Ingeborg Arvola

Ingeborg Arvola

Ingeborg Arvola

Photographer
Farthein Rudjord
Ingeborg Arvola: Kniven i ilden, skáldsaga, Cappelen Damm, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Stundum gerist það að gagnrýnendur og lesendur eru á einu máli, og Kniven i ilden („Hnífurinn í eldinum“, ekki gefin út á íslensku) er á meðal þeirra bóka sem hlutu hvað bestar viðtökur í Noregi á síðasta ári. Auðvelt er að nota orð eins og ævintýraleg, stórfengleg og töfrum líkust um skáldsögu Arvola, því segja má að með henni sé lesendum kastað út í iðufall mannkynssögunnar. En að baki mikilfenglegri atburðarás hefur Arvola skapað sögumannsrödd sem kemur á óvart, heillar og ögrar í senn. Með skíði á fótum leggur Brita Caisa, einstæð móðir tveggja barna, af stað frá Finnlandi til Noregs árið 1859. Um leið og Arvola spinnur epíska ástarsögu úr þessu ferðalagi til strandar Noregs heldur hún fast í það sem helst einkennir Britu Caisu: Trúna á hið yfirnáttúrulega og þekkingu á umönnun sjúkra. Að því leyti minnir bókin á Eldum björn eftir Mikael Niemi (Koka Björn, ísl. þýð. Ísak Harðarson, útg. Mál og menning 2020), þar sem höfundur rýnir í hefðir og varpar ljósi á gamla þekkingu. Það styrkir líka skáldsöguna að lesendur hafa sjónarhorn Britu Caisu allan tímann og öðlast þannig sýn á þau sem oft vilja gleymast þegar segja á sögu Noregs. Í Kniven i ilden gefur Arvola rödd þeim sem dæmd voru fyrir saurlifnað og urðu að standa í kirkju, þeim sem lifðu flökkulífi og urðu að aðlagast lögum og reglum landsins, þeim sem urðu eftir og þurftu að hafa allt til reiðu þegar karlarnir kæmu af sjónum. Þetta sjónarhorn ljær bókinni ekki aðeins frumleika heldur verður líka til þess að hún talar beint inn í samtíma þar sem endurnýjaður áhugi er á samískri menningu og sögu.

 

Arvola á einnig hrós skilið fyrir byggingu Kniven i ilden. Þetta er skáldsaga sem skemmtir lesendum án þess að slá af bókmenntalegum gæðum. Með góðu valdi á dramatúrgíu í textanum sýnir Arvola að átakamiklar sögur þurfa líka góða sögumenn. Persónan Brita Caisa sér kynlegar og yfirnáttúrulegar sýnir og hefur til að bera manneskjulega einþykkni. Hér fæst öðruvísi sjónarhorn á hluta Noregs og á heim sem við töldum okkur þekkja að flestu leyti.