Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Koparborgin
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Koparborgin. Skáldsaga, Björt, 2015

Koparborgin er ungmennabók (YA-bók) sem gerist á óræðum tíma í óvissri borg í Evrópu, sem er ógnað af drepsótt. Borgarbúar brenna sýkta fátækrahverfið í útjaðri borgarinnar en einn drengur, Pietro, kemst af. Hann snýr aftur til borgarinnar af því að hann á ekki annarra kosta völ.

Borgin hafði verið fögur og rík og var eitt sinn stórveldi þar sem glæsileg farmskip komu og fóru og verslun og viðskipti stóðu í blóma. Nú er borgin orðin úrkynjuð og í vissum skilningi má segja að hún sé þegar sýkt. Munaðarlaus börn hafa lagt undir sig yfirgefna kauphöll, þar sem þau hafa haldið til í þrjár aldir. Þangað leitar söguhetjan Pietro þegar hann kemur til borgarinnar en þegir yfir fortíð sinni. Smám saman læðist furðan inn í söguna enda borgin gegnsýrð af göldrum, jafnt svörtum sem hvítum, og hið herta og um margt miskunnarlausa samfélag barnanna þarf að taka erfiðar ákvarðanir.

Koparborgin er ákaflega vel skrifuð bók, þétt og viðburðarík og mjög spennandi. Aðalpersónurnar eru dregnar skýrum dráttum. Börnin í sögunni hafa ótrúlega hæfileika til að lifa af en það hefur tekið sinn toll. Samt tengjast þau föstum böndum. Koparborgin er líka saga af græðgi og spillingu sem læsir sig um allt stjórnkerfið og snertir allar fjölskyldur svo að börnin sjá engan annan kost en að afskrifa borgina og byrja upp á nýtt á nýjum stað.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir (f. 1988) er nýútskrifaður miðaldafræðingur frá Háskóla Íslands, með sögu sem sérgrein.