Naja Rosing-Asvid

Naja Rosing-Asvid
Photographer
Helle Nørregaard
Naja Rosing-Asvid: Pipa Sulullu qaangiipput. Myndabók, Milik Publishing, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Hvernig skal hvetja börn til vináttu þvert á tungumálahindranir og fordóma hinna fullorðnu, sem skipta fólki upp í „þau“ og „okkur“? Naja-Rosing Asvid gerir hina inngrónu fordóma fullorðins fólks að viðfangsefni sínu í bókinni Pipa Sulullu qaangiipput („Pipa og Suluk fara yfir línuna“, ekki gefin út á íslensku). Í bókinni sjáum við þau vandamál sem komið geta upp þegar tvær spörfuglafjölskyldur, snjóspörvar og runnaspörvar, búa hlið við hlið. Þrátt fyrir að spörfuglarnir séu afar áþekkir, borði sömu skordýrin og syngi og kvaki á næstum sama hátt er engu líkara en að ósýnileg lína hafi verið dregin á milli fjölskyldnanna tveggja þar sem einkum hinir fullorðnu eru haldnir örgustu fordómum um hina spörvafjölskylduna. Svo gerist það að aðalpersónurnar tvær, Pipa og Suluk, yfirgefa hvort sína fjölskyldu og fara yfir línuna. Þá fer þeim að skiljast að þau eiga margt sameiginlegt og geta alveg verið vinir. Þetta er hinn mikilvægi boðskapur bókarinnar. Við könnumst vel við tungumálaörðugleika, bæði á Grænlandi og í hinum norrænu löndunum – og þekkjum mikilvægi þess að fólk reyni að skilja hvert annað – en við vitum líka að vel er hægt að vingast við fólk þrátt fyrir mismun.

 

Samtöl fuglanna eru sýnd með talblöðrum líkt og í teiknimyndasögu, sem gerir síðurnar lifandi og aðlaðandi. Þetta er einföld og aðgengileg leið til að útskýra erfitt viðfangsefni fyrir ungum börnum, og um leið uppgjör við fordóma hinna fullorðnu. Naja Rosing-Asvid miðlar þessu flókna efni til yngstu barnanna af mikilli hlýju og leikni.

 

Það er greinilegt strax á fyrstu opnu bókarinnar hvernig fuglsungarnir læra að líta „hina“ hornauga, en þar eru foreldrar, ömmur og afar upptekin við að slúðra og viðra óhrekjanlega vitneskju sína um grannfuglana. En dag nokkurn eru litli runnaspörfuglsunginn Pipa og litli snjóspörfuglsunginn Suluk bæði elt af stórum hrafni og lokast saman inni í klettasprungu, þvert gegn vilja sínum. Hin sameiginlega ógn þvingar þau til að tala saman og þau komast að því að það kostar þau ekki mikla fyrirhöfn að skilja hvort annað.

 

Pipa Sulullu qaangiipput eftir Naju Rosing-Asvid er gamansöm saga um algild þemu á borð við fordóma, hugmyndina um „þau gegn okkur“ og vináttu sem sigrast á tungumálaörðugleikum.

 

Bókina prýða hlýjar og litríkar heilsíðumyndir, krökkar af sniðugum smáatriðum sem má skemmta sér við að uppgötva. Samtöl fuglanna eru sýnd með talblöðrum líkt og í teiknimyndasögu, sem gerir síðurnar lifandi og aðlaðandi. Meginmál textans ber einnig einkenni talmáls, svo sem fjölda upphrópana og spurninga. Formið býður lesandanum að staldra við, feta krókaleiðir og spjalla meðan á lestrinum stendur.

 

Húmor er árangursrík aðferð til að breiða út boðskap. Naja Rosing-Asvid tekst hér á við vandkvæði tengd menningu og tungumálum, sem hún þekkir sjálf af eigin raun, og nær að hrífa lesendur með sér og hvetja til hugleiðinga og samtala á milli barna og fullorðinna.

 

Eins og gagnrýnandi í danska tímaritinu Børn og Bøger skrifar: „…falleg myndabók þar sem skynsemin sigrar og fordómarnir og fylgifiskar þeirra hverfa á braut.“

 

Naja Rosing-Asvid er arkitekt og myndlistarkona og hefur gefið út fjölda barnabóka frá árinu 2012, meðal annars bókaflokk um litla hjálparandann Aqipi. Hún var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015 fyrir Aqipi – til sommerfest („Aqipi – í sumarveislu“, ekki gefin út á íslensku).