Samningur um samstarf á sviði menningarmála

13.05.19 | Samningar
Samningur milli Norðurlandanna um samstarf á sviði menningarmála frá 15. mars 1971 sem tók gildi 1. janúar 1972. Samkomulag um breytingu á samningi gert 13. júní 1983, 6. maí 1985 og 15. september 1989. Síðustu breytingar tóku gildi 1. júní 1990.

Upplýsingar

Signing of agreement
15.03.1971
Effective date for the agreement
01.06.1990
Signing countries
Danmörk
Finnland
Ísland
Noregur
Svíþjóð

Fyrirvari

Athugaðu að þessi texti er ekki opinber útgáfa. Ekki ber að nota textann í lagalegum tilgangi. Norræna ráðherranefndin tekur ekki ábyrgð á villum sem kunna að koma fyrir í textanum.

___________________

 

Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samstarf á sviði menningarmála.

Inngangur að samningnum 15. mars 1971

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,

 

sem taka mið af hinum nánu menningartengslum Norðurlandaþjóða,

 

sem leggja mikla áherzlu á hið margþætta og umfangsmikla samstarf, sem á sér stað með hlutdeild Norðurlandaráðs og annarra samstarfsstofnana, og

 

sem vísa til Samstarfssamningsins milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 1962,

 

hafa gert með sér svofelldan samning:

Inngangur að samningnum 13. júní 1983

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,

 

sem 15. september 1971 undirrituðu samning milli Norðurlanda um samstarf á sviði menningarmála,

 

sem telja ráðvænlegt að gera breytingu á samningnum,

 

hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Inngangur að samningnum 6. maí 1985

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,

 

sem með samkomulagi frá 13. júní 1983 hafa breytt samningi frá 15. mars 1971 milli Norðurlandanna um samstarf á sviði menningarmála, og

 

sem óska að starfshættir í norrænni samvinnu verði árangursríkari,

 

hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Inngangur að samningnum 15. september 1989

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sem með samningum frá 13. júní 1983 og 6. maí 1985 hafa breytt samningi frá 15. mars 1971 milli Norðurlandanna um samstarf á sviði menningarmála, og

 

sem telja ráðvænlegt að gera breytingu á samningnum,

 

hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Markmið samningsins

1. grein

Þessi samningur hefur að markmiði

  • að styrkja og efla með samningsaðilum samstarf á sviði menningarmála í víðtækum skilningi í því skyni að efla hin norrænu menningartengsl og að auka heildarárangur af fjárveitingum ríkjanna til menntunar, vísindarannsókna og annarrar menningarstarfsemi með því að beita sameiginlegri áætlanagerð, samvinnu, samræmingu og verkaskiptingu, svo og

 

  • að skapa skilyrði fyrir greiðvirka framkvæmd samstarfsins.

 

2. grein

Það er jafnframt markmið samningsins að leggja grundvöll að samhæfðum aðgerðum Norðurlandaþjóða í alþjóðlegu menningarmálasamstarfi.

Gildissvið

3. grein

Samstarfið á sviði fræðslumála skal beinast að

a. markmiðum fræðslunnar, inntaki hennar og aðferðum,

 

b. gerð fræðslukerfisins,

 

c. rannsóknum og annarri starfsemi, sem miða að framförum á sviði skólamála.

 

Í þessu sambandi skulu samningsaðilar

d. efla kennslu í tungumálum annarra Norðurlandaþjóða og fræðslu um menningu þeirra og þjóðfélagshætti,

 

e. auka möguleikana á að námsmenn og aðrir, sem heima eiga í einu ríki Norðurlanda, geti aflað sér menntunar og þreytt próf við menntastofnanir í öðrum Norðurlandaríkjum,

 

f. koma á fót sameiginlegum námsbrautum eða sameiginlegum menntastofnunum, einkum í þeim greinum, sem eru lengst á veg komnar eða sérhæfðastar,

 

g. koma á gagnkvæmri viðurkenningu lokaprófa, hlutaprófa og annarra vitnisburða um námsárangur,

 

h. leitast við að samhæfa þá menntun, sem opinberir aðilar standa að og miðar að því að veita réttindi til ákveðinna starfa, á þann veg að hún veiti sömu réttindi í öllum aðildarríkjunum,

 

i. leitast við að verða við óskum ríkisþegna eins Norðurlandaríkis, sem búsettir eru í öðru Norðurlandaríki, um fræðslu á móðurmáli sínu.

 

4. grein

Samstarfið á sviði vísindarannsókna skal beinast að

a. upplýsingum um rannsóknastarfsemi og rannsóknaniðurstöður,

 

b. sameiginlegum rannsóknaverkefnum,

 

c. sameiginlegum rannsóknastofnunum,

 

d. aðferðum og stjórntækjum, sem beitt er í meðferð vísindamála,

 

e. skipulagi rannsóknamála,

 

f. samhæfingu rannsóknaáætlana landanna í milli.

 

Í þessu sambandi skulu samningsaðilar

g. stuðla að ráðstefnum, mótum og fundum norrænna vísindamanna, svo og að sameiginlegri útgáfu vísindarita,

 

h. leitast við að hvetja vísindamenn og rannsóknastofnanir frá tveimur eða fleiri Norðurlandaríkjum til að koma á virkari samstarfsháttum og til sameiginlegrar nýtingar sérstaklega dýrra eða mjög sérhæfðra tækja.

 

5. grein

Samstarfið skal taka til annarrar menningarstarfsemi í víðtækum skilningi og beinast að

a. hinni almennu stefnu í menningarmálum, inntaki hennar og aðferðum,

 

b. stofnunum, skipulagi og fjármögnun á sviði menningarmála.

 

Í þessu sambandi skulu samningsaðilar hafa með sér samstarf um

c. gagnkvæm skipti milli tveggja eða fleiri Norðurlandaríkja á sviði lista og annarra menningarmála.

 

___

1 Breyting á d-lið, 1989/90.

 

d. starfsemi á sviði fjölmiðlunar sem tekur til hljóðvarps, sjónvarps, kvikmynda, myndbanda og annarra rafeindafjölmiðla - bæði að því er varðar framleiðslu og dreifingu - með tilliti til hins menningarlega þáttar,

starfsemi skjalasafna, bókasafna og annarra safna, svo og um aðra menningarmiðlun,

starfsemi sem lýtur að verndun menningarminja.

e. efling starfsemi félaga og samtaka, sem starfa að almennum menningarmálum, þ.á m. einnig á sviði askulýðs- og íþróttamála.

 

f. að búa í haginn fyrir skapandi og túlkandi starfsemi i öllum listgreinum,

 

g. að efla möguleika listamanna og annarra, sem að menningarmálum vinna, til starfa hvarvetna á Norðurlöndum.

 

6. grein

Samningsaðilar skulu stefna að því að koma fram sameiginlega á alþjóðavettvangi á þeim sviðum, sem samningur þessi tekur til, svo og hafa samstarf um

a. að miðla upplýsingum um menningarlíf á Norðurlöndum og

 

b. að leita sameiginlegrar eða samræmdrar afstöðu til mála í alþjóðlegu menningarsamstarfi.

 

Samningsaðilar geta tekið ákvörðun um að fela sameiginlegum fulltrúum að koma fram fyrir þeirra hönd í alþjóðlegu menningarmálasamstarfi.

 

7. grein

Samstarfið skal taka til öflunar og miðlunar upplýsinga og heimildagagna á þeim sviðum, sem um ræðir í 3., 4., 5. og 6. gr. samningsins.

Samstarfsstofnanir og samstarfshættir

8. grein

Framkvæmd samstarfsins er í höndum Ráðherranefndar Norðurlanda, sem stofnuð er samkvæmt Samstarfssamningnum milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 1962 með síðari breytingum, norrænna ráðherrafunda, stofnana þeirra, sem komið er á fót samkvæmt þessum samningi, svo og viðkomandi stjórnvaldsaðila á Norðurlöndum, milliliðalaust.

 

Samstarf það, sem samningur þessi gerir ráð fyrir, fer fram með aðild Norðurlandaráðs.

 

9. grein

Ráðherranefndin (menningar- og kennslumálaráðherrarnir) tekur þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðum samningsins.

 

2 Nýr texti 1985.

 

10. grein

Liður í framkvæmd þessa samnings er að setja á stofn embættismannanefnd um norrænt menningarmálasamstarf.

 

Ráðherranefndin skipar nefndir og starfshópa til að sinna sérstökum verkefnum.

 

2 Nýr texti 1985.

 

11. grein

Í embættismannanefndinni skal vera einn fulltrúi frá hverju landi, skipaður af ríkisstjórninni. Embættismenn frá Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi geta tekið þátt í fundum nefndarinnar.

 

Embættismannanefndin undirbýr störf ráðherranefndarinnar og sinnir þeim verkefnum, sem ráðherranefndin felur henni eða veitir henni umboð til að leysa úr.

 

Ráðherranefndin setur embættismannanefndinni starfsreglur.

 

3 Nýr texti 1983.

 

12. grein

Skrifstofa ráðherranefndar Norðurlanda aðstoðar ráðherranefndina og embættismannanefndina. Samkvæmt ákvörðun ráðherranefndarinnar getur hún aðstoðað aðrar norrænar samstarfsstofnanir.

 

2 Nýr texti 1985.

 

13. grein

Til þess að tryggð verði fullnægjandi samvinna milli samstarfsstofnananna og viðkomandi stjórnvaldsaðila í hinum einstöku ríkjum, skuldbinda samningsaðilar sig til að hlutast hver í sínu landi til um hagvirkt skipulag á meðferð þeirra samstarfsmálefna, er samningur þessi tekur til.

 

14. grein

Sérhver samningsaðili skal í ráðherranefndinni, á öðrum ráðherrafundum eða í embættismannanefndinni leita samráðs við hina samningsaðilana, áður en hann tekur mikilvægar ákvarðanir á þeim sviðum, er samningur þessi tekur til.

Fjármögnun samstarfsins

15. grein

Kostnaður við samstarfið greiðist samkvæmt fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar, sem nefnd er í 64. gr. samstarfssamningsins milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar með áorðnum breytingum.

 

Ráðherranefndin lætur vinna tillögu að fjárhagsáætlun og ákveður skiptingu fjár til sameiginlegra stofnana, starfsáætlana og annarrar starfsemi innan þess heildarramma, sem settur er í hinni sameiginlegu norrænu fjárhagsáætlun.

 

2 Nýr texti 1985.

Lokákvæði

16. grein

Samning þennan skal fullgilda, og skulu fullgildingarskjölin svo skjótt sem við verður komið afhent finnska utanríkisráðuneytinu til varðveizlu.

 

Samningur þessi skal varðveittur í finnska utanríkisráðuneytinu, sem sendir hverjum samningsaðila staðfest afrit.

 

Samningurinn tekur gildi fyrsta dag þess mánaðar, sem næstur fer á eftir þeim degi, er fullgildingarskjöl allra samningsaðila hafa verið afhent.

 

4 16.-19. gr. samningsins falla brott og upprunalegu gr. 20-22 verða gr. 16-18, skv. samningi um breytingar frá 1985.

 

17. grein

Æski einhver samningsaðila að segja samningnum upp, skal skrifleg tilkynning um það send ríkisstjórn Finnlands, er tafarlaust skal skýra hinum samningsaðilunum frá því, svo og hvenær tilkynningin hafi borizt.

 

Samningurinn fellur úr gildi við lok þess almanaksárs, er einhver samningsaðila segir honum upp, svo framarlega að uppsagnartilkynningin hafi borizt finnsku ríkisstjórninni eigi síðar en 30. júní það ár, en ella við lok næsta almanaksárs.

 

18. grein

Eftir viðtöku uppsagnartilkynningar skulu allir samningsaðilar hafa samráð sín í milli um niðurfelling þeirra réttinda og skyldna, sem samningsaðilum voru fengin samkvæmt samningnum.

[- - -]

Lokaákvæði samningsins 15. september 1989

Samningurinn öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt finnska utanríkisráðuneytinu að hann hafi verið samþykktur.

 

Finnska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga, og um þann dag er samningurinn öðlast gildi.

 

Frumrit samnings þessa skal varðveitt í finnska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest eftirrit af því.

 

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað samning þennan.

 

Gjört í Kaupmannahöfn 15. september 1989 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.

[- - -]

_________________