Johanna Boholm
Sumir nýir höfundar stíga fram með texta sem eru ótrúlega fullskapaðir, rétt eins og orðin hafi bara beðið eftir að öðlast frelsi.
Johanna Boholm (fædd 1976 og búsett í Jomala á Álandseyjum) er slíkur höfundur. Frumraun hennar, Bygdebok, er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2014 fyrir hönd Álandseyja.
Það er enginn hægðarleikur að skilgreina Bygdebok á hefðbundin hátt. Blaðsíðurnar eru fáar, tæplega 80 talsins, en stíll Boholms er svo þéttur að þegar lestrinum er lokið er eins og maður hafi lifað heilt líf. Þetta er ekki skáldsaga í hefðbundnum skilningi heldur fremur ljóðræn frásögn í óbundnu máli sem með snilldarlegum hætti lætur innra og ytra landslag kallast á. Byggðin sem vísað er til er á landakortinu, en hún verður jafnframt speglun af hreyfingu undir yfirborði meðvitundarinnar.
Þetta snýst um að muna, að finna sjálfan sig á ný til þess fá staðfestingu. Með systur (eða spegilmynd?) í hlutverki móttakanda reynir sögumaður að kortleggja mótandi og erfiða reynslu bernskuáranna. Eitt meginsögusviðið er hús frá áttunda áratugnum með þunnum pappaveggjum. Stofuklukka slær eins og hjarta. Fyrir utan leggst myrkrið yfir lítið samfélag þar sem áin er miðpunkturinn. Föðurímynd sem erfitt er að henda reiður á situr sem fastast í snúningsstól, hópur hálfruglaðra móðursystra kemur í heimsókn og stingur á sig silfurskeiðum og öðrum munum.
Myndir úr minningum systranna vefast saman, en er nokkurn tíma hægt að vera viss um að komast að þeim veruleika sem er sannur? Og hvernig á að takast á við þá sektarkennd sem er sjálfur kjarni tilverunnar?
Í Bygdebok er úthugsaður hrynjandi þar sem ákveðin lykilorð, oft nýyrði sem lýsa mikilli hugmyndaauðgi, eru endurtekin eins og stef í sónötu: Græðisúra, hjartsláttur, „guldskvätta“, „klapperbarn“, „fladdernätt“. Í textanum er falin gáta sem stöðugt lokkar mann til að lesa meira meðan sögumaður leitar æ lengra inn í ranghala minninganna: „Júnívindurinn, gæsahúð á handleggjunum, kyrrð. Söngur.“
Gustaf Widén