Hittið verðlaunahafa Norðurlandaráðs 2019

29.10.19 | Fréttir
Vinnare av Nordiska rådets priser 2019

Vinnare av Nordiska rådets priser 2019

Photographer
Magnus Fröderberg
Jonas Eika, Kristin Roskifte, May el-Toukhy, Maren Louise Käehne, Caroline Blanco, René Ezra og Gyða Valtýsdóttir tóku við verðlaunum Norðurlandaráðs 2019 við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi á þriðjudagskvöld. Greta Thunberg kaus að taka ekki við verðlaununum og mótmæla þannig aðgerðaleysi í loftslagsmálum.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Danski rithöfundurinn Jonas Eika hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir smásagnasafnið Efter Solen (Basilisk, 2018).  Jonas Eika hlýtur verðlaunin fyrir verk sem minnir okkur á að bókmenntirnar eru færar um annað og meira en að spegla það sem við þekkjum nú þegar.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Norski rithöfundurinn Kristin Roskifte hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir myndabókina Alle sammen teller. Kristin Roskifte hlýtur verðlaunin fyrir verk sem er öðruvísi og einstakt innan sinnar bókmenntagreinar.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Dronningen eftir danska handritshöfundinn og leikstjórann May el-Toukhy, handritshöfundinn Maren Louise Käehne og framleiðendurna Caroline Blanco og René Ezra hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir ítarlega lýsingu á hörmulegu fjölskylduleyndarmáli og afleiðingum ofdrambs, losta og lyga sem leggjast á eitt til að leiða aðalpersónuna í óhugsandi ógöngur.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir tónlistarflutning þar sem sköpunarkrafturinn brýst fram með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en kaus að veita verðlaununum ekki viðtöku í mótmælaskyni vegna skorts á aðgerðum í loftslagsmálum.

Hér má sjá upptöku af Verðlaunveitingu Norðurlandaráðs 2019

Verðlaunaveiting Norðurlandaráðs 2019 var send út beint frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi og má sjá upptökuna fram til vors 2020 á eftirfarandi krækjum og tíma.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun á ári hverju: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og ungmennabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru þau veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.