismál og grundvallaratriði. Við eigum að geta tekið þátt í samstarfinu á sömu forsendum og þingmenn frá skandinavíska málsvæðinu.Finnsku og íslensku þingmennirnir telja að þeim lið starfsreglnanna, sem snýr að því að tungumálin séu talin jafngild, sé ekki fullnægt eins og er.
„Við viljum að finnskan og íslenskan öðlist sömu stöðu innan samstarfsins og skandinavísku málin,“ segir Juho Eerola frá Finnlandi, varaforseti Norðurlandaráðs og einn þeirra sem áttu frumkvæði að breytingatillögunni.
Valgerður Gunnarsdóttir, formaður landsdeildar Íslands í Norðurlandaráði, tekur undir þetta.
„Þetta er réttlætismál og grundvallaratriði. Við eigum að geta tekið þátt í samstarfinu á sömu forsendum og þingmenn frá skandinavíska málsvæðinu.“
Málið hefur verið til meðferðar í Norðurlandaráði við ýmis tækifæri undanfarið ár og landsdeildir landanna hafa einnig gefið álit sitt á hugsanlegri breytingu.
Að ítarlegri úrvinnslu lokinni verða tveir valkostir á borðinu þegar hinir 87 þingmenn greiða atkvæði um málið á þinginu í Helsinki í byrjun nóvember. Önnur tillagan er upprunaleg tillaga finnsku og íslensku landsdeildanna, sem felur í sér breytingu á 74. grein á þá leið að finnska og íslenska öðlist að öllu leyti sömu stöðu og sænska, norska og danska í norrænu samstarfi.
Hin tillagan er málamiðlunartillaga, sem myndi bæta stöðu finnsku og íslensku innan samstarfsins en án þess þó að starfsreglunum yrði breytt. Nái sú tillaga fram að ganga verður m.a. leyfilegt eftirleiðis að leggja inn þingmannatillögur á finnsku eða íslensku, allar fundargerðir verða aðgengilegar á finnsku og íslensku og stærri hluti fundargagna en nú er verður aðgengilegur á öllum málunum.
Ef marka má umsagnir landanna um málið nýtur finnsk-íslenska tillagan fyrst og fremst stuðnings finnsku og íslensku þingmannanna.
Hinn finnski Juho Eerola vill ekki geta sér til um niðurstöðu væntanlegrar afgreiðslu. Þar mun valið standa á milli tveggja tillagna. Þriðji möguleikinn er að engar breytingar verði gerðar á stefnu ráðsins um vinnutungumál. Eerola er þó bjartsýnn.
„Að okkar mati er hin endurbætta tillaga okkar raunhæf og góð og ætti að geta hlotið hljómgrunn hjá hinum löndunum. Meðal annars hefur því verið bætt inn að nýrri tilhögun megi ekki fylgja aukinn kostnaður fyrstu fimm árin.“
Endanleg atkvæðagreiðsla um málið fer fram 2. nóvember.