Vefnaðarvara framleidd úr trjátrefjum

08.11.16 | Fréttir
Turning wood fibre into textiles
Hvernig getur Eystrasaltssvæðið tekið forystu í þróun á sjálfbærum vefnaðariðnaði sem byggir á staðbundnu lífhagkerfi og grundvallarreglum hringrásarhagkerfis? Þetta er eitt af þeim forgangsmálum sem rædd verða á sjöunda stefnumótunarviðburðinum um málefni ESB fyrir Eystrasaltssvæðið (Strategy Forum of the EU Strategy for the Baltic Sea Region).

Á þinginu „Fashionable Bioeconomy in the Baltic Sea Region. Biomaterials and sustainable fashion as driver for growth“, sem fram fer í samstarfi við aðila úr tískuiðnaðinum, á að sýna það, kanna og ræða hvernig Eystrasaltssvæðið getur verið í fremstu röð þegar kemur að því að tengja lífhagkerfið og sjálfbæran tískuiðnað. Sjónum verður beint að staðbundnum lausnum fyrir lífhagkerfi Eystrasaltssvæðisins í tengslum við byggðaþróun, úrgang, feril hráefnis, nýsköpun og ný viðskiptalíkön. Og að sjálfsögðu verður blásið til tískusýningar.

 

Hátískuvara úr trjátrefjum

Nýjar rannsóknir á aðferðum til að framleiða vefnaðarvöru úr trjátrefjum eru á meðal margra spennandi þátta sem lífhagkerfið getur nýtt til að koma Eystrasaltssvæðinu á heimskort tískunnar, og um leið stuðlað að minni notkun vatns og skordýraeiturs í framleiðslu á vefnaðarvöru.

Ef trjátrefjar úr hinum vel hirtu skógum Norðurlanda geta komið að hluta í stað bómullar verður það stórt skref í átt að sjálfbærari vefnaðarvöru.

Torfi Jóhannesson, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, segir að tölurnar tali sínu máli. „Bómull er ræktuð á aðeins 2 prósentum af ræktanlegu landsvæði heimsins, en samt krefst bómullarræktun 15-20 prósenta af öllu skordýraeitri sem notað er. Við meirihluta ræktuninnar er einnig notast við vatnsveitur, og vatnsnotkun því gríðarleg. Ef trjátrefjar úr hinum vel hirtu skógum Norðurlanda geta komið að hluta í stað bómullar verður það stórt skref í átt að sjálfbærari vefnaðarvöru. En þegar allt kemur til alls gengur ekki að hunsa þá staðreynd til lengdar að neysla okkar er einfaldlega of mikil. Þess vegna þurfum við að virkja smásala og neytendur til þess að vinna með okkur að þróun nýrra neyslumynstra.“

Gamla peysan þín í nýrri flík

Flestir stærstu aðilar fataiðnaðarins eru nú boðnir og búnir að endurnýta flíkur, sem þýðir að neytendur geta farið með gömul föt í verslanir til endurnotkunar. Þetta er lykilatriði í því að skapa hringrásarhagkerfi sem sameinar sjálfbærni og skilvirkni í aðföngum og nýstárlega skapandi hönnun. Þetta undirstrikar það að aukin sátt ríkir nú um samfélagsábyrgð fyrirtækja í tískuiðnaði. „Við hjá H&M; höfum sett okkur það langtímamarkmið að framleiðsla okkar byggi á 100% hringrásarkerfi, til dæmis með því að nota aðeins vefnaðarvöru sem er endurunnin eða sjálfbær að öðru leyti,“ segir Felicia Reuterswärd, framkvæmdastjóri sjálfbærnisviðs hjá tískukeðjunni H&M.;

Við hjá H&M; höfum sett okkur það langtímamarkmið að framleiðsla okkar byggi á 100% hringrásarkerfi, til dæmis með því að nota aðeins vefnaðarvöru sem er endurunnin eða sjálfbær að öðru leyti.

 

 

 

Verið velkomin til fundar við leiðtoga úr viðskiptalífinu, ráðherra og embættismenn úr Norrænu ráðherranefndinni og fræðist um hvernig stefnt er að því í tískuiðnaðinum að draga úr framleiðslu úrgangs og auka nýtingu á honum. Á meðal ræðumanna verða Sven-Erik Bucht, ráðherra byggðamála í Svíþjóð, og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Aðrir ræðumenn verða Eva Karlsson, framkvæmdastýra Houdini Sportswear, Felicia Reuterswärd, framkvæmdastjóri sjálfbærnisviðs hjá H&M;, Tobias Köhnke frá SWEREA og Sigrid Barnekow frá MISTRA Future Fashion.

Viðburðurinn: Fashionable Bioeconomy in the Baltic Sea Region. Biomaterials and sustainable fashion as drivers for growth

Dagskrá: The 7th Strategy Forum of the EUSBSR (strategyforum2016.eu)