Einstakt rannsóknarverkefni um atvinnulíf framtíðar

18.10.17 | Fréttir
Anniken Hauglie
Norrænu atvinnuvegaráðherrarnir hafa ýtt úr vör víðtæku rannsóknarverkefni þar sem skoðað verður hvernig atvinnulífið á Norðurlöndum gæti litið út um 2030. 25 fræðimenn frá sjö norrænum háskólum munu undir forystu norsku rannsóknarstofnunarinnar Fafo taka þátt í því verkefni að segja fyrir um hvernig vinnumarkaðskerfið þarf að þróast.

- Spurningin um hvernig norræna vinnumarkaðskerfið muni virka í atvinnulífi framtíðar þar sem miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar, skiptir öll Norðurlöndin máli. Vinnustaðir og starfsskilyrði verða að vera góð og örugg þannig að fleiri geti átt lengri starfsævi. Ég er mjög ánægð með að okkur skuli hafa tekist að koma á fót breiðu, traustu og framsýnu norrænu verkefni sem snýst um þessar áskoranir, segir atvinnu- og félagsmálaráðherra Noregs, Anniken Hauglie. 

Fafo fær verkefnið

Þetta frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar eru viðbrögð við rannsóknum á atvinnumálum sem unnar voru af Poul Nielson fyrrum framkvæmdastjóra hjá Evrópusambandinu. Poul Nielson hvatti til þess að norrænu þjóðirnar myndu í auknum mæli leita sameiginlegra lausna.

Ráðherranefndin boðaði fyrr á þessu ári að umfangsmiklu rannsóknarverkefni Atvinnulíf framtíðar yrði hleypt af stokkunum. Verkefnið á að standa frá haustinu 2017 til haustsins 2020.

Nú liggur fyrir að norsku rannsóknarstofnuninni Fafo hefur verið falin framkvæmd verkefnisins.

 - Það er einstakt og mikil nýjung í því fólgin að Norræna ráðherranefndin bjóði fræðimönnum frá öllum Norðurlöndunum til sameiginlegrar þekkingarþróunar og stefnumótunar á þessu sviði. Það verður mjög hvetjandi að vinna með svona breiðum hópi norrænna fræðimanna, segir Jon Erik Dølvik, verkefnastjóri samanburðarrannsókna í atvinnulífi hjá Fafo sem stýrir norræna verkefninu.

Greina helstu hvata

Fyrsta verkefnið í nýju norrænu rannsókninni verður að greina hverjir eru helstu hvatarnir þegar kemur að breytingum á vinnumarkaði. Það felur meðal annars í sér að meta hversu hratt hnattvæðing og tækni mun þróast í framtíðinni.

Sú greining verður kynnt á ráðstefnunni Future of Work í Svíþjóð á næsta ári.

Þá munu fræðimennirnir rannsaka hver áhrif breytinganna kunna að verða á norræna vinnumarkaðskerfið. Þetta snýst sem sagt um áhrif á vinnuumhverfi og heilsu, vinnulöggjöf og kjarasamninga, atvinnuþátttöku og einnig samskipti milli aðila vinnumarkaðarins.

Vélmenni í umönnun

Miklu skiptir að fræðimennirnir svari þremur spurningum:

  • Hvaða afleiðingar mun stafræn þróun og þróun vélmenna hafa á almenn störf í iðnaði og umönnun? 
  •  Hvaða þýðingu hefur aukin fjölbreytni ráðningaraðferða sem felur í sér að þjónusta starfsmannaleiga, sjálfstætt starfandi fólk og ýmsar útfærslur af styttri ráðningarsamningum leysa fastráðningar af hólmi.
  •  Og hvernig er hægt að tryggja örugg góð vinnuskilyrði fyrir fólk sem vinnur á stafrænum vettvangi, hvort heldur sem er alþjóðlega eða staðbundið.

Norðurlöndum tekst vel upp við breytingar

 - Fræðimenn eru ekki meiri spámenn um framtíðina en hver annar, en við vitum að þeir áhrifavaldar og tilhneigingar sem við erum þegar farin að sjá munu hafa áhrif í nánustu framtíð. Við munum flokka þessar tilhneigingar og greina hvaða þróun sé líklegt að búast við, segir Jon Erik Dølvik

Hann bendir á að styrkur norræna vinnumarkaðskerfisins liggi í að það hafi sýnt sig að það aðlagist hratt og vel að breyttum heimi.

 - Stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins hafa mikil áhrif og við viljum leggja áherslu á tækifæri þeirra til að móta vinnumarkaðinn til framtíðar, segir Jon Erik Dølvik.

Áfangaskýrsla í verkefninu Atvinnulíf framtíðar verður framlag Norðurlanda á 100 ára afmælishátíð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, árið 2019. Hún verður einnig notuð sem grundvöllur ráðstefnunnar Future og Work sem skipulögð er af Íslendingum og verður haldin sama ár. Lokaskýrslan verður tilbúin árið 2020.