Caroline Albertine Minor

Caroline Albertine Minor
Photographer
Lærke Posselt
Caroline Albertine Minor: Velsignelser. Smásögur, Rosinante, 2017.

Velsignelser (á íslensku „Blessanir“) er þriðja prósaverk Caroline Albertine Minor og fjallar um ögurstundir lífsins þegar sorg og örvænting eftir ástvinamissi eru á góðri leið með að yfirtaka allt. En verkið fjallar einnig um þau undursamlegu augnblik þegar glittir í ljóstýru í myrkrinu og vonin kviknar við að önnur manneskja, oft óvænt, réttir fram höndina og leiðir okkur út úr svartnættinu. Í sjö smásögum kynnumst við fólki sem finnur fyrir vanmætti eftir óbærilegan missi, ungri ástfanginni móður sem missir manninn sinn úr heilaskaða, móður dóttur sem fyrirfer sér og dóttur sem er hunsuð af deyjandi föður sínum. Allt eru þetta aðstæður sem vekja upp gífurlega flóknar tilfinningar; söknuð, sársauka, reiði, skömm og einmanaleika sem við getum ekki alltaf komið orðum að. Frekar en að við erum fær um að lýsa blessunarverðum augnblikum sem láta oft lítið yfir sér; þegar annari manneskju, til að mynda presti eða nágranna í smásögunum, tekst að ná til sorgþrunginnar manneskju og beina henni aftur til lífsins. Með öruggum stíl og nákvæmum og áhrifamiklum persónulýsingum tekst Caroline Albertine Minor snilldarlega að koma orðum að flóknum tilfinningum.

Sjö sögur vefjast skrautlega hver um aðra og minna hvorki á klassískar þroska- og örlagasögur né kerfisbundna uppbyggingu skáldsagna póstmódernismans. Þær líkjast lífinu sjálfu þar sem hver saga slær hratt af eigin lífi um leið og hún tengist lífinu í hinum smásögunum. Velsignelser er ein heild, ekki aðeins vegna þess að sömu persónunum bregður fyrir í fleiri en einni sögu heldur bera allir textarnir merki um framúrskarandi hæfileika til að lýsa ótal blæbrigðum sálarástands í köldum og tærum stíl sem jafnframt er undursamlega sefjandi.

Myndmál Caroline Albertine Minor er í sérflokki, aldrei útvortis eða skrautlegt heldur er eins og sondu sé stungið inn til að lýsa dýpsta sársaukanum. Í sögu um unga móður sem sér manninn sinn hverfa inn í þoku eftir bílslys segir: „Hann sá fortíðinni rétt bregða fyrir og ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að halda fast í, tengja og stækka eyjarnar af skýrri hugsun. Ég vonaðist til að í huga hans yrði til strandlengja af minningum eins og í mér.“ Í annarri sögu hengir au pair-stúlka sig í fíkjutré eftir að hafa átt í sambandi við samviskulausan giftan mann: „eins og alltaf var illkvittni hans óvænt og hressandi, eins og bakuggi á höfrungi sem birtist og gárar slétt yfirborð persónuleikans.“ Enn ein sagan segir frá ungri konu með ungabarn og mann sem var besti vinur mannsins sem hún elskaði og átti í sambandi við þar til hann tók of stóran skammt af lyfjum: „Sú tilfinning að ekkert væri í rauninni til hafði ágerst allan morguninn og breiddi nú úr sér eins og blóm í heila mínum.“

Það eru grimmar, óbærilegar, dimmar, skammarlegar, óttaslegnar og sársaukafullar tilfinningar sem láta á sér bæra í sögunum sjö en eftir missi, einmanaleika, svik, sorg og reiðuleysi er einnig von, vinátta, ást, mennska og nýir sjóndeildarhringir. Caroline Albertine Minor tekst að miðla þessu öllu í fáguðum, ástríðufullum og óvenju fallegum prósa. Velsignelser hefur alla burði til að verða meginverk í dönskum stuttum prósa síðari áratuga.