Moa Backe Åstot

Moa Backe Åstot
Photographer
Carl-Johan Utsi
Moa Backe Åstot: Himlabrand. Unglingaskáldsaga, Rabén & Sjögren, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Eru til samkynhneigðir hreindýrahirðar?

 

Með þessari spurningu er tónninn sleginn strax á fyrstu blaðsíðu í Himlabrand („Eldur himinsins“, hefur ekki komið út á íslensku). Í bókinni er nýkviknaðri ást lýst af mikilli innlifun, með tilheyrandi sálarangist, hiki og óvissu sem við ættum öll að kannast við.Áhrifin verða enn meiri þar sem aðalpersónan Ánte er hrifinn af besta vini sínum, Erik. Báðir eru þeir Samar og hreindýrahirðar. Ánte nýtur lífsins sem hreindýrahirðir og vill halda því áfram, rætur hans liggja djúpt niður í jörðina og hann vill ekki stýfa þær, en staðalímyndir um karlmennskuna eru lífseigar. Afstaða sumra af eldri kynslóðinni til samkynhneigðar, sem enn er töluvert tabú í samfélaginu, einkennist af fjarlægð og fyrirlitningu. Ánte berst við eigin tilfinningar í ringulreið sem veldur því að hann særir aðra.

 

Lýsingarnar í bókinni eru sprottnar úr samískri menningu og sýna margar hliðar á henni, þar með talin áföllin sem erfast kynslóð fram af kynslóð eftir langvarandi undirokun. Ánte kemst yfir bók með ljósmyndum af nöktum Sömum, sem teknar voru af kynþáttalíffræðingi. Það kemur á daginn að sumar þessara mynda eru af ættingjum hans. Kúgararnir vildu ákveða hvernig Samarnir ættu að vera – og nú vilja sumir af eldri kynslóðinni ekki leyfa Ánte að vera sá sem hann er.

 

Moa Backe Åstot víkkar frásögnina út og gæðir hana aukinni breidd til viðbótar við það að vera brennandi ástarsaga. Sjálf er hún Sami og á hreindýr. Með öðrum orðum er það engin tilviljun að lýsingarnar í bókinni koma lesandanum fyrir sjónir sem trúverðugar og ekta.

 

Með frásögnum sínum vill hún gefa nýtt sjónarhorn á bæði menningu Sama og þjóðarsjálfsmynd þeirra. Í þessari fyrstu bók sinni gerir hún það með glæsilegum hætti.