Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir
Blokkin á heimsenda segir frá ósköp venjulegri fjölskyldu dagsins í dag. Foreldrarnir eru á kafi í nútímanum með vistvænt samviskubit, og börnin mæla lífsgæði sín í styrk nettengingarinnar. Aðalpersónan Dröfn spilar Minecraft flestum stundum en Ingó, eldri bróðir hennar, sinnir YouTube-rásinni sinni.
Allt þetta breytist snögglega þegar foreldrarnir ákveða að flytja til afskekktrar eyjar langt úti fyrir ströndum Íslands. Þangað á heimilisfaðirinn rætur að rekja og á eyjunni býr öldruð móðir hans enn. Dröfn veit ekki hvað bíður hennar hjá ömmunni, sem hún hefur aldrei hitt, en fljótlega kemur í ljós að samfélagið á eynni er gerólíkt því sem þau hafa alist upp við.
Amma býr ásamt öllum hinum eyjarskeggjunum í Blokkinni, húsi sem gnæfir yfir ónettengdri eyjunni eins og fjall. Þar ræður amma ríkjum sem Húsvörðurinn, með stórum staf. Í Blokkinni er ekkert pláss fyrir þá sem þiggja meira en þeir leggja til og þess vegna hefur hver íbúi sinn starfstitil og sitt samfélagshlutverk. Það er bæði lærdómsríkt og ævintýralegt að elta systkinin úr nútímalífinu inn í þennan furðuheim nægjusemi og endurnýtingar þar sem íbúarnir framleiða rafmagn á æfingahjólum og ekkert gerist af sjálfu sér.
Höfundarnir flétta saman húmor og hugmyndaauðgi í frumlegri sögu sem felur í sér gagnrýni á neyslusamfélagið og ofgnótt þess. Sá boðskapur íþyngir þó aldrei frásögninni, því að leikurinn og gleðin skín alltaf í gegn. Um leið er sett spurningarmerki við þá einföldun sem einkennir þetta „fyrirmyndarsamfélag“ þar sem allir hafa ákveðið hlutverk, þurfa að þjóna heildinni og víkja persónulegum löngunum og draumum til hliðar.
Eitt meginstefið í bókinni er uppbygging og virkni samfélags, hvað það þýðir að tilheyra samfélagi og hafa þar hlutverk eins og allir aðrir. Einn fyrir alla, allir fyrir einn Dröfn lærir að undirstaða hvers samfélags er fólgin í samskiptum. Mislingar herjuðu á eyjuna eitt árið og tvö heyrnarlaus börn fæddust. Þá lagðist samfélagið á eitt og hver einasti íbúi talar táknmál, því hver einasti íbúi skiptir máli og allir verða að geta skilið hver annan.
Bókin varpar einnig fram spurningum um hvað einstaklingurinn hefur fram að færa og hverju hann þarf að fórna fyrir heildina. Á eyjunni er allt nýtt til hins ýtrasta, líka fólkið. Samfélagið er vél og fólkið er tannhjólin, allir leggjast á eitt til að vélin gangi smurt. En hvað gerist ef einhver hreinlega vill ekki þetta líf og sættir sig ekki við þetta þrönga skipulag? Bókin fjallar ekki síður um uppreisn: uppreisn barna gegn foreldrum, uppreisn gegn neysluhyggju samfélagsins, og uppreisn þeirra sem þrá eitthvað annað en það sem samfélagið skammtar þeim.
Þó að umfjöllunarefnin í Blokkin á heimsenda séu hápólitísk – náttúruvernd, samfélag og stjórnarfar – er frásögnin öll út frá sjónarhóli barna. Dröfn er sterk, hugrökk og gagnrýnin á umhverfi sitt. Hún greinir breyskleika foreldra sinna og samfélagsins, sem gerir lestrarupplifunina einstaklega valdeflandi fyrir barn.
Arndís Þórarinsdóttir lærði bókmenntafræði og ritlist. Hún var um tíma formaður Íslandsdeildar IBBY og býr í Reykjavík. Hulda Sigrún Bjarnadóttir hefur bæði lært sálfræði og bókasafnsfræði. Báðar eru búsettar í Reykjavík og starfa sem rithöfundar.
Blokkin á heimsenda hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir óbirt handrit.