Beinir Bergsson

Beinir Bergsson, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Beinir Bergsson

Photographer
Alda Mohr Eyðunardóttir
Beinir Bergsson: Sólgarðurin. Ljóðabók. Forlagið Eksil, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Sólgarðurin („Sólgarðurinn“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Beini Bergsson markar tímamót í (ljóðrænu) bókmenntalandslagi Færeyja. Hér er á ferð ljóðabók þar sem ljóðrænni nýefnishyggju er stillt upp við hlið ungrar, blygðunarlausrar kynverundar og angurværrar upprifjunar. Ljóðin segja að mörgu leyti sígilda þroskasögu, og þó ekki. Þessi ljóð tjá nefnilega engan sérstakan áhuga á því að segja skilið við staði eða flýja þá, eða skapa fjarlægð á milli nútíðar og fortíðar ljóðmælandans. Í texta Beinis þarf eitt ekki að útiloka annað; kynferðisleg löngun á sér ekki stað á kostnað fjölskyldunnar, ættarinnar. Þvert á móti. Lostinn og kynverundin eru skapandi kraftar sem breikka sjóndeildarhringinn og lesandinn situr eftir með þá tilfinningu að heimurinn hafi hreint og beint stækkað með þessari ljóðabók.

Beinir Bergsson steig fyrst fram á ritvöllinn 2017 með ljóðabókinni Tann lítli drongurin og beinagrindin („Litli drengurinn og beinagrindin“, Gin ljónsins 2019), sem fjallar meðal annars um að missa foreldri; föður ljóðmælandans. Fyrir þessa frumraun hlaut hann EBBA-verðlaunin, bókmenntaverðlaun sem færeyska rithöfundasambandið veitir árlega. Í Sólgarðurin hefur ljóðmælandinn elst. Fremur en að vera upptekinn af söknuði, fjarveru og fjarlægð eru nálægð, nánd og kynferðismál honum nú hugleikin. Nánar tiltekið nálægðin á milli tveggja drengja sem eru að skapa áþreifanlegt rými fyrir eigin kynhneigð. Fyrsta ljóðið í bókinni hefst næstum því á hvatningu:

Leggur tú ryggin/naknan at mínum búki/kennir tú/hvussu mjúkt/grasið er/hvussu tað/vaksur/millum tvær hitakeldur

 

 

(Ef þú leggur bakið/nakið upp að maganum á mér/finnur þú/hve mjúkt/grasið er/hvernig það/grær/milli tveggja hitagjafa)

Sjálfur hefur Beinir sagt að Sólgarðurin sé áþreifanlegt líkamlegt rými, auk þess að vera andlegt og óhlutbundið. Sögusvið ljóðanna er fyrst og fremst í tveimur herbergjum, í rúmi inni í svefnherbergi og í garði ömmunnar. Í svefnherberginu grær grasið og nándin vex. Í garði ömmunnar er illgresi reytt, plöntum sinnt og skipst á húsráðum og ef maður stingur sig til blóðs er það tilefni til blóðfórnar, sem í samhengi ljóðabókarinnar virðist ekki táknrænn gjörningur heldur fremur markvisst bragð til að tengjast náttúrunni og hinum látnu. Þannig verða líkamarnir einnig eins og framlenging á landslaginu; þar opnast ný rými fyrir skordýr og plöntur til að vaxa í og jafnvel taka til máls. Eftir því sem ljóðunum vindur fram leysast skilin milli rýmanna upp.

 

Í ljóðinu á bls. 46 segir eftirfarandi:

Tak um høkuna á mær/hygg inn í munnin/at lepunum á brúntaranum/síggj hann sveiggja spakuliga/leggurin á honum/stívur/óslættur/fullur av vætu/ið rennur úr/legg tunguna á mínar varrar/lat aldurnar taka teg/gev teg upp/sjógvurin rurar okkum/til vit skola á land aftur

 

 

(Taktu um hökuna á mér/kíktu inn í munninn/á varir brúnþarans/sjáðu hann sveigjast/ hæglátlega/stilkur hans/stinnur/hnúskóttur/fullur af vökva/sem rennur út/leggðu tunguna á varir mínar/gefðu þig öldunum á valdgefðu þig/hafið sefar okkur/ uns okkur skolar aftur upp á land)

Þessi þröngu og skýrt afmörkuðu rými, svefnherbergið og garðurinn, láta ekki takmarkast af sínum áþreifanlegu endimörkum. Ljóðin neita nefnilega að láta sig mörkin varða. Þau hafa meiri áhuga á því að leyfa nýrri náttúru að spretta fram, þar sem rúmið verður gríðarstórt og þar sem finna má árstíðir, dýralíf og landslag. Þau stækka og auka við sig inn á við, inn í nándina, inn í hið kynferðislega, inn í himinlifandi líkamlega einingu.

 

Í ljóðinu á bls. 22 segir eftirfarandi:

Vit førka okkum/inn í kamarið/tendra ljósið/fara inn í ein heim/har kropparnir/leita eftir mørkunum/hvør hjá øðrum

 

 

(Við færum okkur/inn í svefnherbergið/kveikjum ljósið/förum inn í annan heim/þar sem líkamarnir/leita að mörkum/hvor hjá öðrum)

Með öðrum orðum á að finna mörk eins líkama hjá öðrum. Líkami einstaklingsins takmarkast ekki við eigin endimörk, heldur við líkama annars. Og í þeim ljóðum bókarinnar sem einkennast hvað mest af sæluvímu, þegar talað er í fyrstu persónu fleirtölu, er líka erfitt að skera úr um það hvaða líkamshluti tilheyrir hvaða líkama, hvort verið er að tjá löngun eða lýsa atburðum. Líkamshlutar eru staðsettir óháð ljóðmælanda og þeim sem hann ávarpar, tunga er lögð að vörum, lofti blásið inn í munn, klórað til blóðs, einn nafli kyssir annan. Og það er engu líkara en að þetta sé hið eiginlega erindi og innsta eðli bókarinnar: það er í lostanum, nándinni og hinu kynferðislega sem heimurinn stækkar. Það er þar sem eignarhald og einmanaleiki taka enda. Ekki í tungumálinu, nei, heldur sem áþreifanleg og líkamleg huggun, umhyggja, leikur, ást og kynlíf.

 

Eða eins og segir í einu af síðustu ljóðum bókarinnar, á bls. 62:

Hvørja ferð tit/geva mær herðakløpp/kína mær um kjálkan/kitla meg/taka um meg/lyfta meg upp/halda mær uppi/spæla við meg/orðleyst/leggja tit ein stein/á ein varða/so mín sólgarður/sæst betur/tá aðrir menn/villast nærendis

 

 

(Í hvert sinn sem þið/klappið mér á öxlina/gælið við vanga minn/kitlið mig/takið utan um mig/lyftið mér haldið á mér/leikið við mig/án orða/leggið þið stein/á vörðu/svo að sólgarðurinn minn/ sjáist betur/þegar aðrir karlmenn/villast í nágrenninu)

Með þessu verki hefur Beinir Bergsson skrifað fyrstu opinskáu hinsegin ljóðabók Færeyja, nýmæli í færeysku bókmenntalandslagi. Sólgarðurin setur nýtt viðmið, bæði hvað bókmenntirnar snertir og fyrir mennina í brotunum hér að ofan, sem ljóðin spá fyrir um að muni þurfa aðstoð við að fóta sig áfram inn í framtíðina. Þess vegna er bókin svo vel heppnuð sem raun ber vitni. Í ljóðunum býr magnaður holdlegur losti sem fer yfir eigin mörk og dregur upp hjartnæma mynd af háleitri hugsjón um mannlega umhyggju.