Niels Frank

Niels Frank

Niels Frank

Photographer
Sara Galbiati
Niels Frank: Fanden tage dig. Beretning om et kvindedrab, frásögn, Gyldendal, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Árið 2021 gengur danski rithöfundurinn Niels Frank í gegnum mestu martröð ævi sinnar. Eldri systir hans, Elin, er skotin með afsagaðri veiðibyssu af fyrrverandi eiginmanni sínum. Morðið er framið daginn sem búskiptin eiga að fara fram, þegar Elin hefur ráðgert að sækja eigur sínar ásamt sonum sínum og mannsins fyrrverandi.

 

Þessi skelfilegi atburður breytir Niels Frank, ekki aðeins sem manneskju heldur líka sem rithöfundi. Frank segir sjálfur að Fanden tage dig. Frásögn af konumorði“, ekki gefin út á íslensku) sé „skrifuð á staðnum“, og lýsir textanum sem „helvítisrými“. En hann segir líka að samfara því að athugasemdir hans byrji að taka á sig bókarform verði textinn að „verndarrými“. Með skrifunum er Frank einfaldlega að verjast hinum grimmilega atburði og ákveður um leið að ekki megi skapa list úr dauða Elinar. Endurtekningasamur stíllinn ber merki hins mikla áfalls, en endurtekningunni beitir Frank til að reyna að endurheimta stjórn á lífi sínu.

 

Kaflarnir eru stuttir og bera allir ófegruð, næstum fálát heiti: „Fleiri kubbar“, „Yfirmaður rannsóknarinnar“, „Ógleði“. Sem lesandi sogast maður inn í helvítisrýmið. Tungumálið verður að þrýstiklefa. Það reynir að halda veruleikanum í skefjum. En það kemur á daginn að veruleikinn er grimmúðlegri en tungumálið, og svo virðist sem orðin geti lítið annað gert en að fylgja veruleikanum í uppgjöf.

Ég skrifa og skrifa og skrifa til að koma sannleikanum niður á blað. Sannleikurinn má ekki verða fyrir áhrifum frá mér, flöktandi taugum mínum, hefndarþorsta mínum. Ef ég skrifa þetta allt niður, á eins allsgáðan hátt og mér er unnt, þá munu þau öll skilja það. Þess vegna skrifa ég. Ég skrifa til að koma sannleikanum frá mér. Til að láta sannleikann tala eigin máli.

Þegar rithöfundur er í jafnóhugsandi stöðu sem þessari getur sannleikurinnn aðeins talað eigin máli ef höfundurinn nær að breyta sér í skrásetjara, sem sagt, útrýma eigin sjálfi að nógu miklu leyti til að sannleikurinn stígi á endanum fram milliliðalaust.

 

Það að vera hluti af þessari greinargerð Franks veldur innilokunarkennd, en snertir lesendur einnig djúpt. Ekki síst þá sem þekkja þegar höfundarverk hans. Frank er ljóðskáld, esseyjuhöfundur og erkimódernisti – hefur meðal annars tekið undir með franska ljóðskáldinu Stéphane Mallarmé um það að bókmenntirnar þurfi að hafna hinu venjulega, spillta tungumáli sem lygum og latínu – og því er athyglisvert hvernig hann virðist hér vera nauðbeygður til að viðurkenna gildi þess. En ekki er allt sem sýnist. Afstaða Franks sem módernista skín nefnilega þrátt fyrir allt í gegn með einum eða öðrum hætti. Í þetta sinn varðar það ekki neinn tiltekinn ritstíl, heldur frekar það hvernig hvílt er í tungumálinu. Eða kannski réttara sagt hvernig EKKI er hvílt í tungumálinu.

 

Bókin er hamslaust innlegg frá einum málsaðila. Hún leitast ekki við að lýsa atburðunum frá mörgum hliðum. Í gegnum alla bókina hefur lesandinn sjónarhorn Franks og fjölskyldunnar sem systir hans lætur eftir sig. Þetta hefur sterk áhrif á lesandann, og með sínum föstu tökum á forminu mætti óneitanlega segja að bókin sé listaverk um dauða Elinar. Sé þetta list, þá miðar hún þó að stærra markmiði. Bókin er einlægt innlegg af hálfu Franks í umræðuna um makamorð. Einnig hér verður tungumálið nefnilega oft til þess að afbaka veruleikann. Það sem kallað er makamorð er nærri alltaf konumorð. Með bók sinni bölsótast Frank út í réttarkerfi sem stundar kerfisbundna afbökun með orðalagi sem mildar veruleikann, og út í verklag lögreglunnar sem ekki er fær um að taka alvarlega það mynstur sem þeir karlmenn, sem enda á að myrða konur sínar, fylgja gjarnan. Við skulum vona að bókin hafi tilætluð áhrif. Ekki listarinnar vegna, heldur vegna allra þeirra aðstandenda sem, eins og Frank, þurfa að halda lífinu áfram eftir enn eitt óskiljanlegt makamorðið.