Tilnefningar til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015

12.06.15 | Fréttir
Nordisk Råds natur- og miljøpris 2015
Dómnefndin hefur tilnefnt ellefu aðila til umhverfisverðlauna ársins á grundvelli tillagna sem borist hafa frá almenningi á Norðurlöndum.

Þema verðlaunanna 2015 er losun gróðurhúsalofttegunda. Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna (um 47 þúsundum evra) sem renna til aðila sem á lofsverðan hátt hefur þróað vöru eða uppfinningu eða með öðrum nýskapandi hætti hefur stuðlað að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til framtíðar.

Náttúru- og umhverfisverðlaunin verða afhent við glæsilega athöfn í Hörpu 27. október 2015 í tengslum við Norðurlandaráðsþing.

Tilnefndir eru:

Danmörk

GoMore er þjónusta sem býður upp á lausnir á sviði samaksturs og deilibíla. Með þessum hætti hefur GoMore hjálpað til við að draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum og losun koltvísýrings og um leið dregið úr umferð á vegum og stuðlað að kynnum fólks.

Finnland

Evangelísk-lútherska kirkjan í Finnlandi hefur unnið að umhverfismálum síðan 2001. Mikilvægt tæki í því starfi er veiting umhverfisviðurkenningar kirkjunnar sem stuðlar að aukinni sjálfbærni safnaðanna. Kirkjan hefur jafnframt innleitt svonefnda „vistvæna föstu“ í tengslum við páskana. 

PiggyBaggy er sendingarþjónusta sem byggir á sérstakri tegund samvinnu sem nefnd hefur verið „crowdsourced delivery service“ þar sem einstaklingar flytja vörur hverjir fyrir aðra á daglegum ferðum sínum. Það sparar peninga og tíma og er umhverfisvænt. 

Færeyjar

Orkufyrirtækið SEV er stærsta orkuveita Færeyja. Með því að notast við hvort tveggja vind- og vatnsorku sér SEV til þess að 51% orku sem notuð er í Færeyjum sé sjálfbær. SEV hefur tekið stór framfaraskref á sviði grænnar orkuframleiðslu á síðustu árum og vinnur út frá því markmiði að 100% orkunotkunar verði sjálfbær vind- og vatnsorka fyrir árið 2030.

Ísland

Carbon Recycling International er lítið íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í því að draga úr losun koltvísýrings frá eldsneyti sem hægt er að nota í flutningageiranum. Sú tækni sem fyrirtækið býr yfir gæti dregið úr losun koltvísýrings um allt að 100% og þar með valdið byltingu hvað varðar mengun frá flutningageiranum. 

Orkuveita Reykjavikur miðlar orku og vatni til um 67% Íslendinga með hjálp jarðvarmaorku. Jarðvarmaorkan er meginskýringin á því að 85% orkunotkunar á Íslandi telst vera sjálfbær. Fyrirtækið er um þessar mundir að þróa aðferðir til að binda koltvísýring í berg til að draga úr losun og bæta umhverfið. 

Noregur

Hjá Norgesgruppen A/S starfa 38 þúsund manns og það er því eitt af stærstu fyrirtækjum í Noregi og leiðandi á matvörumarkaði. Norgesgruppen hefur mótað metnaðarfulla loftslags- og umhverfisáætlun sem á að tryggja að fyrirtækið verði sjálfbært í framtíðinni. Meðal annars er stefnt að því að skipta yfir í lífeldsneyti í flutningageiranum og að fyrirtækið verði sjálfu sér nægt um sjálfbæra orku. 

Svíþjóð

Kaffibrennslan Löfbergs hefur hrint í framkvæmd viðamikilli sjálfbærniáætlun sem tryggir að allir þættir í framleiðslunni – frá baunum til bolla – séu með ábyrgum hætti. Í þessu skyni hefur verið búið til viðamikið kerfi til að tryggja félagslega og umhverfislega sjálfbærni og til að draga úr áhrifum kaffiframleiðslunnar á loftslagið.

City Bikes stuðlar að framgangi deilihagkerfishugsunarinnar með því að bjóða reiðhjól til láns ókeypis. Hugmyndin sló í gegn á tíunda áratugnum og hefur síðan verið fastur þáttur í stærri borgum á borð við Stokkhólm, Gautaborg og Kaupmannahöfn. Nýjustu kynslóð reiðhjóla er meira að segja hægt að fá að láni með hjálp snjallsíma. 

Uppsala klimatprotokoll er samstarfsnet fyrirtækja, félaga og opinberra stofnana sem veitir innblástur til loftslagsmiðaðrar fyrirtækjaþróunar. Það vinnur að þekkingarmiðlun til að ná langtímamarkmiðum sveitarfélagsins Uppsala í loftslags- og orkumálum. 

Álandseyjar

Sixten Sjöblom er tilnefndur fyrir starf að framleiðslu lífeldsneytis. Með því að nota staðbundnar úrgangsafurðir við framleiðslu er komist hjá því að þurfa að nýta landbúnaðarland sem hægt er að nota til matvælaframleiðslu. Lífdísilolía er jafnframt notuð til almenningssamgangna á Álandseyjum sem þurfa þess vegna ekki að flytja inn kolefniseldsneyti.

Contact information