Helle Helle: Hvis det er

Helle Helle
Ljósmyndari
Sofie Amalie Klougart
Skáldsaga, Samleren, 2014

Síðan Helle Helle kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1993 hefur hún hvað eftir annað komið lesendum á óvart með skáldsögum og smásögum þar sem lágstemmdar myndir af fyrirferðarlitlum persónum eru dregnar upp með fáum orðum. Þó að persónur bóka hennar séu fámálar hittir hver setning í mark. Höfundur veitir einstaka sýn á söguhetjur sínar, í senn kímna og umhyggjusama, og fer með þau fáu orð sem þær mæla af athugulli næmni.

Hvis det er er saga innan í sögu og er ytri sagan öllu dramatískari en lesendur eiga að venjast frá Helle. Sögusviðið í upphafi bókarinnar er hinir víðfeðmu skógar Jótlands, og sögumaður hefur villst af leið: „Ég ætla að hafa þetta stutt, ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er villtur í stóra skóginum. Ég veit ekki mikið um skóga, ég er ekki glaðbeittur sonur náttúrunnar. Það sögðu þau í kaffinu í fyrradag. En hér er ég við rætur jóskra risa, í svokölluðum hlaupaskóm.“

Orðið „svokölluðum“ nær eitt og sér að skapa meðvitund um tungumálið, staðsetja ofurhversdagslegt orð í vissri fjarlægð en veita því um leið nýstárlega nánd, svo lesandinn flissar lítið eitt og sperrir eyrun. Frásagnarstíll sögumannsins dregur einnig að sér athygli með lúmskum hætti: „Ekki nota orðið ekki svona oft,“ stendur á einum stað þegar orðið „ekki“ hefur komið margsinnis fyrir. „En, en, en“, stendur á öðrum stað, þegar sögumaður hefur í þrígang byrjað setningu á orðinu „en“.

Þannig nálgast Helle Helle orðin á sama hátt og persónurnar: þau eru hlægileg og elskuleg, við skemmtum okkur yfir þeim og komumst um leið við yfir álappaleika þeirra, vanmætti, merkingarhlöðnu merkingarleysi.

Sögumaðurinn er ekki einn á villigötum; allt frá fyrstu síðu stendur kona á skógarstígnum, hún er með ennisband, æfingajakki bundinn um mittið, hún tyggur tyggjó. Þau ákveða að verða samferða og fyrr en varir er ástandið orðið tvísýnt: logandi hælsæri, hnausþykkt myrkur og jökulkuldi, ekkert símasamband, uglur skrækja og sjúkrabíll vælir í fjarska. Uppgefin og illa til reika ganga þau fram á skýli, skríða þar undir yfirgefin teppi og þá gerist nokkuð sem hefur endurtekið sig allar götur síðan í Tídægru eftir Boccaccio: við þessar óvanalegu aðstæður byrjar einhver að segja sögu. Ekki er fyllilega ljóst hver „einhver“ er í þessu samhengi: eina stundina eru sögumaður og konan að tala saman, en áður en lesandi veit af er frásögnin skyndilega í þriðju persónu og farin að hverfast um fortíð konunnar. Það má hugsa sér sem eins konar óbeina ræðu sem konan deilir með samferðamanni sínum meðan þau reyna að halda á sér hita í dimmum, köldum skóginum.

Frásögnin er eins hversdagsleg og umgjörðin utan um hana er dramatísk. Sagt er frá því að konan hafi á sínum yngri árum búið í kommúnu. Þegar hún flutti út bar hún óuppgerðar tilfinningar í brjósti til Christians, eins sambýlinganna. Mörgum árum síðar hittast þau aftur fyrir tilviljun á markaði í Hamborg. Í kjölfarið blómstrar hún sem kærasta Christians og stjúpmóðir sonar hans og hæfileikar hennar njóta sín í starfi í húsgagnaverslun tengdaforeldranna. Á þeim tíma sem sagan er sögð vinnur hún í fatabúð Torbens, gamals vinar síns, við aðalgötu smábæjar á Jótlandi. Það er allt og sumt. En, en. Þetta er ekki saga eftir hvern sem er. Hún er eftir Helle Helle. 

Helle hefur lag á því að beina athyglinni að smáatriðum, ekki síst vandræðalegum smáatriðum, og draga þannig upp ógleymanlegar myndir af tilveru sem annars kynni að virðast óeftirminnileg. Ruslið eftir hádegismatinn sem konan lætur hlaðast upp í skrifborðsskúffunni í sínu fyrsta starfi sem (óhæf) skrifstofustúlka. Kommúnan þar sem þau hlæja sig máttlaus, líkt og í vörn gegn dapurlegum vinnustöðum. Gulu og brúnu flísarnar á baðherbergisgólfinu, gamlar jógúrtslettur í ísskápshurðinni, náunginn í partýinu sem er skyndilega kominn með baðvask í hendurnar; upprifinn af vímu langaði hann að þvo á sér fæturna. Lítillega misheppnuð tilraun til þess að mála kirsuberjaviðarþilin í íbúðinni í Svenstrup hvít („Hún hefur enga hugmynd um hvaða erindi hún átti í Svenstrup“). Hamingjurík samvera með Christian og stjúpsyninum Buller á tíðindalitlu laugardagskvöldi: „Þau borðuðu nautasteik með kartöflum í kvöldmat. Hún velti hverri munnfylli af rauðvíni lengi um í munninum, það var svo mjúkt og dökkt.“ Ástin lætur undan síga: „Á jólunum fékk hún útvarpsvekjara frá Christian.“ Ást, sem áður en maður veit af hefur breyst úr geislandi hamingju í fjarlægð og gremju.

 Kyn sögumanns er óljóst í sögubyrjun, og má vera það. Sögulok, bæði í ytri sögunni og þeirri innri, eru óljós og mega vera það. Höfundurinn er dauður, kafnaði á hárspennu (ef marka má orð barns nokkurs þegar nær dregur sögulokum), og má vera það. Konan er 38 ára, kaflarnir í bókinni 38, í kafla 31 kemur titill bókarinnar fyrir: „Þú mátt fá ennisbandið mitt lánað, ef þú vilt (Du kan låne mit pandebånd, hvis det er).“

Þegar lesinn er texti eftir Helle Helle getur mann langað til að flytja inn í prósann og bara vera þar, virða fólk fyrir sér á sama hátt, hlusta á fáort tal þess af sömu athygli, deila skældum minningum þess um atriði sem fljótt á litið eru merkingarlaus. Hér er á ferðinni kjarnyrtur texti sem nær inn að kviku.