Adam O.

Adam O.
Ljósmyndari
Simon Klein Knudsen
Adam O.: Den rustne verden 3 – Ukrudt. Framtíðarsaga, Høst & Søn/Gyldendal, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Den rustne verden 3 – Ukrudt („Ryðgaður heimur 3: Illgresi“, hefur ekki komið út á íslensku) er ósvikin framtíðarsaga með vistfræðilegri nálgun.

Verkið stendur á styrkum fótum í samtímanum. Strax í upphafi birtist lesandanum eins konar röntgensýn á framtíðina – í senn drungaleg og full af von í anda aðgerðastefnu Gretu Thunberg. Höfundur hefur skapað úthugsaðan alheim, allt frá flóknum valdakerfum til hugvitsamlegra tækninýjunga.

Danmörk er orðin að ruslahaug fyrir sorp og plastúrgang og jarðarbúar eru loftslagsflóttamenn sem ýmist búa undir gríðarstórum plexíglerkúpli á Grænlandi eða í Malmö. Aðalpersónurnar, sem lesandinn upplifir atburðarásina í gegnum, eru fjögur systkini. Ramona, Bowie, Peter og Lærke eiga öruggt og þægilegt líf í Nýju-Kaupmannahöfn ásamt foreldrum sínum, sem eru fastráðnir starfsmenn jákvæðniráðuneytisins. Þegar systkinin eru á leið til Svíþjóðar að heimsækja afa sinn hrapar sjálfstýrða þotan og lendir í ruslalandinu Danmörku. Á ferðalagi sínu yfir háskalegt landslagið komast þau að því að margt en öðruvísi en þeim hefur sýnst úr sinni vernduðu tilveru fram að þessu.

Systkinin fjögur berjast fyrir loftslaginu og réttlætinu, meðal annars við bardagavélmenni og kaldrifjaðar fjölmiðlastjörnur. Þau hitta auðvitað líka gott fólk – og vélmenni, meðal annars Brota, ástúðlegt námuvélmenni á eftirlaunum sem verður vinur í raun.

Bækurnar í flokknum Den rustne verden einkennast af mikilli málauðgi og kímnigáfu, mitt í kuldalegum söguheimi. Sagan er æsispennandi og jafnframt hjartnæm, einkum hvað snertir tengsl barnanna við vélmennin, hvert annað og þann hóp aðgerðasinna sem gengur smám saman til liðs við þau. Hinn tiltölulega óreyndi rithöfundur Adam O. hefur skapað aðgengilega, smækkaða mynd af alheiminum sem endurspeglar allt sem við þekkjum úr hversdegi okkar: rusl, falsfréttir og skaðsemi einokunar. Stíll höfundar er beittur en jafnframt leikandi léttur og verður því aldrei að „málmkenndri rödd“ í þessari dásamlega óvægnu vísindaskáldskaparfrásögn, sem inniheldur skarpa gagnrýni á siðmenninguna og er ávallt í augnhæð við markhópinn.

Hver kafli hefst á mynd eftir höfundinn sjálfan, sem byrjaði sem myndasöguhöfundur. Myndskreytingarnar bera líka ýmis skýr einkenni teiknimyndasagna, með skörpum útlínum og átakamiklum sjónarhornum. Með þeim er undirstrikað hvernig andrúmsloft bókarinnar er þrúgað af þjáningu mannfólksins andspænis gríðarmiklu bákni sem einkennist af brotajárni og skeytingarleysi. Þeim mun skýrari verður síðasta myndin í bókinni, þar sem Ramona og Broti ryðjast gegnum múrinn af miklu afli, nánast alla leið inn í stofu hjá lesandanum. Það er til marks um von og óbilandi atorku.

Adam O. skrifar á sannfærandi hátt um von í heimi þar sem ljósið virðist slokknað, og gerir það af alveg sérstakri ákefð.