Thor Ice Chilling Solutions – Ísland

Thor Ice Chilling Solutions
Photographer
norden.org
Tæknilausn sem hraðar kælingu matvæla og dregur þar með úr matarsóun og eykur geymsluþol.

Thor Ice Chilling Solutions er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Um 25% af gróðurhúsalofttegundum sem losaðar eru í heiminum verða til í matvælaframleiðslu og 70% vatnsnotkunar á heimsvísu en um 30% matvæla fara til spillis. Þess vegna er nýting þess matar sem þegar hefur verið framleiddur mikilvægur liður í vinnunni að því að gera matvælakerfið sjálfbærara.

Með Thor Ice Chilling Solutions er hægt að spara 20% orkunnar en kæla samt hraðar en gert er með algengum aðferðum. Ef matvæli eru ekki kæld nægilega hratt hækkar bakteríuinnihaldið til dæmis í kjöti mjög hratt. Áætlað er að 10-20% af öllu fuglakjöti spillist vegna of mikils bakteríuinnihalds. Thor Ice Chilling Solutions dregur úr bakteríuinnihaldinu um 97% og tryggir þar með að kjötframleiðslan standist Evrópureglugerðina um fæðuöryggi (EU 2017/1495) og lengir geymsluþol matvælanna. Thor Ice Chilling Solutions dregur einnig úr vatnsnotkun við kælingu, frá fjórum lítrum í fjóra desilítra á hvern framleiddan kjúkling til matar. Thor Ice Chilling Solutions býður upp á nýja lausn til þess að draga úr matarsóun og hægt er að laga hana að margs konar matvælum í öllum löndum heims. Aðferðin er hagkvæm og telst því góður kostur í matvælaiðnaði. Ferlið dregur einnig úr öðrum umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu, svo sem vatns- og rafmagnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er Thor Ice Chilling Solutions tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.