Rebecca Bach-Lauritsen og Anna Margrethe Kjærgaard (myndskr.)

Rebecca Bach-Lauritsen & Anna Margrethe Kjærgaard
Photographer
Kim Vadskær & Anna Margrethe Kjærgaard
Rebecca Bach-Lauritsen og Anna Margrethe Kjærgaard (myndskr.): Ud af det blå. Myndabók, Jensen & Dalgaard, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

„Allt í einu er það þarna. / Bara sisvona. / Alveg óvænt. // En í fyrstu er það það ekki.“

Á þessum orðum hefst bókin; lesandanum verður komið á óvart, en ekki strax.

Og það kemur líka á daginn. Snyrtilega naíf-natúralískur stíll og dálítið af bláum og brúnum litatónum duga myndskreytinum til þéttrar frásagnar af dreng sem lifir leiðigjörnu, tilþrifalitlu og rútínubundnu lífi ásamt kaktusi. Hér er lifað eftir vinsælum kenningum fyrri tíma um ró, hreinleika og reglufestu.

Í fyrri hluta bókarinnar er frásögnin fyrst og fremst borin uppi af myndskreytingum á meðan tungumálið skapar nokkurs konar lýsandi hljóðrás með takti, orðarunum og setningabrotum. Stílinn mætti kalla næma eyðimerkurljóðrænu sem fellur vel að kaktusnum.

Höfundur og myndskreytir hljóta að hafa unnið afar náið saman að sköpun þessarar myndabókar, sem birtist allt í einu – líkt og heitið er í upphafi. Óreiðu fer að gæta í reglufestunni og drengurinn lifnar við, fær fjörlegan svip og sér að einhver hefur flutt inn til hans: björn.

Nokkuð sem eftirtektarsamir lesendur sáu kannski fyrir, því að við rúm drengsins hefur frá upphafi hangið mynd af birni sem færist lítillega til og frá og markar þannig spor sín í frásögnina. Myndin lætur þó lítið yfir sér.

Þegar björninn kemur inn í tilveru drengsins er ró, hreinleika og reglufestu rutt úr vegi og við tekur gleði, gróska og ímyndunarafl – þetta sést í myndskreytingunum, í því hvernig kinnar drengsins skipta litum úr köldum bláum tóni yfir í hlýjan rauðan, og í tungumálinu sem byrjar að spíra og verða að heilum setningum, útskýringum og tjáningu tilfinninga. Þessi þróun þýðir þó ekki að fortíðinni sé hafnað, öllu heldur merkir hún möguleika sem opnast skyndilega. Þetta er undirstrikað af því að hinir brúnu litatónar í myndskreytingunum halda sér, í fagurfræði sem minnir á stílabækur, og að hári drengsins er enn sem fyrr skipt snyrtilega til hliðar. Þannig heldur hinn bjartsýnislegi boðskapur bókarinnar sér. Allt í einu getur eitthvað birst. Bara sisvona. Ud af det blå.

Höfundinum Rebeccu Bach-Lauritsen og myndskreytinum Önnu Margrethe Kjærgaard hefur tekist að skapa skýlausan óð til lífsgleði sem lætur óvænt á sér kræla. Það gera þær með því að nýta á meðvitaðan hátt einföldustu en jafnframt þéttustu tjáningarmáta bæði myndlistarinnar og tungumálsins. Enda kunna þær sitt fag: Rebecca Bach-Lauritsen hefur hlotið Skriverprisen, bókmenntaverðlaun danska menntamálaráðuneytisins, fyrir verk sín og Anna Margrethe Kjærgaard hefur hlotið myndskreytiverðlaun danska menningarmálaráðuneytisins.

Verk þeirra eiga vel saman og auðga hvort annað í þessari myndabók sem sprengir hina hefðbundnu umgjörð formsins, bæði hvað varðar samspil orða og mynda í frásögninni og umfang bókarinnar, sem er 40 opnur.

Þetta er frásögn sem stendur við gefin fyrirheit og gefur það líka skýrt til kynna með lokaorðum sínum:

„Allt í einu var það þarna. / Bara sisvona. / Alveg óvænt. // En í fyrstu var það það ekki.“