Elisabet Kristín Jökulsdóttir: Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (Kærligheden – et nervevrag. Ingen dans ved Fiskeklippen)

Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Photographer
Spessi
Ljóðabók. Viti menn, 2014

„Af hverju fer hún ekki frá honum?“ segjum við kannski þegar við fréttum af konu í ofbeldissambandi. „Hvað var hún að taka saman við hann, þekktan ofbeldismann?“ segjum við um einhverja aðra konu, en svörin við spurningunum liggja ekki á lausu. Elísabet Kristín Jökulsdóttir reynir að svara þeim fyrir sitt leyti í ljóðabókinni Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett, sem fjallar á einlægan og opinskáan hátt um ofbeldissamband og ást.

Því ástin er svarið, eða ef til vill þrá okkar eftir ást og rykið sem hún slær í augu okkar í fyrstu. Ljóðmælandi í bók Elísabetar lýsir þróun sambandsins allt frá fyrstu kynnum þegar hún vill trúa að hún sé elskuð eins og hún er, án allra fegurðarsmyrsla og skrautklæða, og þangað til hún stígur loksins aftur út úr eldinum að sambandinu loknu, komin úr korseletti og nælonsokkum. Myndmálið er beinskeytt og myndirnar sem dregnar eru upp standa lesanda ljóslifandi fyrir sjónum. Við þekkjum þetta fólk, við höfum hitt það, kannski höfum við sjálf staðið í þessum sporum.

Herbergi, hæð og hverfi

Ef hann var í sama herbergi var ég mjög skotin í honum

ef hann var á neðri hæðinni var ég sjúklega skotin í honum

ef hann var í öðru hverfi var ég að deyja úr ást.

Ljóðabókinni Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett er skipt í þrjá kafla, tilhugalíf, sambúð og skilnað, sem segja í sameiningu sterka og áhrifamikla sögu, sorglega og fyndna í senn eins og lífið sjálft. Hér eru engir unglingar að stíga í vænginn hvort við annað – þetta er fullorðið fólk með fortíð, en varnaðarorð, fyrri saga og fyrirboðar gagnast lítið og öllu slæmu hlýtur að vera hægt að breyta, það á ekki við núna, omnia vincit amor. Veruleikinn í sinni gráu mynd ber þó fyrr en varir að dyrum í sambúðinni og söknuðurinn er sár eftir sambandsslitin þegar enginn dansar við Ufsaklett. Þrátt fyrir allt sem á undan gekk er þráin eftir ást ennþá sterk, jafnvel þótt hún sé og hafi alltaf verið dauðadæmd.

Ufsaklettur

Svo komu áramótin

og enginn dans við Ufsaklett

það var ekkert tunglskin

engin spor í snjónum

engin ást í loftinu

engin von

í dansinum

engin kona sem kom út úr klettinum

og dansaði í korseletti

í flugeldaregninu

við mann

með sjómannshendur.

Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett er óvenjuleg ljóðabók, laus við sjálfsvorkunn og ásakanir, hispurslaus lýsing á sambandi sem hefði eflaust aldrei átt að verða til. Naívar píkumyndir höfundar gæða hana aukinni vídd, hinum holdlega og ómissandi þætti sambandsins sem þó er víða þrunginn sársauka og einsemd. Skáldið fléttar á einstakan hátt saman húmor og hugarangist og segir lesandanum sögu sína af slíkri einlægni að hún gleymist seint. Eftir standa mjög persónuleg svör við spurningum okkar um ást í ofbeldissamböndum.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir er Reykvíkingur, fædd 16. apríl 1958. Fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1989 og hún hefur sent frá sér ljóðabækur, sögur handa börnum og fullorðnum, smásögur, leikrit, dansverk og gjörninga. Árið 2015 hlaut ljóðabókin Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við UfsaklettFjöruverðlaunin (bókmenntaverðlaun kvenna) og lesendaverðlaun DV. Elísabet gefur bækur sínar út sjálf, enda segir hún að einungis þannig geti hún ráðið öllu um endanlega mynd þeirra. Hún hefur ekki áður verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.