Jan Oksbøl Callesen

 Jan Oksbøl Callesen
Photographer
Lise Saxtrup
Jan Oksbøl Callesen: O PO POI. Myndabók, Jensen & Dalgaard, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

O PO POI er tilnefnd fyrir ærslafengna frásagnargleði sína, merkingarauðgi, einstakan húmor og djúpan frumleika. O PO POI tekst að hnika til hugmyndum okkar um það hvernig myndabók fyrir börn eiga að líta út.

 

Sagan er sögð eins og terta í þremur lögum – lögum af frásögnum, sögumönnum, persónum og stöðum, þar sem atburðarásinni vindur mishratt fram.

 

Í efsta lagi frásagnarinnar eru Önd, Kanína og Api í gúmmíbát úti á hafi. Önd segir hinum tveimur söguna af „tveimur köttum, frænda annars þeirra og því þegar tunglið datt niður“. Í miðjulagi sögunnar hittum við kettina tvo. Kötturinn með græna hattinn segir þeim með brúna hattinn söguna af frænda sínum. Sagan um frændann er neðsta lag sögunnar – og nú færist spenna í atburðarásina: „Þar sem frændi minn býr gerðist það dag einn að tunglið datt niður!“ Við sjáum hvernig stórt, gult tunglið lendir með feiknamiklu skvampi, sem tekur svo stórt pláss á bókaropnunni að allt fólkið lendir í kremju neðst á síðunni í ringulreið lita, skakkra líkama og skelfdra andlita - og Köttur frændi fylgist með því öllu saman. Og á næstu opnu verður lagkökubygging sögunnar bókstafleg, í myndskreytingu sem sýnir lögin þrjú „ofan á“ hvert öðru. Seinna kemur í ljós að heilmikil spenna býr einnig í efri lögunum tveimur.

 

Sögurnar þrjár bera hver um sig blæ af dæmisögum með algildan boðskap, til dæmis um orsök og afleiðingu, um að segja og skilja sögu og um fordóma og jaðarsetningu.

 

Textinn er einfaldur og skýr, fullur af ærslafullri endurnýjun („BIBB BÚMM KLAPP! heyrðist“) og litirnir eru sterkir og skærir. Á öllum litaflötum eru munstur af því tagi sem börn kannast við að hafa litað með tússlitum sem fást í stórmörkuðum og leikfangaverslunum. Munstrin láta teikningarnar víbra innan hinna skýru, svörtu útlína sem afmarka persónur og hluti. Á hverri opnu eru ótal fyrirbæri að skoða, og fyrir þá lesendur sem vilja kafa dýpra í hin mörgu lög merkingar er þar einnig heilmikið að ræða.

 

O PO POI er ein þeirra bóka sem lesa má aftur og aftur, og þar sem hver lestur hefur eitthvað nýtt og óvænt að bjóða. Sem lesandi þarftu að opna hug þinn, segja já og hoppa með í ferðalagið – og ef þú gerir það bíður þín einstök, snjöll og mikilfengleg upplifun.