Hannu Raittila: Terminaali
Hannu Raittila (f. 1956) hefur gefið út sextán verk og fest sig í sessi meðal helstu nútímahöfunda Finna. Árið 2001 hlaut hann Finlandia-verðlaunin fyrir skáldsöguna Canal Grande. Fyrir skáldsöguna sem nú er tilnefnd, Terminaali, hlaut hann Runeberg-verðlaunin 2014 en hún var einnig tilnefnd til Finlandia-verðlaunanna 2013.
Skáldsögur og esseyjur Raittila hafa verið nefndar „verkfræðingaprósi“ sökum tilhneigingar hans til að lýsa heiminum með tæknilegum hugtökum. Í söguheimi Raittila standa tækninýjungar og önnur hlutlæg fyrirbæri fyrir mannlegan sköpunarkraft og möguleika til að hafa áhrif á umhverfið. Jafnframt er þar að finna þversagnakenndar hugmyndir um ofmetnað og mikilmennskubrjálæði; persónur leitast við að skapa stórfengleg verk en eru dæmdar til að mistakast. Persónurnar reyna að láta trúna á tækniframfarir koma í stað trúar á sköpunarverk Guðs, en sú veröld sem reiðir sig á tæknina reynist á endanum viðkvæm og brothætt tálsýn.
Í Canal Grande fór söguhetjan til Feneyja til að forða borginni frá því að sökkva í sæ. Sögusvið Terminaali er heimur hnattvæðingar, á hafi úti og uppi í háloftunum. Á yfirborðinu virðist sagan fjalla um fjölskyldu sem hefur sundrast en reynir að ná saman aftur, en áður en lýkur blasir við yfirvofandi hrun vestrænnar menningar og árekstur ólíkrar lífssýnar Vestur- og Austurlandabúa.
Uppbygging skáldsögunnar felst í samhliða uppstillingu makrókosmos (hins stóra alheims) og míkrókosmos (smækkaðrar spegilmyndar sama alheims). Höfundur dregur upp ýmsar hliðstæður og undirstrikar vandamál fjölskyldunnar með samlíkingu við hræringar landgrunnsins: „Á sama hátt færist mannfólkið undan og fikrar sig nær hvert öðru í leyndardómsfullum hringhreyfingum – líka meðlimirnir fjölskyldunnar.“ Fólkið sem myndaði kjarnafjölskyldu áður en átakanlegir atburðir dundu yfir, upplifir við sögulok nokkurs konar samhljóm í finnsku hásumarbirtunni.
Raittila tengir örlög hinnar finnsku Lampen-fjölskyldu kreppunni sem braust út í heimsmálunum í kjölfar atburðanna þann 11. september 2001. Tímasvið sögunnar spannar nokkurra ára bil fyrir og eftir árásirnar. Heimasætan Paula, sem kallar sig Lauru eftir aðalpersónu Twin Peaks-þáttaraðarinnar, er stödd um borð í flugvél á leið til Bandaríkjanna þegar tvíburaturnarnir falla. Í kjölfarið verður hún innlyksa í kanadískri flugstöð um óákveðinn tíma. Brátt fara Laura og Sara, vinkona hennar, að gera sig heimakomnar í flugstöðinni og líta á vistina þar sem þátt í eins konar stelpulegri jaðarmenningu: hangs á flugstöð verður smám saman að lífsstíl. Á tímum efnishyggju má segja að flugstöðvar og ferðalög eigi sér stað í nýjum trúarbrögðum og að þeir helgisiðir og hundakúnstir sem fylgja slíkum ferðalögum minni á andlegar æfingar.
Gegnum dagbókarfærslur fær lesandinn innsýn í hugarheim Lauru og vitneskju um lífshlaup hennar. Eftir alls kyns uppátæki og sjálfsmyndarkreppu er hún tekin sem gísl af palestínskum hryðjuverkamanni og deyr píslarvættisdauða. Foreldrar Lauru, hinn finnlandssænski Johan Lampen og Pirjo kona hans, eru þó hinar eiginlegu aðalpersónur bókarinnar. Meðan Johan er vitundarmiðja sögunnar fylgjumst við með honum svala áhuga sínum á tækninýjungum með því að ferðast um heiminn sem landamæravörður. Hann hefur leit að dóttur sinni, sem hann sá síðast í vöggu. Pirjo starfar sem fréttaþula og stendur þannig fyrir tækninýjungar í fjölmiðlum, mitt í frásögn af heiminum sem sammannlegri setustofu sem sífellt auðveldara er að stjórna.
Í bókinni mætast þannig ólíkir frásagnarhættir og stílar. Þar eru barnalegar dagbókarfærslur Lauru og djúpir, innhverfir þankar Johans, innlegg Pirjo eru á köflum afar tilfinningasöm en Sara heldur fjarlægð í sinni frásögn. Sagan er á stöðugri hreyfingu og spennan helst allt til loka. Hver kafli opnar á nýjar víddir í haganlega ofinni heild.
Töluvert er um textatengsl í sögunni. Þar eru vísanir í biblíusögur og Ódysseifskviðu Hómers, en einnig í sígild verk nútímabókmennta á borð við Innstu myrkur eftir Joseph Conrad og raunsæja frásagnarhefð finnska höfundarins Väinö Linna. Raittila kann að draga frásögn stórum dráttum í anda Linna, og víkkar umgjörðina enn frekar svo hún rúmi hinn hnattræna veruleika.
Titillinn Terminaali vísar vitanlega til flugstöðva, en hann má jafnframt túlka sem táknmynd fyrir neikvæðar afleiðingar óhóflegrar hnattvæðingar. Tækninýjungar sem greiða fyrir samskiptanetum leiða til nýrra átaka sem ógna umhverfinu og menningunni í heild. Í skáldsögunni er brugðið upp mynd af sjúkum heimi á hraðferð að endastöð sem kann að reynast blindgata.