Johan Ehn

Johan Ehn
Ljósmyndari
Ola Kjelbye
Johan Ehn: Hästpojkarna. Unglingabók, Gilla Böcker, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Anton er nýorðinn stúdent og farinn að vinna í heimaþjónustu. Hugsanir hans einkennast af fiðringi og óöryggi vegna hins nýja og spennandi sambands hans við Peter. Önnur ástríða Antons eru hestarnir í hesthúsinu sem hann stundar. Rúmum níutíu árum fyrr eru tveir piltar, Sasha og Janek, að æfa keppnisfimleika í Tékkóslóvakíu. Þeir stinga af og hefja nýtt líf sem fimleikamenn á hestbaki í ferðasirkus. Smám saman átta þeir sig á því að hin sterku tengsl á milli þeirra eru meira en bara vinátta. Hér er sagt frá fjórum ungum mönnum, tveimur í Stokkhólmi samtíma okkar og tveimur í Evrópu á millistríðsárunum, en fyrir tilstilli nýja starfsins hans Antons liggja leiðir þeirra saman. Hinn hartnær hundrað ára gamli maður sem Anton annast í vinnunni er annar fimleikamannanna.

Hästpojkarna („Hestastrákarnir“, ekki þýdd á íslensku) er önnur unglingabók leikarans og dramatúrgsins Johans Ehn. Fyrsta bók hans, Down under, kom út 2017. Í nýju bókinni fléttar hann skáldskap saman við sögulega atburði. Hästpojkarna er ríkuleg frásögn sem spannar umönnun aldraðra í Svíþjóð 21. aldarinnar, moldug hesthús og sirkusstjóra og leyniklúbba samkynhneigðra í Berlín á fjórða áratug tuttugustu aldar. Hér er lýst á sannfærandi hátt þeirri umhyggju og blíðu sem myndast milli umönnunaðila og umönnunarþega, milli hestastráks og hestsins hans, milli elskenda.

Eins lýsir höfundur uppgangi nasismans í Þýskalandi og áhrifum hans, ekki bara á gyðinga heldur fleiri jaðarhópa, með trúverðugum hætti. Þegar Sasha og Janek byrja að leita uppi aðstæður sem gera þeim kleift að tjá ást sína sér lesandinn hvernig fólk sem til skamms tíma var frjálst og fullt af lífi er skyndilega bælt niður þegar öfgahægristefna hlýtur framgang í samfélaginu. Um leið eru dregnar upp skýrar hliðstæður við ástandið í Evrópu í dag. Samtími og heimaland Antons gera honum og kærasta hans kleift að tjá ást sína opinberlega, en að sama skapi fara ítök hægripopúlisma stöðugt vaxandi í samfélaginu. Þegar Anton kynnist gamla manninum og sögu hans vaknar einnig aukin meðvitund innra með honum sjálfum.

Hästpojkarna er brýn og áhrifamikil saga sem sýnir uggvænlegar hliðstæður við okkar tíma. Hún lýsir sögulegum atburðum en sýnir jafnframt hvernig nýfengið frelsi getur verið hrifið jafnskjótt af manni aftur. Þetta er marglaga saga sem ber vitni um mikla rannsóknarvinnu höfundar. Umfram allt er hún þó vel skrifuð, á máli sem talar til allra skilningarvita. Ehn tekst afburðavel upp í hjartnæmum lýsingum á huggandi höndum, svo og skýrum myndum af hinum áþreifanlegu og líkamlegu þáttum hestamennskunnar og sirkuslífsins. Hann fangar lesandann frá fyrstu síðu og allt fram að hinum óvæntu en þó afar vel undirbúnu sögulokum.