Tilhneiging virðist til aukinnar misskiptingar á vinnumarkaði

27.11.18 | Fréttir
Foto:Priscilla Du Preez
Photographer
Priscilla Du Preez, Unsplash
Grípa verður til aðgerða ef norrænu ríkin vilja halda í eitthvað af heimsþekktu vinnumarkaðskerfi sínu. Þau verða að byggja upp nýja stefnumótun til mótvægis við vaxandi misskiptingu, ójafnrétti og þekkingargjár. Megintilhneigingar á vinnumarkaðinum eru í þá átt að misrétti muni aukast og menntunarþörf vaxa. Þetta kemur fram í fyrstu áfangaskýrslu norræna rannsóknarverkefnisins Vinnumarkaður framtíðar sem kynnt er í dag.

Vinnumarkaður framtíðar snýst ekki bara um vélmenni. Vísindamennirnir benda á að umræðan um framtíðarvinnumarkaðinn snúist iðulega of mikið um tækniþróun og of lítið um alla hina þættina sem máli skipta.

Loftslagsbreytingar geta til dæmis kippt stoðunum undan viðkvæmum hagkerfum og því getur fylgt flóttamannastraumur.

Fjórar megintilhneigingar sem hafa áhrif á Norðurlönd

Hvaða megintilhneigingar knýja fram breytingar á vinnumarkaði og hvernig hafa þær áhrif á störf og starfsskilyrði á Norðurlöndum?  

Þetta eru spurningarnar sem leitað er svara við í fyrsta hluta norræna rannsóknarverkefnisins sem norrænu atvinnumálaráðherrarnir fimm hafa pantað.   

Rannsóknaheimurinn er að koma sér saman um að megintilhneigingarnar fjórar séu 1. lýðþróun, þ.e. breytingar á íbúaþróun sem leiðir til hækkandi meðalaldurs, fólksflutninga og þéttbýlismyndunar 2. loftslagsbreytingar sem gerir græn umskipti nauðsynleg en leiðir einnig til flóttamannavanda 3. hnattvæðing framleiðslu og verslunar 4. tæknilegar breytingar, þ.e. hröð þróun stafrænnar væðingar, vélmennavæðingar, gervigreindar og líftækni.

Stórátak á sviði framhaldsmenntunar nauðsynlegt

Gert er ráð fyrir að vinnufærum íbúum í Evrópu muni fækka um 45 milljónir manna á næstu sex áratugum en að þessarar lýðþróunar muni gæta minna á Norðurlöndunum en annars staðar í álfunni.

„Fæðingatölur okkar hafa verið lítillega hærri og innflutningur fólks meiri í samanburði við aðra hluta Evrópu. Þess vegna er þrýstingurinn á Norðurlönd ekki alveg eins mikill. En þetta þýðir um leið að við getum ekki nýtt vinnuafl frá Evrópu með sama hætti og áður,“ segir Johan Røed Steen, vísindamaður hjá FAFO og meðhöfundur rannsóknarskýrslunnar.

Áskoranirnar á Norðurlöndum snúast um að mennta fólk sem flytur til Norðurlanda og aðlaga það að vinnumarkaðinum.

En það er líka þörf á miklum aðgerðum á sviði iðnmenntunar og framhaldsmenntunar þeirra sem þegar eru á norrænum vinnumarkaði, til þess að koma í veg fyrir að launa- og hæfnimunur aukist og að fólk verði útundan á vinnumarkaði.

Þetta kallar á betra og skilvirkara símenntunarkerfi að mati vísindamannanna.

Hnattvæðingin að ganga tilbaka

Ein megintilhneigingin sem nánast var litið á sem staðreynd er hnattvæðing. En svo virðist sem hnattvæðingin sé að ganga tilbaka.

Brexit og viðskiptastríðið milli Bandaríkjanna og Kína eru aðeins tvö dæmi um þetta frá mismunandi heimshlutum.

„Við vísindamenn tölum ekki lengur um hnattvæðingu sem mikla og sjálfsagða tilhneigingu. Og það að hnattvæðingin virðist vera að ganga tilbaka eru ekki endilega góðar fréttir fyrir Norðurlönd. Fyrirsjáanlegir rammar um alþjóðasamskipti eru mikilvægir fyrir lítil og opin efnahagssvæði eins og norrænu ríkin.

Til skemmri tíma litið getur minnkandi hnattvæðing leitt til efnahagslegs óstöðugleika. Til lengri tíma lengri tíma litið til minni markaða fyrir vörur okkar og þjónustu,“ segir Johan Røed Steen.

Stafræn væðing er áskorun fyrir norræna líkanið

En loftslagsbreytingar geta einnig haft í för með sér einhverja fjölgun starfa á Norðurlöndum þegar græn umskipti þrýsta á um nýjar orkulausnir og sjálfbærari framleiðsluhætti.

Norðurlöndin sem eru iðulega ofarlega á listum yfir þjóðir sem fremstar eru á sviði stafrænnar væðingar, nýsköpunar og trausts eru kannski betur í stakk búin en sambærileg lönd til þess að takast á við græn umskipti og njóta góðs af þeim.

Samt sem áður er það svo að stafræn væðing ein og sér er áskorun við nokkra af hornsteinum norræna vinnumarkaðskerfisins.

Þegar yfirmaðurinn er app

Þeir telja að stafræn væðing geti aukið á misskiptingu á vinnumarkaði þegar mörg einföld störf hverfa og samkeppni um sérþekkingu eykst. Við þetta bætast ný ráðningarform eins og uber-hagkerfið eða hagkerfi sem byggir á lausráðningum, þar sem „yfirmaðurinn“ er app og sá eða sú sem vinnur vinnuna er ekki fastráðin/n.

Tækniþróun krefst vel menntaðs starfsfólks. Þörfin fyrir verkfræðinga og fólk sem er menntað til umönnunarstarfa mun aukast á norrænum vinnumarkaði en draga mun úr þörfinni fyrir iðnverkafólk og fólk sem sinnir einföldum þjónustustörfum.

„En við leggjum áherslu á að ójöfnuður er ekki sjálfkrafa afleiðing tækniþróunar. Þetta snýst um pólitískar ákvarðanir. Sé vilji til þess að viðhalda þeim jöfnuði sem ríkt hefur á Norðurlöndum verður að koma til kraftmikilla aðgerða til að koma í veg fyrir misskiptingu,“ segir Johan Røed Steen.

Þrjú ráð frá vísindamönnunum:

Vísindamenn leggja fram þrjár hugmyndir til norrænu ríkisstjórnanna um það hvernig þær geti staðið vörð um norræna líkanið, félagslega samheldni og velferð.

  • Bjóðið fólki sem starfar í greinum sem eru í hættu endurmenntun og nýja iðnmenntun. Felið aðilum vinnumarkaðarins að finna upp alveg nýtt menntakerfi fyrir fullorðið fólk sem þegar er á vinnumarkaði.   
  • Lagið almannatryggingakerfið og atvinnutryggingakerfið að nýjum ráðninga- og samningskerfum sem líkjast ekki venjulegu launþegakerfi, þetta getur snúist um útvistun á smærri verkefnum sem ekki krefjast þess að starfsmaðurinn hafi starfsstöð á venjulegum vinnustað. Þetta er ekki síst nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir jaðarsetningu innflytjenda.
  • Ýtið úr vör „hugmyndaríkri endurnýjun þeirra stofnana sem við tókum í arf frá frumherjum norræna líkansins“. Bráðum verða þær að vera færar um að bjóða upp á símenntun, vernd fyrir nýja hópa starfsfólks, koma í veg fyrir misrétti og sjá til þess að fyrirtæki sem rekin eru með nýjum hætti leggi einnig sitt til samfélagsins. 

Fyrir ári ýttu norrænu atvinnumálaráðherrarnir úr vör rannsóknarverkefni um það hvernig vinnumarkaðurinn getur litið út árið 2030. 25 vísindamenn frá sjö norrænum háskólum taka þátt í verkefninu sem stýrt er af FAFO í Noregi.  Lokaskýrslan verður tilbúin árið 2020.