Linn Ullmann: De urolige

Linn Ullmann
Photographer
Agnete Brun
Roman, oktober 2015

De urolige eftir Linn Ullmann er skáldsaga um móður, föður og barn. „Að sjá, að muna, að skilja. Það veltur allt á sjónarhorninu,“ segir í textanum. Sögumaður bókarinnar er barnið á fullorðinsárum og sjónarhornið er greinilega staðsett í Ullmann sjálfri, sem gerir henni kleift að segja frá foreldrunum með óvenju góðu jafnvægi milli innlifunar og vökullar, athugandi fjarlægðar.

De urolige er í grunninn hefðbundin endurminningaskáldsaga með mörgum lögum. Umgjörð sögunnar er skýr: Þegar faðirinn átti skammt eftir ólifað gerði dóttirin nokkrar hljóðupptökur með frásögnum hans, með það í hyggju að gefa endurminningar hans út á bók. Tregða hennar til að sinna þessu verkefni – ótti hennar við að taka á efninu – verður eitt af grunnstefjum bókarinnar, þar sem upptökurnar verða kveikjan að íhugulli og formdjarfri frásögn af sameiginlegri fortíð feðginanna. Hliðstæða þessarar óvissu sögumanns um hvað eigi að gera við upptökurnar liggur í því að hún getur ekki hætt að velta fyrir sér andliti sínu, og þeirri tilfinningu að það sé ekki eins og það eigi að vera: „Hún lítur ekki út eins og nein af ljósmyndunum sem til eru af henni, og hún er ekki eins á neinum tveimur myndum.“ Í báðum tilfellum er um að ræða grundvallarverkefni mannsins; að reyna að átta sig í eigin tilvist. Hver get ég sagt mér að ég sé?

Ullmann dregur ekki dul á að bókin fjallar um foreldra hennar sjálfrar. Það er ennfremur ljóst frá fyrstu síðu að hér fer höfundur með óvenjulega hæfileika til að sviðsetja minningar og láta efni þeirra ná út fyrir mörk hinnar persónulegu sögu.

Foreldrunum í skáldsögunni er lýst af greinilegri væntumþykju, en einnig meðvitund um það hvernig ýmsir eiginleikar þeirra og lífsbreytni hafa áhrif á aðra, til góðs eða ills: „Það skipti móðurina miklu hvernig hlutirnir komu fyrir. Hvernig hún kom fyrir. Hvernig allt í kringum hana kom fyrir. Tilvist hennar grundvallaðist á því að koma fyrir.“

Sagan gerist á mörgum mismunandi tímaskeiðum og ber þess merki að höfundurinn hefur hæfileika til að flytja sjálfa sig og lesendur áreynslulaust um tíma og rúm, frá einu sjónarhorni til annars. Hik sögumanns gagnvart því að skrásetja endurminningar föður síns speglast á djarfan og þroskaðan hátt í sjálfri uppbyggingu sögunnar, þar sem lesandinn fær á tilfinninguna að hann sé viðstaddur tilurð bókarinnar. Framsetningin einkennist af hæfileika til innlifunar, sem er bæði fínstillt og skýr þegar sögumaður veltir því fyrir sér hvað maður geti eiginlega vitað um aðra: „Sannleikurinn er sá að það er ekki hægt að vita sérlega mikið um líf annars fólks, sérstaklega ekki foreldra sinna, hvað þá ef foreldrarnir hafa lagt sig fram um að gera líf sitt að sögum sem þau síðan segja af einstökum hæfileika til þess að kæra sig kollótt um hvað er satt og hvað ekki.“ Innsýnin í mögulegan umbreytingarmátt æviminninga, svo og takmarkanir þeirra, hefur skapað skáldsögu sem fjallar allt eins um það hvernig á að skilja ævi og segja frá henni almennt, eins og um þau lífshlaup sem rýnt er í í bókinni.

Að sögn sögumanns fjallar bókin um þrenns konar ást: ástina milli móður og föður, ástina milli foreldra og barns og ástina til þess staðar þar sem sagan gerist. Lesandinn kann að velta því fyrir sér hvort hún fjalli ekki í raun um ferns konar ást, þar sem hliðarsagan af hjónabandi sögumanns verður mikilvæg viðbót við sögurnar af hinum samböndunum og lætur þær koma skýrar fram. De urolige er skáldsaga þar sem spennan veltur ekki á endalokunum, heldur á getu sögumannsins til að skilja eigin sögu, sín eigin tengsl við aðra og það hvernig enn er verið að segja sögu þessara tengsla, aftur og aftur.