Matkovin – Færeyjar

Matkovin
Photographer
norden.org
Stafrænn vettvangur sem styður staðbundna matvælaframleiðslu í Færeyjum.

Matkovin er tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Meðal stórra áskorana færeyska matvælakerfisins er tiltölulega mikill innflutningur á matvælum til Færeyja frá löndum sem oft á tíðum eru svo langt í burtu að fjarlægðin gæti varla verið meiri. Þrátt fyrir þetta eru Færeyjar mikil matarkista og hafa meginhluta tekna sinna af því að flytja út matvæli til annarra landa.

Sunniva Gudmundsdóttir Mortensen kom á fót vefsíðunni Matkovin sem tilraun til þess að vekja athygli á matvælaframleiðslu í heimabyggð og stytta leiðina milli færeyskra neytenda og færeyskra framleiðenda. Vefsíðan er sýningargluggi fyrir nýjar og hefðbundnar færeyskar gæðavörur. Hér hittir færeyskur neytandi færeyskan bónda, sjómann og veiðimann. Uppskriftum er miðlað, samband og traust skapað milli framleiðanda og neytanda og hægt er að panta matvörur gegnum síðuna. Hér eru færeyskum neytendum kynntar og rifjaðar upp fyrir þeim gamlar dyggðir um að nýta allt sem hægt er að leggja sér til munns til þess að koma í veg fyrir matarsóun, allt frá vindþurrkaðri gæs til hrútspunga með aioli.

Verkefnið Matkovin er tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 vegna þess að gegnum það styttist leiðin milli matvörunnar og þeirra sem neyta matarins.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.