Niillas Holmberg

Niillas Holmberg
Photographer
Marek Sabogal
Niillas Holmberg: Juolgevuođđu. Ljóðabók, DAT, 2018. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Bókin Juolgevuođđu („Ilin“, Fotsålen í væntanlegri norskri þýðingu Endre Ruset hjá forlaginu DAT) minnir á pólitískan og lævísan jojk-söng. Þetta er listræn ljóðabók þar sem myndskreytingar og orð, valin af kostgæfni, leggjast á eitt við að skapa fagurfræði sem veitir rými til umfangsmeiri þankagangs um vilja og þekkingu á náttúruvernd. Neðanjarðarverurnar spegla gjörðir okkar og vekja athygli okkar á þeim svo að við mannfólkið getum ekki annað en skilið hver dómurinn hlýtur að verða. Þetta er ljóðabók sem vekur til umhugsunar. Við verðum að íhuga þá leið sem iljar okkar feta, því fæturnir eru snertipunktar okkar við jörðina – þá jörð sem við eigum að standa vörð um.

Í bókinni er bæði að finna nýstárlega nálgun á málfræði og samsett nýyrði, svo sem orðið vearbbáska. Það stendur fyrir athafnir okkar núna, markmið þeirra og þýðingu, og það sem á sér stað á hinu pólitíska sviði.

Myndskreytingarnar í bókinni sýna stíg, skýrt afmarkaða línu sem loks myndar hring. Þetta er dæmigert fyrir hinn heildstæða hugsunarhátt í frumbyggjasamfélögum um að allt tengist. Myndskreytingarnar geta einnig táknað músíkalska slóð sem ljær textanum hljómfegurð og gleður auga lesandans. Táknræn merking ljóðanna er óvægin: birkitré ber þungann af því sem náttúran hefur mátt þola; Hamlet spyr hver eigi nýtingarréttinn og hvernig sá hafi öðlast hann til að byrja með. Að baki myndrænni framsetningu ljóðanna liggja orð sem minna okkur á að hlusta á hjarta jarðarinnar. Myndskreytingar og litadýrð skapa slíkt sjónarspil að bókin bæði þarf og heimtar tíma. Þetta er bók sem vekur löngun eftir sjálfsákvörðunarrétti, viðleitni og aðgerðum.

Bókin byggir á táknum og myndmáli sem tjá samkennd með jörðinni og sýna þær áskoranir sem fylgja náttúruvernd. Hún segir okkur að snúa aftur til jarðarinnar, því það eru fætur okkar sem eru í snertingu við hana. Á fótunum höfum við skó, jafnvel skó úr hreindýrsskinni að hætti Sama, og eitt sterkasta tákn bókarinnar snýr einmitt að snertingu fótanna við jörðina. Skynjun jarðarinnar er vakin – hún grætur og sýnir tilfinningar.

Það getur hugsast, segir í bókinni, að við verðum að snúa aftur til þess sem var í upphafi: Fótanna á okkur. Og við eigum að sýna helstu persónu bókarinnar – skósmiðnum sem býr til og selur skó – minni virðingu. Hversu góðir og þægilegir sem þeir kunna að vera koma skórnir nefnilega í veg fyrir að iljarnar snerti jörðina og eigi samskipti við hana.