Fundur með Svetlönu Tsíkanovskaju

13.08.21 | Fréttir
Svetlana Tikhanovskaja
Ljósmyndari
Stortinget
Mannréttindi og brot á leikreglum lýðræðisins voru á dagskránni þegar Nina Sandberg frá velferðarnefnd Norðurlandaráðs átti fund með stjórnarandstöðuleiðtoga Hvíta-Rússlands, Svetlönu Tsíkanovskaju, í Stórþinginu í Noregi.

„Velferðarnefnd Norðurlandaráðs styður kröfu hvítrússnesku þjóðarinnar um lýðræði og við fordæmum það ofbeldi sem almennir borgarar landsins hafa verið beittir,“ segir Nina Sandberg, varaformaður í velferðarnefnd Norðurlandaráðs, í tengslum við fundinn með stjórnarandstöðuleiðtoga Hvíta-Rússlands, Svetlönu Tsíkanovskaju, sem fram fór í norska Stórþinginu í vikunni. Á fundinum lýsti Nina Sandberg yfir áhyggjum af þeim atburðum sem fregnast hafa frá Hvíta-Rússlandi. Hún lagði áherslu á mikilvægi fjölmiðlafrelsis, þess að láta pólitíska fanga lausa og að þeir sem fremji ofbeldisglæpi verði dregnir til ábyrgðar.   

Mannréttindi í brennidepli 

Norðurlandaráð hefur fundað tvisvar áður með Tsíkanovskaju á undanförnu ári. Á þeim fundum lýsti Norðurlandaráð einnig yfir áhyggjum af þróuninni í Hvíta-Rússlandi og lagði áherslu á mikilvægi þess að virða reglur lýðræðisins og mannréttindi í öllum löndum. Nina Sandberg lagði einnig áherslu á sömu atriði á þessum fundi. Mannréttindi eru lykilmálaflokkur í pólitísku starfi velferðarnefndar Norðurlandaráðs í norrænu löndunum – meðal annars með jaðarsetta hópa, jafnrétti og tjáningarfrelsi í brennidepli.       

 

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs styður kröfu hvítrússnesku þjóðarinnar um lýðræði og við fordæmum það ofbeldi sem almennir borgarar landsins hafa verið beittir.

Nina Sandberg, varaformaður í velferðarnefnd Norðurlandaráðs

Tsíkanovskaja kallar eftir stuðningi við stjórnarandstöðuna 

Á fundinum deildi Tsíkanovskaja sýn sinni á þróunina í Hvíta-Rússlandi og kallaði eftir stuðningi við málstað stjórnarandstöðunnar. Áður en Tsíkanovskaja heimsótti Stórþingið fundaði hún meðal annars með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í sumar, auk Borisar Johnson forsætisráðherra Bretlands.     

Þau sátu fundinn

Fundinn sátu tveir Hvít-Rússar auk Svetlönu Tsíkanovskaju, þau Franak Viačorka, aðalráðgjafi og yfirmaður utanríkisráðuneytisins, og Hanna Ljúbakova, ráðgjafi. Fulltrúar norska Stórþingsins á fundinum voru Ingjerd Schou, formaður sendinefndar Stórþingsins í Þingmannasamtökum Evrópuráðsins, og Åsmund Aukrust, fulltrúi í sendinefnd Stórþingsins í Þingmannasamstarfi RÖSE (Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu), auk Ninu Sandberg, sem er meðlimur í landsdeild Stórþingsins í Norðurlandaráði.