Zandra Lundberg

Zandra Lundberg

Zandra Lundberg

Photographer
Tiina Tahvanainen
Zandra Lundberg: Konsten att inte hitta sig själv på Bali, prósafrásögn, Schildts & Söderströms, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Er einhver leið fær út úr dýpsta þunglyndi?

 

Æ oftar lesum við um ungmenni í glímu við myrkur sem yfirtekur sál og líkama og lætur allt virðast tilgangslaust.

 

Þetta er viðfangsefni sem mikið hefur verið skrifað um, ekki síst í svonefndum sjálfshjálparbókum. Fáir höfundar hafa þó fjallað um þessi mál eins ákaft og af jafnhjartnæmri innlifun og Zandra Lundberg (f. 1987) í sinni fyrstu bók, Konsten att inte hitta sig själv på Bali („Listin að finna ekki sjálfa sig á Balí“, ekki útgefin á íslensku), sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

 

Lundberg hóf blaðamennskuferil sinn aðeins fimmtán ára gömul á bæjarblaði í Álandseyjum. Nokkrum árum síðar hóf hún störf á kvöldblaðinu Aftonbladet í Stokkhólmi og vakti athygli fyrir skrif sín um dægurmál. Það er sjaldgæft að svo ungur höfundar nái að fóta sig jafnfljótt í heimi fjölmiðlanna.

 

En velgengnin er dýru verði keypt. Æskuheimili Zöndru Lundberg í Maríuhöfn var litað af ofbeldi og alkóhólisma. Undir sjálfsöruggu yfirborði geymdi hún minningar sem voru nærri búnar að tortíma henni. Þegar á unglingsárum sökk hún á tímabilum í djúpt þunglyndi og sjálfseyðingarhvöt, sem ágerðist enn frekar vegna sambanda hennar við ofbeldisfulla menn. Erilsamt vinnuumhverfið í fjölmiðlaheiminum, þar sem helsta verkefni Lundberg var að grufla í einkalífi fræga fólksins, olli henni miklum kvíða sem hún reyndi árangurslaust að berjast gegn. Hún fór að sækja í hugleiðslu, einkum jóga, til að koma jafnvægi á tilveruna.

 

Líkt og margir aðrir lét hún sig dreyma um frelsið á hinni fjarlægu eyju Balí, eins og því er lýst í vinsælli bók eftir Elizabeth Gilbert, Borða, biðja, elska (ísl. þýð. Hilmar Karlsson, útg. Salka 2010). En eftir nokkrar ferðir til Balí í Indónesíu og Góa á Indlandi er upplifun Lundberg á allt aðra leið: hún þráir öryggistilfinningu en finnst hún stöðugt vera á barmi taugaáfalls. Það veitir henni hugarfró um stund að einbeita sér að jógaiðkun. Á næsta augnabliki fellur hún í svarthol angistar og sjálfsmorðshugleiðinga. Fólkið sem hún hittir umbreytist í skugga í eyðilegu landslagi. Textinn verður að andlegri lýsingu á helvíti þegar hún ferðast frá Balí á vit vægast sagt ruglingslegrar hreyfingar í Hollandi, sem stundar beinlínis mannskemmandi æfingar. Hún leitar sjálfrar sín en er nærri drukknuð í eigin tárum: „Ég er hrædd við sjálfa mig. Hrædd við myrkrið í mér.“

 

Zandra Lundberg skrifar knappan og áhrifamikinn stíl. Sjálfsævisögulegt innihaldið tekur á sig mynd skáldsögu þar sem tilþrifamiklar einræður grípa lesandann föstum tökum. Af mikilli leikni og næmi fyrir blæbrigðum orðanna lýsir hún því sem á sér stað þegar hin viðkvæma himna utan um mannssálina er að því komin að bresta. En einnig þeim draumi um bjartari veröld sem kviknar samfara barninu sem hún er langt gengin með á lokasíðum bókarinnar.

 

Þetta er bók um sorg og umkomuleysi, um það þegar hróp eyðimerkurinnar taka öll skilningarvit yfir. En í leit Zöndru Lundberg að hugarfró og sátt má einnig finna þrjóskulega hlýju. Inni á milli glittir í absúrd kímni.

 

Þannig má þrátt fyrir allt lesa Konsten att inte hitta sig själv på Bali sem nokkurs konar óð til lífsins – til hins hörmulega, kynngimagnaða og undursamlega.