Tilnefningar 2013

Dómnefnd hefur valið 12 tónlistarmenn, söngvara og hljómsveitir og tilnefnt til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013.

DANMÖRK

Theatre of Voices, söngsveit

Grammy-verðlaunahafinn Theatre of Voices er meðal fremstu söngsveita Evrópu. TOV flytur áræðin og frumleg verk á mjög listrænan og tæknilegan hátt. Verkin sem um ræðir spanna allt frá pólýfónískri tónlist fyrri tíma til nútímatónlistar danskra og erlendra tónsmiða, s.s. Stockhausen, Berio, Pärt, Reich, Bent Sørensen og Gudmundsen-Holmgreen. Sveitin hlaut Grammy-verðlaunin árið 2010 fyrir flutning sinn á verki eftir David Lang, „The Little Match Girl Passion“, sem byggt var á sögu H.C. Andersen og samið sérstaklega fyrir TOV. Árið 2012 var uppselt á flutning sveitarinnar á verkinu í Carnegie Hall. Við opnun hátíðarinnar Berliner Festspiele árið 2008 söng TOV verkið Stimmung eftir Karlheinz Stockhausen, sem sjaldan er flutt opinberlega, að ósk tónskáldsins sjálfs. TOV hefur unnið með mörgum af bestu hljóðfæraleikurum heims, m.a. Kronos-kvartettinum og London Sinfonietta, nú síðast í tilefni af áttræðisafmæli Gudmundsen-Holmgreens. Paul Hillier, fyrrum listrænn stjórnandi TOV, stofnaði sveitina árið 1990 en hún hefur starfað í Danmörku frá árinu 2004.

Efterklang, hljómsveit

Þessi framsækna, metnaðarfulla og hugmyndaríka sveit – sem hin virta enska hljómplötuútgáfa 4AD hefur kallað „frumkvöðla tilraunakenndrar popptónlistar í Danmörku“, hefur hlotið lof jafnt danskra sem erlendra fjölmiðla. Í þau tólf ár sem sveitin hefur starfað hefur hún ítrekað tekist á við umfangsmikil verkefni, bæði hvað snertir upptökur og tónlistarflutning. Efterklang hefur ferðast um allan heim og er sérstaklega þekkt fyrir áhrifamikinn og samþættan flutning sinn á hljómsveitarverkum. Árið 2012 heimsfrumflutti Efterklang fjórðu plötu sína, „Piramida“, á eftirminnilegan hátt í Utzon-óperuhúsinu í Sydney ásamt Sinfóníuhljómsveit Sydneyjar og hlaut mikið lof gagnrýnenda fyrir. Þá hefur sveitin flutt verk sín, bæði á alþjóðavettvangi og í Danmörku, ásamt m.a. Kammersveit danska ríkisútvarpsins, Sinfónuhljómsveit Sjálands, Britten-sinfóníunni, Sinfóníuhljómsveit sænska útvarpsins og Wordless Music Orchestra í New York. Efterklang er hljómsveit sem hefur skapað eigin hljóm frá grunni, þorað að hugsa stórt og haft listræn heilindi í fyrirrúmi á leið sinni til metorða.

FINNLAND

Pekka Kuusisto, fiðluleikari

Finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem einleikari og hljómsveitarstjóri. Hann er þekktur fyrir nýstárlega túlkun sína á tónverkum. Pekka er einnig mikill aðdáandi nýrrar tónlistar. Hann á reglulega í samstarfi við ýmis nútímatónskáld og veturinn 2012–13 heimsfrumflytur Kuusisto fiðlukonsert sem Sebastian Fagerlund samdi sérstaklega fyrir hann, að ósk Fílharmóníusveitar Tampere-borgar í Finnlandi. Pekka leggur sig fram um að eiga samstarf við fólk úr alls kyns listgreinum, sem nýtir ný tjáningarform við flutning þekktra verka auk þess að flytja ný tónverk. Pekka hefur leikið á mörgum virtum tónlistarviðburðum, þar á meðal Aldeburgh-hátíðinni og á Robeco-sumartónleikunum í Concertgebouw-salnum í Amsterdam árið 2012. Nýjasti geisladiskur hans inniheldur öll verk finnska tónskáldsins Einojuhani Rautavaara fyrir fiðlu og píanó, en þar leikur hann með Paavali Jumppanen (Ondine gaf út). „Pekka Kuusisto er gæddur þeim fágæta eiginleika að tónlistin sem hann flytur persónugerist í honum.“ The Guardian

Kimmo Pohjonen, harmónikkuleikari

Kimmo Pohjonen er talinn meðal hæfustu harmónikkuleikara heims. Kimmo er einstaklega hæfileikamikill og hugmyndaríkur harmónikkuleikari og tónsmiður sem hefur starfað í ríflega tuttugu ár á sviði margvíslegra tónlistargreina; rokk-, þjóðlaga-, framúrstefnu-, spuna-, dans-, leikhús- og klassískrar tónlistar. Hann hóf einleiksferil sinn árið 1996 með einleiksverki fyrir fimm raða harmónikku, sem innihélt sérstæð og frumleg stef og líflegar tónlúppur með kraftmikilli og lifandi sviðsframkomu og ljósa- og hljóðstjórnun. Flutningurinn var lofaður af gagnrýnendum um allan heim á WOMEX-sýningunni í Berlin árið 1999. Síðan hefur Kimmo flutt verkið um alla Evrópu, í Norður- og Suður-Ameríku, Ísrael og Rússlandi og hlotið einróma lof fyrir. Pohjonen tekur þátt í margvíslegum verkefnum, meðal annars Kimmo Pohjonen Kluster ásamt harmónikkuleikaranum Samuli Kosminen. Einnig hefur hann leikið með Kronos-kvartettinum, dansaranum Minna Tervamäki og verið í spunatvíeyki ásamt franska trommuleikaranum Eric Echampard, svo einhver séu nefnd.

FÆREYJAR

Eivør Pálsdóttir, söngkona

Eivør er söngkona og söngvaskáld frá Götu, litlu þorpi í Færeyjum. Eivør hefur mjög sérstaka rödd og þótt rætur hennar liggi í hefðbundnum færeyskum söngvum, spannar áhugasvið hennar margar gerðir tónlistar allt frá rokki, djassi, þjóðlaga- og popptónlist til klassískra verka evrópskra tónskálda. Hún hætti í skóla 16 ára til að helga sig því sem henni fannst skemmtilegast: að syngja og semja tónlist. Ellefu árum, átta plötum og fjölda verðlauna síðar er hún orðin ein af skærustu stjörnum Norður-Atlantshafssvæðisins. Sérstaða Eivarar liggur ekki einvörðungu í einstakri rödd, heldur einnig listrænni tjáningu hennar sem listmálari, sagnakona, ljóðskáld og tónskáld. Þessi skapandi orka birtist áheyrendum í heillandi sviðsframkomu og -flutningi sem snertir þá inn að hjartarótum. Eftirfarandi umsagnir segja allt sem segja þarf um margslungna og fjölbreytta hæfileika hennar: „Pure Viking goddess, deserves her own festival“ (Charlie Ivens á Playlouder.com) og „Like she was pulled straight from a fairy tale“ (The Reykjavík Grapevine).

ÍSLAND

Nordic Affect, kammersveit

Kammersveitin Nordic Affect var stofnuð árið 2005 með því markmiði að vekja athygli á tónlist frá 18. og 19. öldinni, auk þess að flytja nútímatónlist Meðlimir hennar eiga sameiginlega þá ástríðu að nálgast þekkt tónlistarform frá ólíkum sjónarhornum og fara ótroðnar slóðir. Á tónleikum sveitarinnar á Íslandi og í Evrópu hefur mátt hlýða á allt frá danstónlist 18. aldar til spennandi nútímaraftónlistar, og hefur flutningurinn hlotið mikið lof gagnrýnenda. Nordic Affect hefur komið fram í íslenska ríkissjónvarpinu og á evrópsku stöðinni European Broadcasting Service. Fyrsti geisladiskur þeirra, sem inniheldur verkið Apocrypha eftir Huga Guðmundsson, var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs árið 2008. Sveitin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, einkum fyrir kraftmikinn og sérstakan stíl.

Mezzoforte, hljómsveit

Velgengni þeirra kom mikið á óvart á sínum tíma. Árið 1983, þegar lag þeirra Garden Party náði vinsældum um allan heim, voru strákarnir fjórir frá Íslandi rétt að ná fullorðinsaldri. Allar götur síðan hefur Mezzoforte verið talin ein mikilvægasta bræðingssveit Evrópu. Árið 2012 fagnaði sveitin 35 ára afmæli og er enn í fullu fjöri Nýjasti diskur Mezzoforte, „Islands“, sýnir hvernig sveitin hefur þroskast og þróast með árunum og er enn ein rósin í hnappagatið. 1996 kom saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson til liðs við þrjá stofnmeðlimi sveitarinnar, þá Eyþór Gunnarsson, Jóhann Ásmundsson og Gulla Briem. 2006 bættust gítarleikarinn Bruno Müller og trompetleikarinn Sebastian Studnitzky í hópinn. Sú orka sem samstarf upprunameðlima og nýrra liðsmanna getur af sér eykst stöðugt með þeim fjölda tónleika og tónlistarviðburða sem sveitin hefur komið fram á, allt frá Ósló og Tókýó til Höfðaborgar og Moskvu.

NOREGUR

Håkon Austbø, píanóleikari

Håkon Austbø hefur haft ómæld áhrif á samtímatúlkun píanótónlistar 20. aldarinnar. Í hartnær hálfa öld hefur Austbø verið meðal fremstu túlkenda í heiminum á tónlist eftir Skrjabín, Messiaen og Debussy. Hann hefur unnið með Messiaen, frumflutt verk fjölda núlifandi tónsmiða, leikið undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Haitink, Tabacknik, Eötvös og Jansons og með hljómsveitum eins og Nieuw Ensemble, Concertgebouworkest og Ensemble InterContemporain. Hann hefur tekið upp verk Messiaen fyrir Naxos-útgáfuna auk allrar píanótónlistar Debussys, Janáčeks og Griegs. Auk þessa hefur hann leiðbeint og kennt kynslóðum nemenda, meðal annars við tónlistarskólann í Amsterdam um 15 ára skeið. Austbø starfar enn sem konsertpíanisti og kennir í Stavanger og Ósló í Noregi.

Maja Ratkje, söngkona

Maja S.K. Ratkje hefur hlotið viðurkenningu þvert á hefðbundnar tónlistargreinar, frá öðrum listamönnum jafnt sem gagnrýnendum. Lifandi raddtúlkun er kjarninn í listflutningi Ratkje, hvort sem hún syngur einsöng með raftónlist eða tengir röddina inn í spunaverk. Ratkje varð snemma þekkt á alþjóðavettvangi sem söngkona og tónskáld. Hún hafði ekki lokið námi þegar hún var orðin þekkt fyrir að virða mörk milli tónlistargreina að vettugi og bjóða aðgreiningu flutnings og sköpunar birginn, sem þótti byltingarkennt meðal jafnaldra hennar. Hún hefur unnið með margvíslegu listafólki, allt frá þungarokksveitum og flytjendum nútímatónlistar og nútímadjass til rithöfunda á borð við Elfriede Jelinek. Ratkje hefur ætíð farið sínar eigin leiðir í tónlistarflutningi og hafnað allri flokkun.

SVÍÞJÓÐ

Trio ZPR, strengjatríó

Cecilia Zilliacus (fiðla), Johanna Persson (lágfiðla) og Kati Raitinen (selló) skipa strengjatríó sem telst til bestu og mest skapandi kammersveita Svíþjóðar. ZPR var stofnað 1999 og þykir hafa sýnt einstakt þolgæði og samstöðu af sveit í þessari tónlistargrein að vera. Auk hefðbundinna verka fyrir strengjatríó hefur sveitin sífellt verið að þróa efnisskrá sína og átt í samstarfi við ýmsa gestaflytjendur, sem oft koma á óvart. Eigin tónleikaröð sveitarinnar hefur átt vinsældum að fagna og fengið góða aðsókn. ZPR samanstendur af þremur listakonum, virtum einleikurum sem náð hafa einstökum samhljómi og eru auk þess þeir tónlistarmenn sem hafa hlotið flest Grammis-verðlaun (stærstu tónlistarverðlaun Svía).

The Knife, raftónlistartvíeyki

The Knife er listamannsnafn Dreijer-systkinanna, sem hafa starfað saman síðan 1999. Systkinin flytja raftónlist sem sækir í gamalt hljóðgervlapopp, framsækna raftónlist, listræna tónlist og myndbandalist í stríðnislegum grímuleik. Hér er á ferðinni áleitið listverkefni sem kom fyrst fyrir augu og eyru áheyrenda árið 2006, eftir að systkinin höfðu slegið í gegn með plötu sinni „Silent Shout“, en platan hlaut sex Grammis-verðlaun. Í samstarfi við danska gjörningahópinn Hotel Pro Forma og íslenska hljóðupptökuverið Sounds Studio samdi The Knife hið umtalaða óperuverk „Tomorrow, In A Year“, sem byggir á þróunarkenningu Darwins. Platan var unnin í samstarfi The Knife, Mt. Sims og Planningtorock. (Óperan var þó flutt af danska gjörningahópnum Hotel Pro Forma.) Árið 2013 kemur út nýtt verk, „Shaking The Habitual“,auk þess sem tvíeykið mun fara í tónleikaferð um Evrópu.

ÁLANDSEYJAR

Vladimir Shafranov, píanó

Shavranov er fæddur í Pétursborg árið 1948. Hann byrjaði að spila á píanó 5 ára gamall og nam m.a. við Rimsky-Korsakov-tónlistarskólann. 1971 gaf hann út sína fyrstu plötu, sem seldist í yfir milljón eintökum. Shavranov starfaði í Finnlandi á árunum 1974–83 þar sem hann kenndi m.a. við Síbelíusarakademíuna. 1983 flutti hann til New York og starfaði sjálfstætt með fremstu djasstónlistarmönnum borgarinnar, þ.á.m. Dizzy Gillespie, Johnny Griffin og Benny Golson. Á 10. áratug síðustu aldar flutti hann til Álandseyja og starfar nú þar, í Svíþjóð og í Finnlandi, en fer árlega í tónleikaferðir til Japan og treður einnig upp í New York. Nýjasti geisladiskur hans var tekinn upp í New York 2012. Auk þess sem að hafa verið einn fremsti píanóleikari heims undanfarna áratugi hefur Vladimir haft gríðarmikil áhrif á álenskt tónlistarlíf. Árið 2010 hlaut hann styrk úr minningarsjóði Juliusar Sundblom fyrir: „… tónlistarflutning sem helstu tónlistargagnrýnendur kalla einstakan. Vova er heimsborgari og stórt nafn í Japan og New York. Í sjálfu sér er það lítið kraftaverk að hann skuli hafa valið að setjast að á Álandseyjum. Hann eykur bæði gæði og kraft í álensku tónlistarlífi …“