Umhverfisráðherrar Norðurlanda: Dæmi um frábæran árangur Norðurlanda í umhverfismálum

29.10.14 | Fréttir
Umhverfisráðherrar Norðurlanda hlóðu lofi á umhverfismerkið Svaninn þegar haldið var upp 25 ára afmæli þess á miðvikudaginn í Stokkhólmi. Svanurinn er norrænt „ofurvörumerki“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra.

Svanurinn góðkunni, sem finna má á stílabókum, uppþvottalegi og á oddveifum á hótelum, er ákaflega árangursríkt umhverfisverkefni. Næstum „allir“ á Norðurlöndum þekkja Svansmerkið, nánar tiltekið 91% íbúanna. Það er því eitt af árangursríkustu umhverfismerkjum heims.

Biður atvinnulífið um að stökkva á lestina

Þrátt fyrir strangar kröfur og mat hefur atvinnulífið tekið Svaninum vel.  Nú er umhverfismerkið notað fyrir 191 vöruflokk, allt frá þvottaefni til hótela og byggingarstarfsemi. Merkið er nú að finna á 16 þúsund mismunandi vörum. Þrátt fyrir að Umhverfissvanurinn sé ein af árangursríkustu umhverfismerkingum heims eru umhverfisráðherrar Norðurlanda ekki fullkomlega ánægðir.

– Nei, við viljum að fleiri fyrirtæki stökkvi á lestina. Umhverfismálin verða mikilvægari með hverjum deginum og það er enginn vafi á því að þeir sem taka tillit til umhverfisins bæta samkeppnisstöðu sína með því, segir Åsa Romson, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar.

Vald neytenda

Umhverfisráðherrar Norðurlanda telja að sterka stöðu Svansmerkisins megi þakka meðvituðu vali almennings í umhverfismálum.

– Neytendur eru að sýna vald sitt í verki. Þeir geta fengið atvinnulífið til að breyta starfsháttum sínum og framleiða minna af umhverfisskaðlegum vörum og þjónustu. Svanurinn byggir á aðgerðum einstaklinga í þágu umhverfisins, og það er líka trúin á einstaklinginn sem er grundvöllur merkisins, segir Tine Sundtoft, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.     

Norræna ráðherranefndin kom Svansmerkinu á fót árið 1989 og það er opinbert umhverfismerki Norðurlanda. Svanurinn gefur neytendum kost á að velja þær vörur sem eru öruggastar frá heilbrigðis- og umhverfissjónarhorni. Svansmerkið felur í sér umhverfiskröfur í öllum lífsferli vörunnar – allt frá framleiðslu, notkun og þangað til varan endar í ruslinu.

Upplýsingar um umhverfismerkið Svaninn:

  • Ákvörðun tekin um að setja merkið á stofn árið 1989
  • 91 prósent Norðurlandabúa þekkja Svansmerkið
  • 1.628 fyrirtæki hafa hlotið Svansmerkið
  • 191 vöruflokkur getur notað Svansmerkið
  • 18.000 mismunandi vörur eru merktar með Svaninum