Line-Maria Lång, Karen Vad Bruun og Cato Thau-Jensen

Line-Maria Lång & Karen Vad Bruun
Photographer
Lizette Krabré & Line-Maria Lång
Line-Maria Lång, Karen Vad Bruun og Cato Thau-Jensen(myndskr.): Frank mig her. Myndabók, Forlaget Vild Maskine, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Hvað gerist þegar pabbi er allt í einu kominn í ástarsamband? Það að hann skuli vera í sambandi með öðrum manni hefur enga sérstaka þýðingu í myndabókinni Frank mig her („Frank hér“, ekki gefin út á íslensku). Boðskapur bókarinnar gengur frekar út á það að fagna nýjum fjölskyldumeðlimum þegar þeir leggja sig alla fram – þó að það geti líka verið erfitt.

„Pabbi segist vera algjör frankófíll. Það þýðir að hann kann að meta allt með Frank í.“Til dæmis franskar vöfflur, frímerki og skrímsli Frankensteins. En eins og sögumaðurinn, drengur á leikskólaaldri, kemst að getur „frankófíll“ líka þýtt að mann langi skyndilega að fara að búa með manni að nafni Frank. Titillinn vísar til þess þegar sögumaður verður þreyttur á hvað Frank tekur mikið pláss – gerir sig jafnvel strax heimakominn í hjónarúminu: „Það er bara Frank hér og Frank þar.“ Orðatiltækið „hér, þar og alls staðar“ liggur ósagt að baki þessum orðum, enda er leikur að tungumálinu gegnumgangandi í frásögninni. Seinna verður sögumaður að grípa til hundakúnsta til að takast á við ókostina og síðar kostina sem fylgja því að náungi að nafni Frank búi skyndilega heima hjá manni.

 

Sögumannsrödd drengsins er trúverðug í lýsingum á sjónarhorni og rökfærslum barns sem sjaldan eru í takt við hugarheim hinna fullorðnu. Drengurinn skilur ekki þarfir föður síns, þar sem pabbi „býr nú þegar með mér“. Sjálfsmeðvituð rödd barnsins ber vott um það hve erfitt honum finnst að vera ekki lengur eina viðfangið fyrir ást föðurins.

 

Myndskreytingarnar eru auðugar af litríkum andstæðum – hver einasti reitur og rými á síðunni virðist hafa fengið eigin lit og mynstraðar skyggingar. Útkoman er myndflötur sem iðar af lífi. Naífar línur og örlítil skekkja undirstrika sjónarhorn barnsins. Í myndunum leynast ýmsar vísanir sem höfða einkum til fullorðinna lesenda. Til dæmis Marimekko-sængurver og málverk eftir David Hockney. Ástarsambandið er einnig tjáð í myndum. Á bókarkápunni eru faðirinn og Frank í faðmlögum og horfast djúpt í augu, og inni í bókinni eru margar myndir sem sýna líkamlega nánd þeirra á milli. En svo kemur að því að nýtt jafnvægi myndast á milli þeirra þriggja, án þess að neinn þeirra hafi einkaleyfi á öðrum. Þetta birtist skýrt í kápumyndinni þar sem Frank heldur í höndina á drengnum, og einnig í því að sögunni skuli ljúka á sama stað og hún hefst – með feðgunum að leik en nú með Frank til stuðnings í bakgrunninum.

 

Hin hvíta miðstéttarfjölskylda með mömmu, pabba og tveimur börnum hefur löngum verið fyrirferðarmikil í dönskum barnabókmenntum. Og þó svo að þeim bókum fari fjölgandi sem fjalla um fjölskyldur eftir skilnað og samsettar fjölskyldur, þá eru regnbogafjölskyldur enn sjaldséðar. Í þessu tilfelli er fjölbreytileikinn ekki aðalboðskapurinn heldur aðeins atriði sem ljær sögunni aukinn trúverðugleika. Þetta er saga um það að sættast við breytt fjölskyldumynstur, láta undan og meðtaka eitthvað sem er í raun býsna sniðugt – til dæmis að það kemst mjög mikið af legói (og vatni) í löngu skóna hans Franks.