Staða finnsku og íslensku í samstarfinu verður bætt

02.11.17 | Fréttir
Nordiska rådets session
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Ágreiningurinn um vinnutungumál Norðurlandaráðs var leystur með málamiðlunartillögu sem bætir stöðu finnsku og íslensku í norrænu samstarfi umtalsvert. Það var landsdeild Finnlands sem átti frumkvæði að breytingunni.

Upphaflega var þess krafist að finnska og íslenska yrðu gerð að opinberum vinnutungumálum á vettvangi norræns samstarfs. Samkvæmt tillögunni hefði sú leið gert þessum tungumálum jafnhátt undir höfði í samstarfinu og skandinavísku málunum. Staða norrænu tungumálanna á vettvangi ráðsins hefur verið til umræðu æ síðan og hafa ýmsar lausnir verið lagðar til.

„Við erum ekki komin í mark, en höfum náð langt áleiðis,“ segir Hans Wallmark, sem kynnti málamiðlunina á Norðurlandaráðsþingi fyrir hönd forsætisnefndarinnar 
„Við erum sátt við niðurstöðuna,“ segir Erkki Tuomioja, fulltrúi í landsdeild Finnlands. Undir orð hans taka Juho Eerola og Maarit Feldt-Ranta, sem lýsa ánægju sinni með að Norðurlandaráð hafi hlustað á óskir Finna og Íslendinga. Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi í landsdeild Íslands, fagnar einnig niðurstöðunni og segir hana skref í rétta átt. 

Samkvæmt málamiðluninni sem samþykkt var gefst öllum þingmönnum kostur á að afhenda þingmannatillögur á sinni eigin tungu, og fundargerðir sem skrifaðar eru á skandinavísku málunum verða eftirleiðis þýddar á finnsku og íslensku.

Skrifstofu Norðurlandaráðs verður ennfremur falið að kanna hvort hægt er að einfalda og auka skilvirkni í starfsháttum Norðurlandaráðs varðandi fundargögn og fyrirkomulag funda.

74. grein í starfsreglum Norðurlandaráðs hefur verið miðlæg í þessu máli. Í greininni stendur: „Tungumál norrænu ríkjanna eru talin jafngild á fundum Norðurlandaráðs. Vinnutungumálin eru danska, norska og sænska.“ Samkvæmt þeirri ákvörðun sem tekin var um málið í dag verður þeim lið tillögunnar sem snýr að starfsreglum Norðurlandaráðs og túlkun á stöðu vinnutungumálanna skírskotað til forsætisnefndar og fjallað um hann á 70. þingi Norðurlandaráðs í Ósló 2018.