Mattas Gårdsmejeri – Álandseyjar

Mattas gårdsmejeri
Photographer
norden.org
Mjólkurbú með lífrænni framleiðslu á osti, jógúrt og fleiri mjólkurvörum.

Mattas Gårdsmejeri er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Auk matargerðar og matvælaframleiðslu eru dýr á beit og varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni mikilvægur liður í starfsemi Mattas Gårdsmejeri í Finby í Sund á Álandseyjum. Sjálfbærni, umhverfi og velferð dýra er rauður þráður í starfseminni og vinnan að sjálfbærri framleiðslu vekur athygli. Húsdýraáburður er notaður á eigin ökrum og mysan sem fellur til í mjólkurbúinu er notuð í svínafóður á nærliggjandi býli þar sem ræktaðir eru skógargrísir. Jennifer Sundman og Lars-Johan Mattsson eru annars vegar menntuð í búfræði og hins vegar hagfræði og bæði hafa menntað sig á sviði matargerðar. Þau eru virkir þátttakendur í viðburðum í heimabyggð sem stuðla að jákvæðu viðhorfi til matvælaframleiðslu í heimabyggð og sjálfbærs landbúnaðar. Á slíkum viðburðum ná þau til stórs markhóps, bæði heimafólks og ferðafólks. Í endurbótum sínum á býlinu hafa þau sýnt framsýni og áræðni gagnvart hefðbundinni framleiðslu þar sem arðsemi er oft ekki mikil.

Mattas Gårdsmejeri er gott dæmi um lítið sjálfbært fyrirtæki þar sem unnið er eftir vinnuaðferðum og hugmyndafræði sem nýta má í starfsemi á sama sviði en einnig í fyrirtækjum í annars konar starfsemi. Þess vegna er Mattas Gårdsmejeri tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.