Carl Frode Tiller

Carl Frode Tiller
Photographer
Akam1K3
Carl Frode Tiller: Begynnelser. Skáldsaga, Aschehoug, 2017

Carl Frode Tiller fylgir eftir þríleiknum Innsirkling, einu meginverka norskra bókmennta á þessari öld, með skáldsögu þar sem hann beitir flókinni uppbyggingu frásagnar á algjörlega nýtt efni. Begynnelser (á íslensku „Byrjanir“) hefst þegar Terje, sem starfar sem umhverfisráðgjafi með sérþekkingu á líffræðilegri fjölbreytni, liggur á sjúkrahúsi eftir tilraun til sjálfsvígs. Þaðan er sagan rakin aftur á bak og lesandinn slæst í för aftur í fortíð að minni og stærri atburðum sem hefðu getað markað byrjun á mismunandi lífshlaupum fyrir Terje. Samtímis sjáum við að þær leiðir sem hann valdi ekki áttu einnig þátt í að móta hann. Carl Frode Tiller virðist öðrum fremur tileinka sér orð Sørens Kierkegaard um að lífið verði aðeins skilið afturábak en það verði að lifa því áfram: „Livet forstås baglæns, men må leves forlæns“.

Móðir Terje og systir hans stilla sér upp við hlið hans, í bókstaflegri merkingu við sjúkrabeðið en einnig í yfirfærðri merkingu þar sem þær njóta liðsinnis dóttur hans á táningsaldri og fyrrverandi eiginkonu. Þegar litið er um öxl sækja nánu samböndin á af slíkum krafti að þau valda næstum innilokunarkennd. Skref fyrir skref fylgjum við Terje aftur í tímann og erum vitni að aðgerðarleysi hans og ólgandi reiði í garð allra sem að hans mati misskilja hann eða gera honum rangt til, ástríku og stormasömu hjónabandi og enn lengra að bitru sambandi hans við móðurina sem virðist hafa misst stjórnina. Í Begynnelser er þó lögð meiri áhersla á að lýsa því hvernig er að vera misskilinn, tilfinning sem allar persónur sögunnar virðast eiga sameiginlega, en að finna sökudólg. Í snilldarlegum samtölum tekst höfundi að bregða upp mynd af því mikla tilfinningarófi sem kraumar undir hversdaglegum orðaskiptum.

Kannski hefur Terje valið sér hugsjónastarf sem umhverfisráðgjafi hjá sveitarfélaginu til að skapa mótvægi við bernskuna. Í náttúrunni finnur hann hreinleika sem hann saknar í mannlegum samskiptum sem að hans áliti eru eitruð. En það er hægara sagt en gert að berjast fyrir náttúrunni. Í prósa skáldsögunnar er fögrum ómi hugmyndaríkra nafna á náttúrufyrirbærum – krossblóm, hornugla, villtur rabarbari – stillt upp andspænis þeirri fávisku sem við gerum okkur sek um í umgengni okkar við sömu náttúru.

Í þeirri vistfræði sem Terje hefur menntað sig í er ekki alltaf hægt að greina orsakir og afleiðingar við fyrstu sýn. Smávægileg breyting í vistkerfi einnar tegundar eða röskun á jafnvægi milli tveggja lífvera getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar allt annars staðar í næringarkeðjunni. Er þessu eins farið meðal manna? Flækjurnar hjá aðstandendum Terje sem þeim reynist örðugt að leysa úr skapa þungbúinn hljómbotn fyrir ruglingslegan vef sem liggur að baki ákvörðunum mannanna sem hafa afleiðingar fyrir dýr og jurtaríka um ókominn tíma.

Eru spjöllin að verða óafturkræft eða næst að breyta um stefnu áður en það verður um seinan? Er annarra kosta völ eða réðst útkoman af ákvörðun sem tekin var fyrir áratugum síðan? Í fléttu sögunnar leitar Tiller svara við erfiðum spurningum en með skilningi á flóknu eðli þeirra félagslegu og náttúrulegu kerfa sem stjórna lífi okkar og samspili þeirra. Þrátt fyrir að líf Terje hafi tekið mun „uppbyggilegri“ stefnu en það hefði getað gert kom að því að hann reyndi að fyrirfara sér. Sýnir það að ekki er hægt að gefa sér neitt fyrirfram.

„Mér fannst að við mennirnir ættum að útvíkka boðorðið um að elska náungann, að við ættum að hegða okkur þannig að hinar tegundirnar myndu sakna okkar þegar við kveddum þessa jarðvist,“ hugsar Terje eitt sinn. Það er lítið í skáldsögunni sem bendir til þess að Terje eða umhverfi hans hafi náð því takmarki en þar er gefið í skyn að maðurinn sjálfur verði að leysa þann vanda sem hann er valdur að. Þannig fjalla bókmenntirnar um brýn umhverfismál á öflugan og margslunginn hátt.