Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019
Tónlistarverðlaunin voru afhent af verðlaunahafa ársins 2017, hljómsveitarstjóranum Susönnu Mälkki, við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi á þriðjudagskvöld.
Annað hvert ár eru tónlistarverðlaunin veitt núlifandi tónskáldi og hitt árið, eins og í ár, eru þau veitt tónlistarhópi eða -flytjanda.
Rökstuðningur dómnefndar
Gyða Valtýsdóttir er menntuð í sígildri tónlist en hefur ekki einskorðað sig við neina tiltekna tónlistarstefnu. Ung að árum var hún einn stofnmeðlima hinnar rómuðu tilraunakenndu rafsveitar múm. Síðan þá hefur hún verið áberandi sem fjölhæfur flytjandi í flokki þess íslenska tónlistarfólks sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund.
Gyða er menntuð í sellóleik en síðastliðin ár hefur hún bæði flutt frumsamda tónlist og átt í samstarfi við tónlistarfólk úr ýmsum áttum. Menntunin hefur nýst henni sem grunnur til að fara eigin leiðir og veita áheyrendum hlutdeild í heildrænni, samfelldri tónlistarnálgun með aðdáunarverðum sköpunarkrafti. Gyða hrífur áheyrendur sína með einstökum flutningi sem einkennist af áhrifaríkri tilfinningu fyrir mótun hendinga og fraseringu. Hún hefur mikla sérstöðu sem flytjandi og nærvera hennar á sviði er bæði heillandi og einstök – viðkvæm og óræð en jafnframt kraftmikil. Flutningur hennar er ákaflega persónulegur, samfelldur og framúrskarandi, hvort sem hún leikur á selló, syngur á sinn sérstæða hátt eða leikur á önnur hljóðfæri, og ávallt liggur frumleikinn til grundvallar.
Gyða flytur tónlist þvert á tónlistargeira og brúar bilin sem aðskilja þá með óvenjulegum hætti, ekki síst með því að líta hjá því að skörp skil séu á milli mismunandi greina tónlistar. Og hvort sem um er að ræða hennar eigin tónlist eða annarra einkennist flutningurinn af persónulegum frumleika og hugvitssemi.
Hér má sjá upptöku af verðlaunveitingu Norðurlandaráðs 2019
Verðlaunaveiting Norðurlandaráðs 2019 var send út beint frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi og má sjá upptökuna fram til vors 2020 á eftirfarandi krækjum og tíma.
Um verðlaun Norðurlandaráðs
Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun á ári hverju: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og ungmennabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru þau veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.