Mary Ailonieida Sombán Mari og Sissel Horndal

Mary Ailonieida Sombán Mari och Sissel Horndal
Photographer
Ánde Somby & Geir Anders Hætta Berg
Mary Ailonieida Sombán Mari og Sissel Horndal (myndskr.): Arvedávgeriikii. Myndabók, Davvi Girji, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Arvedávgeriikii („Til regnbogalandsins“, ekki gefin út á íslensku) er norðursamísk barnabók eftir Mary Ailonieida Sombán Mari. Sissel Horndal myndskreytti bókina. Mary Ailonieida Sombán Mari sendi frá sér sína fyrstu bók 1976, barnabókina Ámmul ja alit oarbmælli („Ámmul og bláa frænkan“, ekki gefin út á íslensku), sem var fyrsta útgefna samíska barnabókin. Hún hefur verið afkastamikill höfundur allar götur síðan og gefið út fjölda bóka fyrir bæði börn og fullorðna. Textar hennar eiga oft sterkar rætur í samískri goðafræði og samískum hugsunarhætti. Árið 2022 var Mary Ailonieida Sombán Mari tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Beaivváš mánát („Lífið á meðal skriðdýra“, ekki gefin út á íslensku).

 

Arvedávgeriikii er sköpunarsaga um uppruna regnbogans sem hrífur lesandann með sér inn í heim litanna. Hver og einn litur er í líki hreindýrs og höfundurinn lýsir eiginleikum þeirra á fjörugan hátt. Allir litirnir fara í veislu í Rássegáldu á Jónsmessukvöld.

Hlé er gert á gleðskapnum þegar Baján (Þruma) og Álddagas (Elding) mæta saman í veisluna ásamt Gullskýi. Þetta er hinn leikræni hápunktur bókarinnar. Gullský biður litina um að slá í jörðina, einn í einu. Fyrir tilstilli vilja og styrks litanna verður regnboginn til, og vinátta litanna er innsigluð þegar þeir sameinast í regnboganum. Regnboginn verður að skarti jarðarinnar og stendur fyrir gildi, styrkleika og innri kraft allra hinna ólíku lita.

 

Höfundur bókarinnar býr yfir mikilli frásagnargáfu og tekst á við mikilvæg viðfangsefni á borð við manngildi, vináttu og ást á fallegan og líflegan hátt. Í lýsingum á litunum beitir hún endurtekningu til að útskýra að hver litur eigi sínar eigin nætur, tónlist og karamellur. Með endurtekningunni er brugðið upp fallegri mynd af samheldni – því að jafnvel með alla sína mismunandi styrkleika og sérkenni eiga litirnir líka ýmislegt sameiginlegt.

 

Sissel Horndal myndskreytti Arvedávgeriikii. Horndal hefur skapað frábærar myndskreytingar um litina og eiginleika þeirra. Myndirnar búa yfir ríkri fagurfræði og litadýrð, rétt eins og frásögnin. Litir gegna mikilvægu hlutverki í menningu Sama. Hefðbundnir búningar Samanna eru litskrúðugir og náttúran í landi þeirra býr yfir ríkum andstæðum í litadýrð frá einni árstíð til annarrar. Hið sjónræna eykur við frásögnina sem heild, styrkir hana og gerir lestrarupplifunina ánægjulega.

 

Bókin á mikið erindi við þjóðfélagsumræðu dagsins í dag og höfundur tekst á við þema regnbogans og fjölbreytileikans á afar hugljúfan og fjörugan hátt – einmitt eins og hæfir í barnabók. Frásögnin er frumleg og hefur skýra tengingu við samískan hugsunarhátt, gildi og heimssýn. Arvedávgeriikii er góð og mikilvæg barnabók.