Vita Andersen

Vita Andersen
Photographer
Suste Bonnén
Vita Andersen: Indigo. Roman om en barndom. Skáldsaga, Rosinante, 2017

Vita Andersen markaði tímamót þegar fyrsta ljóðasafn hennar, Tryghedsnarkomaner (Í klóm öryggisins, Lystræninginn 1979, þýð. Nína Björk Árnadóttir) kom út árið 1977. Þar og í næstu bók, Hold kæft og vær smuk (1978) (Haltu kjafti og vertu sæt, Lystræninginn 1981, þýð. Kristján Jóh. Jónsson), tókst henni að finna algjörlega nýtt form til að skrifa á gagnrýninn, popplistarlegan og nákvæmlegan hátt um líf kvenna í neytendasamfélaginu. Í næstu stóru skáldsögum, til að mynda hinni frábæru Hva’for en hånd vil du ha (1987) (Hvora höndina viltu?, Tákn 1988, þýð. Inga Birna Jónsdóttir) er sjónarhorn barnsins iðulega í forgrunni, sjónarhorn sem Vita Andersen hefur einstakt lag á að tileinka sér. Og börnin í verkum hennar trúa okkur fyrir stöðugum og skelfilegum svikum þeirra sem ættu ekki að bregðast, fullorðna fólksins, foreldranna en einnig nágranna, kennara og annars starfsfólks hins opinbera.

Í hinni nýju sjálfsævisögulegu skáldsögu IndigoRoman om en barndom(á íslensku „Indígó. Skáldsaga um barnæsku“) virðast allir þræðir rata saman og mynda form sem hæfir efniviðnum jafn hnitmiðað og í Tryghedsnarkomaner á sínum tíma. Skáldsagan er uppgröftur minninganna. Hún hefst á því að fullorðinn höfundurinn biður um aðgang að „möppunni sinni“ í opinberu skjalasafni því hún vill vita hvað gerðist í raun og veru þegar henni var komið fyrir í bernsku ýmist á vistheimilum eða hjá vandalausum. Hún man ekki alla staðina sem hún dvaldi á eða atburðarásina í réttri röð en við lesturinn áttar hún sig á því að þar er margt sem hún kannast ekki við. Viðbrögðin verða að skáldsögu. Dýft er niður í þær skynjanir og minningar sem tekst að laða fram. Sagan snýst mikið um lyktir, hljóð, líkamlega tilfinningu, allt sem líkamanum hefur samt drukkið í sig. Í stað samhangandi ævisögu fáum við skynjaðar myndaraðir af ýmiss konar umhverfi og fólki sem litla stúlkan flækist á milli þegar hún er ekki heima hjá geðveikri móður sem er greinilega ekki fær um að sjá um sig sjálf eða börnin tvö. Þegar móðirin fyrirfer sér er aðalpersónan sett í varanlegt fóstur og hringnum virðist lokað fyrst um sinn.

Lesturinn er afar kaldranalegur. Vanrækslan er algjör. En þar sem minningarnar berast ekki gegnum skynsemi fullorðins höfundar og þörf hans fyrir röð og reglu, heldur gegnum leifturkennt en engu að síður óbrigðult minni líkamans, gefst lesandanum magnað tækifæri til að sjá heiminn með augum hins einmana og örvæntingarfulla barns. Lesandinn áttar sig á því hvers vegna telpan þarf sífellt að breyta um lit eftir umhverfinu til þess að skera sig ekki úr og liggja vel við höggi á alls konar „heimilum“ þar sem henni er komið fyrir. Lesandinn skilur sjálfsbjargarhvöt barnsins sem birtist í töfrahugsun, eyðileggingarþörf og öðrum tilfinningum sem hafa ekkert breyst frá því á sjötta áratug síðusta aldar sem er sögutími skáldsögunnar. Svo vitnað sé í Proust, annan stóran könnuð líkamlegra æskuminninga, þá veitir skáldskapurinn okkur aðgang að öðrum heimum en okkar eigin. Einmitt þar tekst Vitu Andersen einstaklega vel upp í Indigo, dimmfjólubláa litnum sem í augum barnsins í sögunni er fyrst og fremst tákn hins ófyrirsjánlega valds í heimi hinna fullorðnu.