Yfirlýsing frá norrænu þekkingar- og menningarnefndinni um þörf á efldu norrænu samstarfi í tengslum við kórónukreppuna

18.05.20 | Yfirlýsing
Yfirlýsing frá norrænu þekkingar- og menningarnefndinni um þörf á efldu norrænu samstarfi í tengslum við kórónukreppuna

Upplýsingar

Á fundi norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar, sem haldinn var 18. maí, miðluðu fulltrúar nefndarinnar reynslu norrænu ríkjanna af aðgerðum til að milda áhrif kórónufaraldursins á samstarfssviðum nefndarinnar. Nefndin undirstrikaði mikilvægi þess að ríkin haldi áfram að skiptast á reynslu og upplýsingum, þar sem ófyrirséð sé hversu lengi faraldurinn og áhrif hans muni vara. Það skiptir því miklu að löndin læri hvert af öðru, ekki síst svo þau geti betur búið sig undir faraldra sem síðar gætu orðið til.

 

Nefndin telur að í þessum kringumstæðum sé þörf á efldu norrænu samstarfi á sviðum menntunar, rannsókna, menningar, íþrótta, félagsstarfs og borgaralegs samfélags. Norrænu ríkin grípa nú til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr áhrifum kreppunnar á þessum sviðum og það á að endurspeglast í norrænu samstarfi.

 

Það verður að öllum líkindum nokkuð langt þar til lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Þörf á samstarfi í menntamálum, bæði hvað varðar grunnskóla, framhaldsskóla, starfsnám og hreyfanleika námsfólks, er meiri en nokkru sinni fyrr til að nauðsynleg umskipti geti átt sér stað. Norrænt rannsóknasamstarf um þróun bóluefnis og meðferðarúrræða er hagkvæmt og niðurstöðurnar geta nýst öllum norrænu ríkjunum.

 

Fulltrúar nefndarinnar bentu einnig á að mikil framþróun hafi orðið í stafrænum lausnum í menntakerfinu en að hætta sé á neikvæðum áhrifum vegna fjarkennslu á nemendur sem glímdu við námserfiðleika áður en faraldurinn skall á. Nefndin kallar því eftir samnorrænni rannsókn með samanburðargreiningu á áhrifum skólalokana og fjarkennslu á getu nemenda til að nýta sér kennsluna og jafnframt á félagslegum áhrifum hvað varðar hættu á aukinni einangrun vegna minnkaðs samneytis við samnemendur og kennara.

 

Nefndin kallar einnig eftir því að norrænu ríkin miðli í auknum mæli reynslu sinni af leiðum til að sporna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á nemendur og kennara, svo að löndin geti nýtt sér reynslu hvers annars til að mæta sambærilegum aðstæðum í framtíðinni.

 

Nefndin vonast til þess að norrænu ríkin opni landamæri sín eins fljótt og auðið er, að minnsta kosti fyrir öðrum Norðurlandabúum. Opin landamæri eru algjör undirstaða þess að Norðurlönd geti uppfyllt framtíðarsýn sína um að verða samþættasta svæði heims.

 

Íþróttahreyfingar, menningar- og félagsstarfsemi mun um langa tíð þurfa að mæta áhorfendum sínum og þátttakendum með nýjum leiðum. Óvíst er hvenær almenningur getur aftur farið að sækja menningar- og íþróttaviðburði og taka þátt í félagsstarfi. Því er þörf á nýjum vettvöngum og stafrænum samkomustöðum þar sem fólk getur komið saman, upplifað og skapað menningu og tekið þátt í félagsstarfi.

 

Við sjáum greinilega þörf á auknu samstarfi í núverandi aðstæðum og viljum því beina athygli ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir annars vegar, og ráðherranefndarinnar um menningarmál hins vegar, að mikilvægi þess að nefndirnar hafi sterka framtíðarýn fyrir starf sitt í þágu Norðurlandabúa.

Contact information