Tilfærsla ríkisstarfa erfitt en árangursríkt ferli

28.06.18 | Fréttir
Regionalministrar
Ljósmyndari
Anna Rosenberg
Flutningur ríkisstarfa frá höfuðborgarsvæðinu og staðsetning nýrra stofnanna í fámennum landshlutum eru áhrifaríkar leiðir til að dreifa vexti og þróun um allt landið. Þetta er ályktun margra af norrænu ráðherrunum á sviði byggðaþróunar.

Málefnið vekur gjarnan sterk viðbrögð. Þetta hefur einnig í för með sér tímabundið minnkaða framleiðslu og samkeppnishæfni. En slík dreifing er kostnaðarins virði, því hún ýtir undir hærra menntunarstig, betri vinnumarkað og stuðlar að því að fólk geti búið á landinu öllu.

Þetta er reynsla margra af norrænu ráðherrunum á sviði byggðastefnu, en þeir ræddu málið á ráðherrafundi sínum í Haparanda þann 27. júní.  

8000 störf færð frá Kaupmannahafnarsvæðinu

Danmörk er nú í annarri lotu sinni af tilfærslu ríkisstarfa á svæði utan Kaupmannahafnarsvæðisins. Um 4000 störf færast til 49 borga og bæja, með það að sjónarmiði að styðja við byggðaþróun í Danmörku. Fyrsta lotan fór fram árið 2015 en þá voru 3800 störf færð frá Kaupmannahafnarsvæðinu til 38 borga og bæja í öðrum landshlutum.

Sænska ríkistjórnin hefur fært 2000 ríkisstörf á starfstímabilinu og hefur jafnframt fylgst með þróuninni í Danmörku af miklum áhuga. 

Sigmund Lubanski, aðstoðarforstjóri við danska viðskiptaráðið (Erhvervsstyrelsen), segir að um fjórðungur starfsfólks hafi hingað til flust með vinnustöðunum. Afgreiðslutími hefur meðal annars lengst hjá sumum af stofnunum sem færðar voru, þar sem starfsfólk hefur verið reynslulítið.

Hæft starfsfólk má finna um allt land

- En það er tímabundinn vandi. Flutningur ríkisstarfa stuðlar að því að hæft starfsfólk haldist á landsbyggðinni. Við höfum einnig flutt ákveðnar menntastofnanir, sem hefur styrkt enn frekar við þessa jákvæðu þróun, segir Sigmund Lubanski.

Noregur hefur hvað mesta reynslu af því að koma upp opinberum stofnunum í dreifbýli og það hefur stuðlað að bættum búsetuskilyrðum, betri vinnumarkaði og að grunnþjónustu sé haldið uppi.

Jon Georg Dale, ráðherra landbúnaðar og matvæla í Noregi, talar einnig um tímabundið minnkaða framleiðni og samkeppnishæfni, sem og gagnrýni frá starfsmönnum þeirra vinnustaða sem færðir eru.

Krefst pólitísks hugrekkis

- Þetta krefst pólitísks hugrekkis og langtímavilja. Það er því auðvitað mjög stór kostur ef hægt er að opna nýjar ríkisstofnanir úti á landi strax frá upphafi, segir hann.

Ísland hefur ekki fært til ríkisstörf í miklum mæli, en jafnvel frekar hvatt til aukinnar samþjöppunar í Reykjavík. Nú hefur ákveðin endurskoðun átt sér stað, en stóra byggðamálið er þó að koma ljósneti í öll heimili á Íslandi.

Ísland veðjar á ljósnet

- Byggðastefnan hér áður fyrr snerist eingöngu að því að fá fólk til að flytja til Reykjavíkur. En nú teljum við að fólk eigi að geta búið þar sem það kýs. Ef Ísland allt á að standa sterkt, verða allir að hafa sama aðgengi að heilsugæslu, atvinnu og menntun, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

Tengiliður