Kristín Helga Gunnarsdóttir

Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels (”Vær usynlig – Ishmaels flugthistorie”)
Kristín Helga Gunnarsdóttir: Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels. Skáldsaga, Norstedts, 2017

Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels er ráðið sem afinn, Jidu, gefur Ishmael á flótta þeirra frá Sýrlandi. Í Aleppó hafa faðir Ishmaels, móðir hans og systir verið drepin og heimili þeirra og afans sprengt í loft upp ásamt stórum hluta af hverfinu þeirra, flestum vinum og ættingjum. Flóttinn er knúinn áfram af draumi afans um nýtt og betra líf og einhvers konar framtíð fyrir dóttursoninn í Evrópu. Leið þeirra tveggja og besta vinar Ishmael er vörðuð af mannlegum rándýrum sem misþyrma þeim, hirða aleigu þeirra og senda þá út í opinn dauðann.

Uppi á Íslandi hefur annarri sýrlenskri fjölskyldu verið boðið hæli og hún er að reyna að fóta sig í nýju tungumáli, náttúru og menningu. Þetta eru fjölskylduvinir Ishmaels frá Aleppo. Hann kemst að verustað þeirra og eltir þau til Íslands. Þangað kemst hann - en á fölsku vegabréfi sem er afhjúpað við komuna.

Saga forsjárlausu flóttabarnanna er áminning til okkar um að hinn mikilvægi Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er einn af þeim mörgu sáttmálum sem brotinn er daglega í stríðshrjáðum löndum þar sem líf barna er einskis virði eins og bókin minnir á. Ishmael er hugarfóstur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Hún býr sögu hans til úr reynslu 300 þúsund flóttabarna sem eru ein á ferð í Evrópu um þessar mundir í leit að heimili og framtíð. Höfundur vinnur söguna upp úr heimildum og viðtölum við sýrlenskar fjölskyldur á Íslandi og sýnir ungum lesanda friðsælt og litríkt samfélagið og menningu sem stríðið leggur í rúst en flóttafólkið saknar alla tíð.

Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels er hræðileg í einfaldleika sínum, laus við tilfinningasemi en full af tilfinningu, fræðandi án þess að upplýsingarnar íþyngi henni. Efni hennar er nánast daglegt fréttaefni sem auðvelt er að verða ónæmur fyrir og því tvöfalt mikilvægara að sýna það út frá sjónarhorni sem erfitt er að víkja sér undan.

Kristín Helga Gunnarsdóttir er fjölmiðlafræðingur og starfaði um árabil við blaðamennsku og þáttagerð fyrir sjónvarp en hefur einbeitt sér að skrifum fyrir börn í tvo áratugi. Hún gaf út sína fyrstu barnabók árið 1997. Kristín Helga hefur fengið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir bækur sínar meðal annars fékk hún Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2008 og Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna fyrir sömu bók, sama ár fyrir Draugaslóð. Fyrir bókina Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels fékk Kristín Helga Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka árið 2018. Kristín Helga er formaður Rithöfundasambands Íslands.