Vertu með okkur í beinni þegar tilkynntar verða tilnefningar til Tónlistarverðlaunanna 2020

11.06.20 | Fréttir
Andrew Mellor & Anna Thorvaldsdottir
Ljósmyndari
norden.org

Breski blaðamaðurinn Andrew Mellor og Anna Þorvaldsdóttir tónskáld og fyrrum handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs munu stjórna viðburði í beinu streymi þar sem tilkynnt verður um tilnefningar til verðlaunanna í ár.

Tilnefningar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs verða tilkynntar á viðburði sem sendur verður út beint þann 16. júní. Gestgjafar ársins – íslenska tónskáldið og fyrrum handhafi tónlistarverðlaunanna, Anna Þorvaldsdóttir og Andrew Mello, breskur blaðamaður og sérfræðingur í norrænni tónlist – munu kynna einstaka blöndu hljóðdæma, kynninga á myndskeiðum og baksviðsupplýsinga um hin tilnefndu.

Tilkynningum um tilnefningar til tónlistarverðlaunanna í ár verður streymt frá Kaupmannahöfn og London til heimsins alls. Þetta er í fyrsta sinn sem tilnefningar eru tilkynntar með nýstárlegri hætti þar sem tónlist og verk hinna tilnefndu verða í brennidepli.

Í beinni frá Kaupmannahöfn og London

Þrátt fyrir að hin tilnefndu geti ekki verið í sama rými vegna Covid-19-takmarkana hlakka gestgjafar ársins til að hitta þau í stafrænum heimi. Meðal fyrri handhafa tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs er meðgestgjafi tilnefningarhátíðarinnar, Anna Þorvaldsdóttir, sem vann til verðlaunanna árið 2012. Hún er þekkt íslenskt tónskáld og hefur tónlist hennar verið flutt af mörgum fremstu hljómsveitum, kammersveitum og menningarstofnunum heims. Hún er einnig formaður dómnefndar tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Anna talar frá heimili sínu í London og segir:

Ég hlakka mjög mikið til að kynna tilnefningar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020. Verðlaunin eiga stóran og mikilvægan þátt í því að kynna fjölbreytnina í tónlist frá norrænu ríkjunum og það er svo spennandi á hverju ári að heyra hverjir eru tilnefndir og fá innsýn í tónlist þeirra.

Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld og handhafi Tónlistaverðlauna Norðurlandaráðs 2012

Þau sem stilla á streymið í ár munu einnig njóta þeirra forréttinda að hlýða á Andrew Mellor, blaðamann, tónlistargagnrýnanda og sérfræðing í norrænni tónlist. Andrew á heima í Kaupmannahöfn, þaðan sem hann skrifar fyrir dagblöð og tímarit í Bretlandi, Bandaríkjunum, Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Hann situr í dómnefnd alþjóðlegu óperuverðlaunanna og er reglulegur gestur í þættinum Record Review í Radio 3 á BBC.

„Norrænu löndin hafa síðustu tvo áratugi sprottið fram sem orkuver á sviði tónlistar í Evrópu. Þar hefur orðið til listafólk með gríðarlegt ímyndunararafl, frumlegt og óttalaust, sem veit að tónlist er sterkasta form samskipta og vináttu sem til er. Það hafa verið forréttindi að fá að kynnast verkefnum þeirra sem eru tilnefndir til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár,“ segir Andrew Mellor.

Verið með okkur í beinni!

Hægt er að fylgjast með tilkynningunni um tilnefningarnar (á ensku) hvaðan sem er úr heiminum. Ekki gleyma að taka með ykkur fjölskyldu og vini!

  • Þriðjudagur 16. júní
  • Kl. 14 að dönskum tíma

Verðlaunin munu renna til tónskálds í ár

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 1965. Þeim er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Verðlaunin eru til skiptis veitt annars vegar núlifandi tónskáldi og hins vegar tónlistarhópi eða -flytjanda. Í ár renna verðlaunin til tónskálds. 

Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020 verður kynntur þann 27. október á verðlaunahátíð í Reykjavík í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Nánari upplýsingar um verðlaunin