Matias Faldbakken

Matias Faldbakken
Photographer
Ivar Kvaal
Matias Faldbakken: Vi er fem. Skáldsaga, Oktober forlag, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Þegar Matias Faldbakken hóf rithöfundarferil sinn árið 2000 undir dulnefninu Abu Rasul var hann þegar þekktur myndlistarmaður. Frá og með síðustu bók hans, The Hills, og jafnvel enn frekar í nýju skáldsögunni, Vi er fem („Við erum fimm“, ekki þýdd á íslensku), er engu líkara en þar sé á ferð alveg nýr höfundur og listamaður. Stíll, tónn og andrúmsloft greinist með skýrum hætti frá fyrri verkum Faldbakkens og raunar er Vi er fem frábrugðin megninu af norskum samtímabókmenntum.

Skáldsagan er óvænt blanda af raunsærri fjölskyldusögu, byggðasögu, ævintýralegum vísindaskáldskap og hryllingssögu. Það segir sitt um hæfileika Faldbakkens í skáldsagnagerð að þessar að því er virðist mótsagnakenndu forsendur láta frásögnina ekki falla flata heldur mynda þvert á móti sérstæða heildarmynd sem hefði ekki getað orðið til nokkurs staðar annars staðar en einmitt í þessari skáldsögu.

Í Råset, í þriggja klukkustunda fjarlægð frá höfuðborginni, búa Tormod og Siv sem eiga tvö börn, hús og hund. Við fyrstu sýn eru þetta venjuleg hjón og venjuleg fjölskylda; það eina sem ekki virðist venjulegt er hin þokukennda fortíð Tormods í greipum vímuefna sem Siv bjargaði honum frá. Nú lifa þau hefðbundnu fjölskyldulífi þar sem pabbinn vinnur á verkstæðinu meðan mamman „fær sér“ einn Netflix-þátt í viðbót með snakk og sykurlaust kók eða „eitthvað hvítt í glasi“ fyrir framan sjónvarpið. Og þannig líða dagarnir, það er að segja þangað til hundurinn deyr og annað fyrirbæri kemur inn í líf þeirra í hans stað: aurklumpur sem Tormod fær að gjöf frá gömlum vini og drykkjufélaga. Stöðug tilfærsla efniviðar á verkstæðinu verður til þess að aurklumpurinn stækkar, líkt og einhvers konar karlmannlegt súrdeigsbrauð sem verður sífellt stærra og sterkara uns það tekur smám saman á sig mynd lifandi og virkrar veru. Og þá eru fjölskyldumeðlimirnir aftur orðnir fimm.

Vi er fem er skáldsaga sem einkennist af óvanalegum og áhrifamiklum taktsveiflum og hrárri en jafnframt hlýrri kímni. Holdlegur, efnislegur veruleiki er dreginn skýrt fram bæði í innileika hversdagsathafna („Siv lá yst á rúminu og sneri í hann baki. Bakið á henni leit út eins og stórt óbakað brauð í tunglskininu“), í lýsingum á líkamlegri vinnu og í óvenju sterkum og trúverðugum lýsingum á vímuástandi. Prósinn vekur aðdáun í hverri setningu, jafnframt því sem lesandinn finnur möguleikann á annars konar túlkunum á norskum veruleika samtímans brjótast gegnum gamansamt yfirborðið.

„Í Råset bjuggu fæstir yfir hinu svokallaða metnaðarskrímsli, það er eiginlega ekki þema hjá okkur,“ segir hinn alvitri sögumaður Faldbakkens og ýjar þar að því að líta megi á fjölskylduna sem eins konar mótvægi við millistéttina í borginni, hverrar tilvera speglast oftar en ekki í listinni og hinni opinberu umræðu. Það að minnst sé á „þema“ er jafnframt einkennandi fyrir skáldsögu sem lítur gáskafullt á eigin nálgun á samfélagslega greiningu, sem dregur þó ekki úr gildi samfélagsrýninnar.

„Sköpunargleði“ er orð sem kemur oft upp í hugann við lestur skáldsögunnar. Hið sæluríka aurklumpsævintýri Tormods speglast í gleði skáldsögunnar sjálfrar yfir því að særa fram frumlegar mannlýsingar gegnum leik að ólíkum stílum og bókmenntagreinum, gjarnan með notkun á klisjum og vel þekktum formúlum sem öðlast eigið líf og merkingu í heimi skáldsögunnar. Um leið fylgir sköpunargleðinni visst aukabragð, því hin myrka og hömlulausa fortíð Tormods endurtekur sig í sambandi skaparans við sinn aurkennda skapnað sem minnir helst á Frankenstein. Með því að stimpla Vi er fem sem ádeilu á tækniframfarir eða samfélagsgerð væri þó gert óþarflega lítið úr skáldsögu sem er fyrst og fremst áhrifamikil í lífskrafti sínum; jafn mögnuð hvað varðar svipmyndir af börnum, raunsæjar byggðalýsingar, úrvinnslu á sköpunarþemanu og næmt auga fyrir félagslegum formgerðum.