Styrkir til Norrænna úrvalsverkefna í orkumálum auglýstir

08.12.14 | Fréttir
Högspänning
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norrænar orkurannsóknir auglýsa styrki til úrvalsverkefna í orkumálum. Umsóknarfrestur er til til 19. febrúar 2015. Samtals nema styrkirnir 80 milljónum norskra króna. Þetta er mesta og mikilvægasta sameiginlega styrkjaúthlutun Norðurlanda i orkumálum undir hatti Norrænu ráðherranefndinnar á næstu fjórum árum.

Metnaðarfull og áberandi norræn verkefni

Í þessari úthlutun upp á 80 milljónir norskra króna verða veittir styrkir til þriggja til fimm Norrænna úrvalsverkefna sem mega taka allt að fjögur ár. Verkefnin eiga að vera metnaðarfull og áberandi og snúast um þverfaglegar rannsóknarspurningar frá norrænum sjónarhóli sem eiga að stuðla að því að löndin nái markmiðum sínum á sviði orku- og loftslagsmála. Þau eiga að stuðla að nánu og skilvirku samstarfi norrænna rannsóknarmiðstöðva, orkumálarannsóknum og þróunarstarfi í heimsklassa, og að því að skilað verði rannsóknarniðurstöðum sem hafa pólitískt gildi. Verkefnin sem styrkt verða eiga að snúast um orkutækni og -kerfi sem gegna lykilhlutverki í því að löndin uppfylli markmið sín og framtíðarsýn í orku- og loftslagsmálum. Tillögur að verkefnum eiga að falla vel að Áætluninni um norrænar orkurannsóknir 2015-2018, en í henni er lýst helstu viðfangsefnum sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

Styrkveiting í tveimur þrepum

Norrænum rannsóknarmiðstöðvum er boðið að skila stuttum tillögudrögum í síðasta lagi 19. febrúar 2015. Þeim sem komast áfram eftir fyrstu umferð verður boðið að skila fullunnum tillögum í mars 2015. Í Norrænu úrvalsverkefnunum á að leggja áherslu á að skapa norrænan virðisauka, á rannsóknarniðurstöður sem hafa pólitískt gildi og á kerfissjónarhorn. Rannsóknarstofnanir eiga að vera í forsvari fyrir norrænu úrvalsverkefnunum, en jafnframt er mjög hvatt til þess að fundnir verði áhrifamiklir samstarfsaðilar úr hópi iðnfyrirtækja til að auka gildi og áhrif rannsóknarstarfsins. Einnig er hvatt til þess að fundnir verði samstarfsaðilar úr opinbera geiranum og úr hópi frjálsra félagasamtaka þar sem við á. Skilyrði er að aðilar frá að minnsta kosti þremur norrænum löndum taki þátt í verkefninu. Einnig er hvatt til þess að fundnir verði samstarfsaðilar frá Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi. Tímaáætlun 8. desember 2014: Auglýst eftir tillögudrögum að úrvalsverkefnum 15. janúar 2015: Upplýsingafundur haldinn á Netinu (skráning á heimasíðu styrktaráætlunarinnar) 19. febrúar 2015: Frestur til að skila tillögudrögum rennur út kl. 15 (Mið-Evróputími) 23. mars 2015: Umsækjendum sem hafa sent inn tillögudrög sem hafa verið samþykkt boðið að senda inn fullunnar tillögur

Umsóknir

Sjá yfirlit um Norræn úrvalsverkefni, þar á meðal um upplýsingar um kröfur til verkefnanna og umsóknarferli.

Vinsamlegast lesið Áætlunina um norrænar orkurannsóknir 2015-2018 áður en umsókn er send inn. Nánari upplýsingar Skoðið svör við algengum spurningum á heimasíðu styrktaráætlunarinnar