Aðlögun að vinnumarkaði í Danmörku

Beskæftigelsesrettet indsats i Danmark
Ef þú býrð við skerta starfsgetu kanntu að eiga rétt á aðlögun að vinnumarkaði í Danmörku. Það getur t.d. falist í vinnumarkaðsúrræði, virkniúrræði, sveigjanlegu starfi eða endurhæfingu.

Einstaklingur sem á þess ekki kost að stunda vinnu vegna veikinda og á ekki rétt á sjúkradagpeningum getur haft samband við sveitarfélag sitt. Viðkomandi getur átt rétt á vinnumarkaðúrræði (jobafklaringsforløb), virkniúrræði (ressourceforløb) eða sveigjanlegu starfi (fleksjob) ef hann/hún er með langvarandi og alvarlega skerðingu á starfsgetu. Einnig er mögulegt að viðkomandi eigi rétt á endurhæfingu (revalidering).

Vinnumarkaðsúrræði

Hægt er að fara inn í vinnumarkaðsúrræði ef viðkomandi getur ekki unnið vegna veikinda og á þess ekki kost að frá framlengingu á greiðslu sjúkradagpeninga.

Meðan á úrræðinu stendur mun einstaklingurinn hitta meðferðarteymi sveitarfélagsins sem mun aðstoða við að finna úrræði við hæfi viðkomandi. Í kjölfar fundarins mun ráðgjafi sjá til þess að sú starfsemi sem getur stuðlað að því að viðkomandi komist aftur út á vinnumarkað komist til framkvæmda. Þetta getur verið starfsemi í samræmi við atvinnuleysislöggjöfina svo sem starfsþjálfun, starf þar sem sveitarfélagið tekur þátt í launkostnaði eða stuðningur til þess að snúa í áföngum aftur á fyrri vinnustað, sé hann fyrir hendi. Einnig getur verið um að ræða starfsemi í samræmi við önnur lög svo sem aðstoð við að takast á við áskoranir sem tengjast mataræði, hreyfingu, líkamlega endurhæfingu samkvæmt heilbrigðislöggjöf eða hjálp við að takast á við áskoranir sem tengjast efnahag, börnum og fjöllskyldu samkvæmt lögum um félagslega þjónustu.

Vinumarkaðsúrræði getur að hámarki varað í tvö ár. Sé einstaklingur enn óvinnufær vegna veikinda að þeim tíma liðnum á viðkomandi þess kost að taka aftur þátt í vinnumarkaðsúrræði. Meðan á úrræðinu stendur á einstaklingurinn rétt á virknibótum að því tilskildu að hann/hún taki þátt í þeirri starfsemi sem ráð er fyrir gert í meðferðaráætluninni. Ekki er hægt að flytja virknibætur sem veittar eru meðan á vinnumarkaðsúrræði stendur með sér út landi.

Meginreglan er sú að einstaklingur sem er búsettur í öðru ESB/EES-ríki og starfar í Danmörku á rétt á dönskum sjúkradagpeningum, sé hann veikindaskráður. Hefji einstaklingur töku virknibóta meðan á vinnumarkaðsúrræði stendur er það skilyrði að viðkomandi dveljist í Danmörku. Þetta þýðir í grunninn að einstaklingur sem er búsettur í öðru ESB/EES-landi á ekki rétt á virknibótum meðan á vinnumarkaðsúrræði stendur.

ESB/EES-borgari getur þó fengið þessar bætur greiddar ef hann/hún uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  • Viðkomandi er áfram í ráðningarsambandi við atvinnurekanda í Danmörku.
  • Starfsemin sem tengjast vinnumarkaðsúrræðinu á sér stað í Danmörku.
  • Viðkomandi er virkur þátttakandi í vinnumarkaðsúrræðinu í Danmörku.

Virkniúrræði, sveigjanlegt starf og fyrirframlífeyrir (førtidspension)

Meðferðarteymi sveitarfélagsins fer með öll mál sem snúa að virkniúrræði, sveigjanlegu starfi og fyrirframlífeyri. Í þessum málum skal meðferðarteymið mæla með því við sveitarfélagið hvort viðkomandi fái virkniúrræði, sveigjanlegt starf, fyrirframlífeyri eða annars konar aðlögun að vinnumarkaði. Ráðgjafi viðkomandi tekur þátt í fundinum með teyminu.

Virkniúrræði

Virkniúrræði er í boði fyrir þá sem kunna að fá úrskurð um fyrirframlífeyri. Tilgangurinn með virkniúrræðinu er að þróa starfshæfni. Stefnt er að því að viðkomandi komist í starf eða nám sem hæfir starfsgetu hans/hennar.

Í virkniúrræði getur falist mismunandi starfsemi en það er byggt upp þannig að það hæfi viðkomandi. Sumt af starfsemi virkniúrræðisins getur átt sér stað samtímis en annað tekur hvert við af öðru. Markmiðið er alltaf að bæta líðan viðkomandi og að hann/hún nái markmiðum sínum og óskum um starf eða nám. Einstaklingurinn tekur þátt í samtölum við ráðgjafa sinn jafnt og þétt þar sem starfsemin er aðlöguð og breytt ef þurfa þykir.

Virkniúrræði getur staðið í eitt til þrjú ár. Meðan á úrræðinu stendur á einstaklingurinn rétt á virknibótum að því tilskildu að hann/hún taki þátt í þeirri starfsemi sem ráð er fyrir gert í meðferðaráætluninni.

Ekki er hægt að greiða bæturnar ef viðkomandi dvelst erlendis.

Sveigjanlegt starf

Sveigjanlegt starf er ráðning í starf þar sem sérstakt tillit er tekið til að starfsgeta viðkomandi er takmörkuð af heilsufarslegum ástæðum. Þetta hefur í för með sér að verkefni og vinnutími í sveigjanlegu starfi er aðlagað að því sem viðkomandi ræður við.

Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til þess að sveitarfélagið geti veitt viðkomandi sveigjanlegt starf:

  • Viðkomandi má ekki vera búin/n að ná ellilífeyrisialdri.
  • Sveitarfélagið verður að meta það svo að starfsgeta viðkomandi sé verulega skert og til langs tíma.
  • Allir möguleikar til ráðningar í venjulegt starf, til dæmis með því að reyna að skipta um starfssvið, verða að vera fullkannaðir.

Hægt er að finna sveigjanlegt starf innan allra starfsgreina. Í sveigjanlegu starfi gefst bæði kostur á að starfa við það sem viðkomandi hefur menntað sig til eða hefur reynslu af úr fyrri störfum. Einnig er hægt að skipta um starfsgrein og nýta reynslu sína á nýjan hátt.

Einstaklingur sem á heima í öðru ESB- eða EES-ríki getur haldið sveigjanlegu starfi sínu í Danmörku meðan viðkomandi er ráðinn í starf hjá atvinnurekanda með höfuðstöðvar í Danmörku.

Fyrirframlífeyrir

Þú getur lesið nánar um fyrirframlífeyri á vefsíðum Info Norden.

Endurhæfing (revalidering)

Endurhæfing hefur þann tilgang að hjálpa einstaklingum sem búa við skerta starfsgetu af andlegum, líkamlegum eða félagslegum ástæðum aftur úr á vinnumarkaðinn.

Dæmigerð endurhæfing felst í menntun, þjálfun eða endurmenntun. Einnig getur verið um að ræða starfsnám eða starf með launaframlagi frá sveitarfélagi hjá atvinnurekanda í annaðhvort opinbera geiranum eða einkageiranum.

Meðan á endurhæfingu stendur fær viðkomandi greiddar endurhæfingarbætur, fjárhagsaðstoð og í sérstökum tilvikum laun samkvæmt kjarasamningi.

Til að eiga rétt á endurhæfingu:

  • þarf viðkomandi að vera með takmarkaða starfsgetu,
  • þarf viðkomandi að eiga raunhæfan möguleika á að geta framfleytt sér að öllu leyti eða að hluta, og
  • mega önnur úrræði, t.d. samkvæmt lögum um aðlögun að vinnumarkaði eða öðrum lögum, ekki duga til þess að koma eða halda viðkomandi á vinnumarkaði.

Sveitarfélagið tekur ákvörðun um endurhæfingu að loknu nákvæmu mati.

Hefur þú spurningar?

Hafa skal samband við búsetusveitarfélag ef spurningar vakna.

Nánari upplýsingar

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna