Samþykkt um samvinnu vegna viðbragðsstarfs á sviði dýraverndar á Norðurlöndum
Upplýsingar
Í Norrænu ráðherranefndinni um sjávarútveg, landbúnað, matvæli og skógrækt var rætt um möguleika þess að þróa hið norræna samstarf um heilbrigði dýra og velferð.
Í upphafi staðfesti ráðherranefndin ánægju sína með að nú skuli hafa verið komið á fót vinnuhópi sem heyrir undir embættismannanefnd um matvæli (EK-Livs) sem auka á norrænt samstarf á þessu sviði, og lýsir yfir miklum væntingum um að samstarfið muni
- styrkja viðleitni Norðurlandanna til þess að viðhalda og þróa áfram miklar kröfur sínar um heilbrigði dýra og velferð.
- styrkja viðleitni landanna til þess að efla norræn sjónarmið varðandi heilbrigði dýra og
- velferð þeirra í alþjóðlegu samhengi.
Með þessu samstarfi er aukið við verkefni sem varða norrænt samstarf um heilbrigði dýra og velferð, verkefni sem þegar eru hafin.
Þegar rætt var um viðbragðsstarf á sviði dýraverndar ríkti samkomulag um að þetta væri mikið forgangsverkefni á Norðurlöndum. Þessar aðgerðir vega þungt í vinnunni við að koma í veg fyrir dreifingu á smitandi húsdýrasjúkdómum og til þess að koma á fót skilvirkum aðgerðum sem ætlað er að draga úr útbreiðslu og berjast við sjúkdóma sem upp kunna að koma, t.d. gin og klaufaveiki, svínaflensu, Newcastle disease, fuglaflensu o.fl.
Sömuleiðis ríkti samkomulag um að koma á fót samstarfi um áhættumat og þar með talið að þróa sameiginlega sýn á mögulega hættu.
Öll norrænu ríkin þurfa áfram að þróa viðbragðsáætlanir og vöktunarkerfi, menntun starfsfólks, uppbyggingu og viðhald neyðarbúnaðar og aðstöðu til eyðingar, áætlanir um og möguleika á neyðarbólusetningu o.s.frv.
Uppbygging á viðbrögðum og því hvernig unnið er ef slíkir húsdýrasjúkdómar koma upp gerir miklar kröfur til yfirvalda, hefur í för með sér mikinn kostnað og getur í ákveðnum tilvikum verið háð svo miklum skipulagsvanda að erfitt getur reynst að takast á við vandann í einstökum ríkjum með því starfsfólki og búnaði sem fyrir hendi er.
Skilningur ráðherranefndarinnar er sá að nánara norrænt samstarf á sviði viðbragðsstarfs ætti að styrkja uppbyggingu viðbragða og mynda grunn fyrir náið samstarfi um baráttu gegn tilteknum sjúkdómsfaröldrum. Ráðherranefndin er þannig sammála um að skoða beri þessa möguleika nánar og hefur þess vegna staðfest eftirfarandi samkomulag:
„Ráðherranefndin sem er saman komin í Árósum 30. júní 2005 hvetur til þess að á Norðurlöndum verði hið fyrsta þróuð tillaga að því hvernig komið verði á fót nánu samstarfi um viðbragðsstarf á sviði dýraverndar milli þeirra aðila sem ábyrgð bera á málaflokknum, og að því verði fylgt eftir með nauðsynlegum aðgerðum þar sem þess þarf. Samstarfið mætti byggja upp á nokkrum mismunandi sviðum, þar með talið með því að vinna aðgerðaráætlun fyrir sameiginlegt norrænt viðbragðsstarf og að haldnar verði viðbragðsæfingar, menntað verði viðbragðsstarfsfólk, sérfræðingar og búnaður verði lánaður ásamt bólusetningarbúnaði og að samdar verði reglur o.s.frv.
Ráðherranefndin mælist sömuleiðis til að henni verði afhent stöðuskýrsla um þróunina á þessu samstarfssviði á sumarfundi sínum 2006.