Um Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

7 af de 11 nominerede til Nordisk Råds musikpris 2015
Photographer
Thor Møller/Norden.org
Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Verðlaunin eru til skiptis veitt núlifandi tónskáldum og tónlistarmönnum. Í báðum tilvikum eru gerðar miklar kröfur um listræna og faglega færni.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru stofnuð árið 1965. Í upphafi átti að veita þau þriðja hvert ár til tónskálds frá einu norrænu landanna. Frá árinu 1990 hafa þau verið veitt árlega, annað hvert ár til tónskálds og annað hvert ár til tónlistarmanns eða tónlistarhóps. Frá 1997 hafa sjálfsstjórnarsvæðin Færeyjar, Grænland og Álandseyjar lagt fram eigin tilnefningar til verðlaunanna.

Annað hvert ár til tónskálds

Þegar verðlaunin eru veitt tónskáldi eru þau ekki bundin við neitt sérstakt tónlistarsvið. Þau eru þó aðeins veitt núlifandi tónskáldum. Verkið þarf að hafa mikið listrænt gildi og teljast nýskapandi á sínu sviði.

Annað hvert ár til tónlistarmanna

Til þess að vera tilnefndur til verðlaunanna þegar þau eru veitt tónlistarhópum eða einstökum tónlistarmanni verður viðkomandi að vera virkur og starfandi. Tónlistarstarfið þarf að vera nýskapandi og í háum listrænum og faglegum gæðaflokki. Litið er til stöðugleika í tónlistarstarfinu þegar verðlaunahafi er valinn. Auk þess þurfa tónlistarmennirnir að teljast vera nýskapandi á sínu tónlistarsviði.

Dómnefndin velur verðlaunahafa

Norræna ráðherranefndin skipar norræna dómnefnd sem tekur ákvörðun um úthlutun verðlaunanna. Í dómnefndinni er einn fulltrúi frá hverju Norðurlandanna.

Ef tilnefning kemur frá einhverju sjálfstjórnarsvæðanna má fulltrúi viðkomandi svæðis taka þátt í starfi dómnefndarinnar.

Norrænir tónlistarsérfræðingar í nefndinni

Fulltrúar í nefndinni eiga að vera sérfræðingar í tónlist eigin lands og eins vel að sér og unnt er í tónlist nágrannalandanna. Til þess er ætlast að nefndin fylgist vel með þeim tónlistarsviðum sem ekki eiga fulltrúa í nefndinni og séu í tengslum við helstu aðila sem tengjast tónlist á Norðurlöndum.

Tillögur frá öllum Norðurlöndunum

Það eru fulltrúar norrænu landanna sem tilnefna til tónlistarverðlaunanna. Fulltrúar sjálfsstjórnarsvæðanna geta einnig lagt fram tillögur. Hvert land getur lagt fram tvær tilnefningar og hvert sjálfsstjórnarsvæðanna eina.  

Taka skal ákvörðun um úthlutun verðlaunanna í síðasta lagi mánuði áður en þau eru afhent. Verðlaunin eru afhent við sérstaka athöfn á sama tíma og verðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókmenntir, kvikmyndir og starf að umhverfismálum á regluglegu þingi Norðurlandaráðs sem haldið er á haustin.

Norræna húsið í Færeyjum hefur umsjón með verðlaununum. Verðlaunaupphæðin er sú sama og og fyrir bókmennta-, kvikmynda- og náttúru- og umhverfisverðlaunin, það er að segja 300 þúsund danskar krónur (um það bil 40 300 evrur).

Margir þekktir norrænir tónlistarmenn og tónskáld hafa hlotið tónlistarverðlaunin. Nefna má norsk-samísku söngkonuna Mari Boine, íslensku söngkonuna Björk, danska trompetleikarann Palle Mikkelborg, finnska tónskáldið Kaija Saariaho og sænska hljómsveitarstjórann Eric Ericsson.