Dánial Hoydal og Annika Øyrabø
Rökstuðningur
Hvað skal gera þegar strikin eru alls staðar og þú hefur engan til að ræða það við?
Myndabókin Strikurnar („Strikin“, ekki gefin út á íslensku) fjallar um tvo bestu vini sem eru samferða heim úr skólanum. Þeir þurfa ekki að segja margt. Þeir skilja hvor annan og vita að allt er í lagi. Samheldni þeirra er augljós, bæði í texta og myndum. Þeir ganga yfir strikin á gangstéttinni – það sem verður síðan vandi sögumannsins: strikin og óttinn við að fara yfir þau.
Kvíðinn vegna strikanna brýst fram þegar afi drengsins deyr og honum finnst hann utanveltu andspænis sorginni sem sameinar fullorðna fólkið. Vanmáttur hinna fullorðnu gagnvart barninu í erfiðum aðstæðum birtist í andstæðum í myndskreytingunum, þar sem hin fullorðnu eru eins og svartir skuggar með teppi úr tárum í bakgrunninum. Drengurinn er fremst á myndinni í ljósum litum; einmana, utanveltu og áhyggjufullur. Nú byrjar hann að sjá strikin – úti um allt – og verður æ uppteknari af þeirri tilhugsun að hann verði að bregðast rétt við. Strikin, sem á fyrstu opnunni virðast meinlaus þar sem þau skilja að hellurnar í gangstéttinni, taka um miðbik bókarinnar á sig mynd óargadýrsins sem lesandinn hefur þegar séð á dökkri og ógnvænlegri kápumyndinni. Þar sést drengurinn aðeins aftan frá og er nánast lentur í klónum og kjaftinum á stóru óargadýrinu, alsettu strikum.
Drengurinn tjáir sjálfur erfiðleikana við að koma þráhyggjukenndum hugsununum í orð – hann veit að þær eru fyrirferðarmeiri en efni standa til, en er ekki fær um að breyta eigin mynstri. Honum finnst hann vera einn með strikunum og vinur hans skilur hann ekki lengur. Hann kemst að því hvernig það er þegar vinur manns nennir allt í einu ekki að vera með manni. Hann skilur vel ástæðuna en megnar ekki að gera neitt í málinu. Strikin hafa tekið stjórnina. Drengurinn er líka sannfærður um að mamma hans muni ekki skilja þessar hugsanir og því deilir hann þeim heldur ekki með henni. En þó að móðirin viti ekki hvað angrar son hennar, þá skilur hún að sem hinn fullorðni aðili í aðstæðunum verður hún að grípa inn í. Mæðginin borða vöfflur, fara út að ganga, veiða fisk og krabba og drengurinn gleymir öllu um strikin. Gegnum mannleg samskipti og samveru öðlast hann bjargráð sem hjálpa honum að gleyma strikunum sem eru alls staðar nálæg.
Viðtakandinn er allt að því skrifaður út úr þessum texta með skorinorðri og skýrri málnotkun, sem nær þó einmitt að hrífa lesendann með sér og gera Strikurnar að tímalausri og algildri bók sem kemur orðum að hinni mannlegu þörf fyrir að ná tökum á hinum erfiðu hliðum lífsins. Bókin fjallar um alvarlegt efni og gerir ekki lítið úr því, en sýnir að mögulegt er að finna lausnir og von í erfiðum aðstæðum sem virðast vonlausar. Strikin voru þarna í upphafi og eru þar enn í sögulok. Þetta er sýnt á fallegan hátt með því að sömu myndirnar birtast í bókarlok og í upphafi; gráleitar, dökkar og alsettar strikum, en þó með þeim greinarmun að í lokin vaxa falleg, ljós blóm inn á milli dökkra strikanna.
Dánial Hoydal er færeyskur rithöfundur. Hann er með meistaragráðu í rökfræði og tölvunarfræði. Hoydal gaf út sína fyrstu bók árið 2002, myndabókina Í geyma sem Hanni Bjartalíð myndskreytti. Annika Øyrabø er færeysk-danskur hönnuður og myndskreytir. Hún útskrifaðist frá danska hönnunarskólanum og Hochschule für Angewandte Wissenschaften í Hamborg.
Áður en þau skrifuðu Strikurnar sendu Dánial og Annika frá sér bókina Abbi og eg og abbi („Afi og ég og afi“, ekki gefin út á íslensku) sem var tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 og hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin sama ár. Hún hefur komið út í danskri þýðingu undir heitinu Bedste og mig og bedste (2022).