Dánial Hoydal og Annika Øyrabø

Dánial Hoydal, Annika Øyrabø
Photographer
Bókadeild Føroya Lærarafelags
Abbi og eg og abbi eftir Dánial Hoydal og Anniku Øyrabø (myndskr.). Abbi og eg og abbi. Myndabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Í þessari myndabók sem er í senn uppfull af húmor, depurð og von, fær lesandinn innsýn í náið samband lítils drengs við afa sinn. Með drenginn sem sögumann fylgjum við tvímenningunum þegar þeir fara að gefa öndunum niðri við tjörnina, þegar afi segir sögur og þegar drengurinn gistir hjá honum. Um miðbik frásagnarinnar fáum við þó pata af því að ekki sé allt með felldu, og það kemur á daginn að afi drengsins er farinn að tapa minni. Með móður drengsins sem millilið og leiðsögumann snýst myndin smám saman við og við sögulok er drengurinn farinn að hjálpa afa sínum, þó að áður hafi því verið öfugt farið.

 

Með heilabilun sem undirliggjandi þema skrifa höfundar bókarinnar sig inn í viðfangsefni sem hefur verið áberandi í norrænum barna- og unglingabókmenntum á undanförnum árum. Að miðla svo alvarlegu efni, sem margir segðu að væri ekki við barna hæfi, útheimtir bæði hugvit og hlýju. Með því að halda mögnuðu jafnvægi milli ljóss og myrkurs tekst Dánial Hoydal og Anniku Øyrabø einmitt þetta. Texti og myndir renna saman í eina heild þar sem spaugsamt rím og þulur og þægilegt andrúmsloftið heima hjá afa mynda æpandi andstæðu við miðjuopnu bókarinnar, þar sem tvímenningarnir finna ekki lengur neina gleði í hinum annars notalegu gönguferðum niður að andapollinum. Við sögulok erum við aftur niðri við tjörnina, en í þetta sinn varpar táknrænt sólsetrið, ásamt kímninni sem afinn hefur nú fundið aftur, hlýrri birtu á aðstæður sem annars virðast vonlausar.

 

Annika Øyrabø hefur sérstöðu sem myndskreytir barnabóka með pappírklippimyndum sínum. Stíll hennar minnir á William Heinesen; klettar og steinar vakna til lífsins og tengingar skapast við gamla færeyska þjóðtrú. Að auki minna fjölmörg smáatriði, svo sem sokkur á rúmfæti og köttur á gardínustönginni, á sænska myndabókahöfundinn, teiknarann og myndskreytinn Sven Nordqvist. Myndirnar eru framlenging af textanum og megna þannig að varpa auknu ljósi á minnistap afans, til dæmis þegar við sjáum ísskáp fullan af hlutum sem ekki eiga þar heima. Einnig hér renna kímni og angurværð saman og tala til tilfinninga bæði barnsins og hins fullorðna.

 

Dánial Hoydal er færeyskur rithöfundur og þýðandi. Hann er með meistaragráðu í mælskufræði og upplýsingafræði og starfar sjálfstætt sem ráðgjafi á sviði samskipta og markaðssetningar. Dánial Hoydal sendi frá sér sína fyrstu bók, myndabókina Í geyma, árið 2002. Hanni Bjartalíð myndskreytti bókina. Síðan hefur hann skrifað handrit að færeyskum óperum og söngleikjum. Að auki hefur hann þýtt fjölda söngleikja á færeysku. Annika Øyrabø er færeysk-danskur hönnuður og myndskreytir. Hún nam við Danish Design School 2000–2007 og einnig við Hochschule für Angewandte Wissenschaften í Hamborg í Þýskalandi. Frá árinu 2013 hefur hún sent frá sér fjölda þýskra og danskra tómstundabóka. Árið 2014 myndskreytti hún sína fyrstu bók, hollensku myndabókina Pas op voor wilde Wesley, með texta eftir Elle van Lieshout og Erik van Os. Auk Abbi og eg og abbi (2021) („Afi og ég og afi“, hefur ekki komið út á íslensku) hefur hún í samstarfi við rithöfundinn Aðalbjørgu J. Linklett einnig myndskreytt myndabókina Langa Lina langomma (2021) þar sem ellin er einnig gegnumgangandi stef.